07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Helgi Seljan:

Herra forseti. Efnislega ætla ég ekki að fara út í umr. um þetta mál, aðeins að segja um það örfá orð. Ekki skal standa á mér að taka undir till. af þessu tagi hér og nú, ekki síst í ljósi tillöguflutnings okkar hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar á s.l. þingi og samþykktar Alþingis þar um. Till. var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram gagngera athugun á sláturhúsum landsins með þessi meginmarkmið í huga:

1. Tryggður verði sem best rekstrargrundvöllur þeirra sláturhúsa sem nú standa lakast, m.a. með því að gera markvisst átak til þess að tryggja sláturhúsunum önnur verkefni svo lengja megi nýtingartíma þeirra.

2. Sérstök áhersla verði lögð á að endurbæta eldri sláturhús svo viðunandi sé og ekki þurfi að ráðast í nýbyggingar. Sérslaklega sé þetta kannað þar sem sláturhúsavinna er snar þáttur í afkomu fólks í nágrenninu.“

Þessi till. fór til atvmn. og þaðan kom hún breytt og var samþykkt hér sem þál. um nýtingu og rekstrargrundvöll sláturhúsa 8. maí 1984 svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga hvernig bæta megi rekstrargrundvöll sláturhúsa, m.a. með því áð tryggja sláturhúsunum önnur verkefni svo að lengja megi nýtingartíma þeirra. Enn fremur verði kannað hvort hagkvæmt sé að endurbæta eldri sláturhús svo að viðunandi sé eða ráðast í nýbyggingar.“

Ég þykist vita að hv. þm. vilji með þessari till. undirstrika enn frekar tillögugerðina og samþykktina frá í fyrra og um leið reka betur á eftir því að hæstv. ríkisstj. aðhafist meira en hingað til í þessu brýna máli. Þessi mál bar á góma í Ed. fyrir jól og í ljós kom að harla lítið hafði verið gert og þar kom fram í máli hæstv. landbrh. að athugun málsins, um nýtingu og rekstrargrundvöll sláturhúsanna, væri í góðum höndum hv. fyrirrennara flm. hér, þáv. kommissars í Framkvæmdastofnun, Tómasar Árnasonar, núverandi Seðlabankastjóra. Hins vegar kom líka fram í máli hæstv. ráðh. að lítið hefði verið aðhafst í málinu hjá þeirri góðu stofnun og ekki lægju fyrir till. enn þá frá henni um það hversu að þessu máli mætti standa.

Ég ætla ekki að fara efnislega út í þetta, vegna þess hvað það var gert rækilega í fyrra og þarf engu þar við að bæta. Málið er vissulega jafnbrýnt og það var í fyrra vegna þess að það hefur ekkert gerst til að framkvæma þá ályktun sem Alþingi samþykkti í fyrra. Það stendur ekki á mér að samþykkja aðra ályktun í þessa veru með nefndarskipun sem gengi beint í þetta verk þó ég álíti að landbrn. annars vegar og Framkvæmdastofnun hins vegar eigi að geta tekið þokkalega á þessu máli ef þar er einhver vilji fyrir hendi. Vilji er allt sem þarf í þessum efnum, til að byrja með a.m.k., en hvort árangur verður af því að samþykkja einhverja nefndarskipun, það skal látið ósagt. Ég hef sjálfur tekið þátt í því að reyna að koma betra skipulagi á þessi mál með þátttöku í sláturhúsanefnd á sínum tíma og eins og flm. veit gekk vægast sagt illa og gengur enn, t.d. á okkar svæði, að samræma viðhorf og sjónarmið og hagkvæmnin er ekki í fyrirrúmi í huga margra í þessum efnum, síður en svo. Það kann að vera að það verði sá veggur sem menn reka sig á, ef þeir ætla að fara ofan í þetta mál á nýjan leik, að það verði hin ýmsu viðkvæmnissjónarmið heima fyrir sem standi í veginum fyrir því að eitthvað róttækt verði gert í þessum efnum.

Hins vegar standa þessar byggingar auðvitað sem slíkar, vandaðar og dýrar byggingar, með lítil verkefni og takmörkuð og þeim verður að finna eitthvert verkefni. Mál sláturhúsanna í heild standa illa, eins og hv. flm. kom inn á, og það þarf að bregðast skjótt við. Þetta á ekki eingöngu við um þau verst settu, eins og sláturhúsin á Patreksfirði og Breiðdalsvík sem eru auðvitað þau sem standa langlakast og eru á gjaldþrotastiginu, heldur eru það flestar vinnslustöðvar sem hafa verið byggðar í seinni tíð sem standa nokkuð illa. Þetta er hins vegar byggðamál fyrst og síðast og það er Byggðasjóður sem verður að koma að þessu verkefni myndarlega og fljótt ef ekki á illa að fara. Til þess er þessi sjóður að grípa á málum af þessu tagi þar sem oft er hreinn byggðavandi á ferðinni eins og er í sumum þeim byggðarlögum þar sem sláturhúsin eru. Ég tek dæmi aftur af Breiðdalsvíkinni þar sem þetta er hreint byggðavandamál. Ég reikna ekki með því að neinn aðili, hvorki Stofnlánadeild landbúnaðarins eða Byggðasjóður eða neinn slíkur aðili, vilji sitja uppi með sláturhús og eiga það eftir að það væri komið á uppboðsstigið. En þessi tvö hús a.m.k., á Patreksfirði og Breiðdalsvík, eru á uppboðsstiginu og hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins eru stærstu skuldirnar. Þar verður að taka á, en lausaskuldirnar verða að leysast annars staðar frá. Stofnlánadeildin verður vitanlega að mæta þessum vanda hjá sér með einhverjum ráðum, með lengingu lána eða einhverri frestun á þessu, ef ekki er hægt að nýta þessi sláturhús öðruvísi. Hitt er svo annað mál að Byggðasjóður hlýtur að koma inn varðandi aðra þætti málsins, lausaskuldirnar sem þarna hvíla á og eru ekki síðra vandamál í þessum húsum.

Um þetta mætti sem sagt hafa langt mál, en ég tek efnislega undir till. og það kann vel að vera að full ástæða sé til þess, miðað við það sem ekki hefur gerst frá í fyrra hjá landbrn. og Framkvæmdastofnun, að setja nú nefnd í málið þar sem röskari menn kæmu að hlutunum.