05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2649 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

270. mál, aukafjárveitingar

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Er það ekki makalaust að það skuli koma fram í máli hv. 5. þm. Norðurl. e. að svo geti hugsanlega farið að það skipist veður í lofti um rekstur stofnananna eftir því hvort það eru að koma kosningar eða ekki? (BD: Það sagði ég ekki.) Ja, svona nánast.

Enn fremur finnst mér hart að það skuli ekkert koma hérna fram frá hæstv. ráðh. varðandi þá ábyrgð sem hann þó gerði að svo miklu umtalsefni við umr. um fjárlögin í okt. 1983. Þar tók hann svo sterklega til orða að forstöðumenn yrðu gerðir ábyrgir fyrir starfsemi stofnana sinna og að það þýddi ekkert að koma og biðja um aukafjárveitingu.

Eins og kom mjög berlega í ljós í máli hv. 3. þm. Reykn. er um mjög miklar fjárhæðir að ræða sem hafa hreinlega sprottið upp án þess að fengist hafi nokkrar viðhlítandi skýringar á því af hverju þær urðu til. Ég kíkti áðan á listann yfir aukafjárveitingar, sem hæstv. fjmrh. var svo vinsamlegur að láta mig hafa, og ég gat ekki séð neina sundurliðun á þeim lista. Þess er bara getið hverjar stofnanirnar eru, en ekki af hverju þeim er veitt aukafjárveiting. (Gripið fram í.) Nei, ég er að segja það. Það kemur hvergi fram í listanum. Ég hefði því gjarnan viljað fá ítarlegra svar við þessu.