06.02.1985
Neðri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2697 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það mál sem er hér til umr. er efalaust eitt alvarlegasta vandamálið sem þjóðin á við að glíma í dag. Það vandamál er sú stefna sem upp var tekin um verðtryggingu og háa vexti og það sem sú stefna hefur svo leitt af sér. Ég var einn af þeim sem bentu á það alla tíð hvernig þessi þróun mundi verða, hvað það mundi leiða af sér ef ætti að verðtryggja fé á þann veg sem ákveðið var. Það er auðvitað lofsvert að þó skuli vera gerð tilraun til að flytja frv. um einhverjar leiðréttingar á ástandinu þó að ég sé alls ekki viss um að þetta frv. leysi þann vanda sem blasir við.

Ég stend í þeirri trú að það gangi ekki upp að borga ekki verðtryggingu á laun, en verðtryggja allar fjárskuldbindingar. Það gengur ekki upp. Það hefur sýnt sig og veldur því óréttlæti sem við horfum öll á í þjóðfélaginu.

Fyrsta mgr. í frv. er um að að miðað sé við opinbera skráða vísitölu, svonefnda lánskjaravísitölu. Á að fara að festa það í lögum að það skuli fara eftir þeirri lánskjaravísitölu eins og hún er upp byggð? Eru menn sammála um að þessi vísitala sé það eina rétta eins og hún er upp fundin? Ég held að það sé eitt af því sem þurfi að velta fyrir sér, ef þessi verðtrygging á að vera að einhverju marki áfram, og það þurfi að hugsa þetta mál svolítið betur hvað það varðar.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði hvort vextir mundu verða innheimtir af skuldabréfum í Búnaðarbankanum eins og í Landsbankanum. Ég hef ekki hugmynd um þetta. Ég hef ekki hugmynd um það og skal viðurkenna það. Ef menn ættu að setja sig inn í allt það vaxtafrelsi sem nú ríkir í þjóðfélaginu gerðu menn ekki annað en fylgjast með vaxtabreytingum frá degi til dags. Þetta er slík hringavitleysa allt saman. Það verður að játast.

Ég sakna þess mjög að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson skuli ekki vera hér inni. Ég ætlaði aðeins að ræða við hann. Ég skal viðurkenna að ég er ekki oft sammála hv. 3. þm. Reykv., en sú ræða sem hann flutti áðan varðandi það ástand sem ríkir vegna þessarar vaxtastefnu var þannig að ég verð að segja að ég er að flestu leyti sammála honum í því efni. Þar af leiðir að hann sparar mér að eyða löngum tíma hér í ræðustól. Þessi mál þarf að athuga betur.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson flutti athyglisverða ræðu þegar þetta má1 var til umr. M.a. gat hann þess að hann hefði farið á fundi til útlanda, að mér skildist til íslenskra námsmanna, þar sem hann ræddi hið pólitíska ástand. Hann sagðist hafa spurt námsmennina hvort þeir ætluðu ekki að flytja heim að námi loknu og hann sagði að þeir hefðu í kór sagt nei. Nú vill svo til að ég hef haft samband við námsmenn í Danmörku, Noregi og Svíþjóð á undanförnum árum og stór hópur þeirra kom t.d. heim um síðustu jól og þá fékk ég tækifæri til að ræða við marga þeirra sem ég þekki þar. Einmitt var þá rætt um viðhorf námsmanna erlendis og þá erfiðleika sem þeir auðvitað verða að leysa eftir að þeir eru búnir að taka nokkuð mikil lán vegna námsdvalar erlendis. Um jól þegar þeir voru hér kom fram að enginn af þeim mönnum í þessum þremur löndum, sem ég hitti, ætlaði sér að dvelja erlendis eftir það að þeir væru búnir að nema það sem þeir ætluðu sér. Þegar hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kemur til þeirra og boðar þeim eflaust sína stefnu í þjóðmálum og þeir sjá hvernig prófkjörin fara fram hér á landi og hvernig straumar virðast vera í pólitíkinni, þá bregður svo við að þeir hætta allir við á samri stundu að fara heim. Hvað var þm. að segja okkur? Ég er að vísu ekki hissa á að þetta skuli vera viðbrögðin, en ég held að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ætti að draga lærdóm af þessari reynslu sinni.