05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2624 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

241. mál, starfsemi húsmæðraskóla

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um starfsemi húsmæðraskóla, en hún liggur hér fyrir á þskj. 341. Á því er fsp. í sex liðum og ég ætla að lesa þá, með leyfi forseta:

„1. Hversu mörg skólahús í landinu eru byggð fyrir húsmæðrakennslu, og hve mikið er þetta húsnæði að rúmmáli?

2. Hversu margir þessara skóla eru nú starfandi?

3. Hve margir nemendur stunda nú nám í húsmæðraskólum?

4. Hve margir kennarar annast kennslu þeirra?

5. Eru einhverjir skólanna nýttir til annarrar starfsemi en húsmæðrakennslu?

6. Hve mikið húsrými er í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og hvaða starfsemi fer þar fram?“

Herra forseti. Ég tel að þessar spurningar skýri sig sjálfar. Okkur er öllum ljóst að húsmæðrakennsla hefur tekið miklum breytingum af ýmsum ástæðum. Margvíslegar breytingar í þjóðfélaginu hafa valdið því að áhugi kvenna, og ég tala nú ekki um karla, hefur minnkað á þessari grein menntunar. Við höfum enn þá í landinu lög um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands annars vegar sem eru lög frá 1975. Hins vegar lög um hússtjórnarskóla sem eru nr. 53, einnig frá 1975. Lögin um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands eru auðvitað lög sem í sjálfu sér eru fallin úr gildi að því leyti til, að nú hefur Kennaraháskóli Íslands yfirtekið hússtjórnarkennslu í landinu. Því þyrfti vissulega að fella þessi lög, að mínu viti, úr gildi. Ég sé ekki að þau séu nauðsynleg lengur. Hins vegar er ljóst að Alþingi þarf að taka ákvörðun um það fyrr eða síðar hvort að húsmæðrakennslu eða kennslu í hússtjórn, eins og það er kallað núna, skuli hlúð eða hvort menn vilji leggja hana niður. Hér hefur svo mjög fækkað í þingsölum að ég hygg að það sé hið síðarnefnda sem sé vilji hv. alþm. Ég er hins vegar ekkert viss um að ég sé sammála því. Ég held hins vegar að mjög nauðsynlegt sé að hið háa Alþingi fái upplýsingar um stöðu húsmæðraskóla í landinu og þá jafnframt áform hæstv. ráðh. um framtíð þessarar kennslu.

Ég vil minna á að hv. þm. Salome Þorkelsdóttir hefur flutt mál hér í þinginu um aukna kennslu í hússtjórn í grunnskólum. Ég hygg að það sé nú þegar orðið vandamál að fá hússtjórnarkennara. Að þessum málum tel ég því að þurfi mjög að hyggja á næstu mánuðum. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja þessa fsp. fram til hæstv. menntmrh. svo að þingið fái upplýsingar um stöðu þessara skóla. Ég skal taka fram, hæstv. menntmrh., vegna orða minna hér áðan, að ég geri engar kröfur um að þær upplýsingar sem nú koma fram verði sérdeilis skemmtilegar.