05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

270. mál, aukafjárveitingar

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég harma ef Alþingi hefur ekki áttað sig á því hvaða fjárveitingar eru ætlaðar skv. lögum til hinna ýmsu stofnana. Fjárveitingavaldið, Alþingi, hefur skorið niður þá fjárveitingu sem lögboðin á að ganga til ferðamálaráðs. Það ætti skv. því að fá 30% af því sem lög mæla fyrir eða 14 millj. En við fjárlagagerðina í maí var það skorið enn þá frekar niður. Þessi aukafjárveiting kemur eftir á til ferðamálaráðs, þegar þekkt er hvað Fríhöfnin gefur af sér. Hér er um mjög lága upphæð að ræða, sem þeir fá, miðað við það sem Alþingi hefur sjálft ætlað ferðamálaráði í lögum. Ég treysti mér ekki til að skerða áætlun ferðamálaráðs meira en þarna var gert.

Næsta ádeila var það, að hv. þm. 8. landsk. þm. getur ekki skilið hvers vegna á aukafjárveitingum er framlag til Alusuisse. Það er ekkert framlag til Alusuisse. Það er framlag til þeirrar nefndar... (KSK: Það er vegna samninga.) Vegna samninga. Ég trúi ekki öðru en hv. þm. skilji að það kostar peninga að hafa samráð. (KSK: Þau voru byggð á fjárlögum.) Ja, þetta er greitt með aukafjárveitingum. Það er ekkert á fjárl. um það. Og hvers vegna það er ekki getur þm. sjálfur svarað eða fengið að vita í fjvn. Þetta kostar okkur mikið og hefur alltaf kostað, en hitt er annað mál að við skulum vona að það gefi meira en það kostar. Ég held að það sé komið í ljós að það gefur eitthvað af sér.

Kannske er afbrigðilegt að tala eða hugsa þannig, en þar sem pólitískar fylkingar mynda fjvn. finnst mér ekkert athugavert við að ráðh., sem ekki hefur neitt slíkt samráð við fjvn., skuli hafa formann og varaformann fjvn. með í ákvörðunartöku um aukafjárveitingar. Það held ég að hljóti að vera talið betra, a.m.k. tel ég það aðhald við mig sem ráðh., að formaður og varaformaður fjvn. séu með í ákvörðunum um aukafjárveitingar. Síðan getum við rifist um það... (Gripið fram í.) Ég er að tala um nefnd alveg eins og ég er að tala um einhverja stjórn sem er lögskipuð af Alþingi. Við skulum taka bankaráð sem dæmi. Ef ég þyrfti að hafa samband fram hjá bankastjórum hefði ég samband við bankaráðsformann eða varabankaráðsformann: Eigum við ekki að kalla saman bankaráðið til þess að hafa samráð við það um eitthvað? Það mundi ég ekki gera. En formaður kallar kannske saman bankaráð eða stjórnir ef á þarf að halda. Fjvn. er a.m.k. upplýst um eina ákvörðun til annarrar og veit hvað er að ske. Ég hlýt að telja að það séu þó framfarir.

Ég er ákaflega ánægður með að orð mín skyldu festast í minni hv. fyrirspyrjanda. Mig minnir að ég segði við gerð fjárlaga að formenn og forstöðumenn yrðu gerðir ábyrgir fyrir framkvæmd fjárlaganna. Það hefur verið gert. Það eru menn, sem ég nefndi áðan, undir forustu ríkisendurskoðanda sem hafa fylgst gaumgæfilega með því. Þegar nálgast það að einhver stofnun hefur tekið út það sem hún á rétt á að fá frá einum tíma til annars mánaðarlega, þá er athugað af hverju hún er að verða búin með sína fjárveitingu og athugað hvort hún misnotar aðstöðu sína með því að taka út í reikning, sem ég hef bannað. Ég hef ekki séð ástæðu til þess að víta eða segja upp neinum forstöðumanni enn þá vegna þess arna, vegna þess að fjárlögin, eins og þau voru samþykkt í maí, stóðust áætlun gjaldalega séð. Ég veit ekki til þess, það getur vel verið að það sé til, að stofnanir séu hýrudregnar einhvers staðar. Það á ekki að vera og ég hef ekki orðið var við það. Og mér er ekki kunnugt um að nokkur stofnun hafi fengið viðbótarfjárveitingu vegna rekstrar nema — ef við köllum það stofnanir — einstaka skólar sem hafa fengið aukafjárveitingar til að gera upp eldri reikninga. Það er vegna aksturs barna eða upphitunar á skólahúsnæði og þá kannske þann tíma sem skóli starfar ekki.

Ég mundi segja að það væri mjög góður árangur að geta haldið sig nálægt áætlun um umframþarfir. Það þarf alltaf í öllum fyrirtækjum, alveg sama hvaða rekstur það er, að gera ráð fyrir því óvænta.

Fjvn. gerir ráð fyrir óvæntum útgjöldum, eins og ég las upp áðan og sýnir að þau eru eðlileg. Þau eru eðlileg í hvaða rekstri sem er. Í þessu tilfelli minnir mig að upphæðin hafi verið rétt undir 400 millj., en þegar upp er staðið fer það ekki meira yfir en í rúmlega 400 millj., sem sagt kannske 20–30 millj. kr. yfir áætlun. Ef allar áætlanir Alþingis stæðust það vel gætum við verið glaðir og kátir.