07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2746 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Á síðari árum hefur verið mjög rætt um þá ríku nauðsyn að koma hér á landi á fót nýjum atvinnugreinum við hlið hinna hefðbundnu búgreina sem við höfum stundað frá fornu fari. Í þessu sambandi hefur einkum verið rætt um loðdýrarækt og fiskeldi. En það er deginum ljósara að til þess að setja á laggirnar og efla nýjar búgreinar þarf margt til að koma. Það þarf að skapa þeim skilyrði til vaxtar og þróunar.

Að því er fiskeldi snertir, þá er það talin mjög álitleg búgrein, en því aðeins að henni verði sköpuð viðunanleg lífsskilyrði og þar kemur margt til greina að sjálfsögðu, ekki síst að þeir sem leggja stund á slíka atvinnugrein fái hæfilega fjármagnsaðstoð til þess að koma fótum undir sína starfsemi og fleira þarf þá til að koma.

Á undanförnum árum hefur nokkuð verið unnið að þessum málum. Það má benda á Kollafjarðarstöðina sem aukin hefur verið á vegum ríkisins. Einnig hafa nokkrir einstaklingar lagt af mörkum mikla vinnu og fórnfýsi til þess að kanna þessi mál og undirbyggja langtíðarstarfsemi í þeim greinum. Ég nefni t.d. Lárósstöðina á Snæfellsnesi þar sem mikið hefur verið unnið að þessu verki. Samt er margt óunnið. Hv. 3. þm. Reykn., sem hér talaði síðastur, ræddi um að þetta væri mikil nákvæmnisvinna og við Íslendingar værum varla hæfir til þess að leggja stund á slíka vinnu, að mér skildist. Ef svo er, þá þurfum við að rækta okkur sjálf til þess að fást við slík verk en ekki gefast upp strax við þá mótbáru.

En ég get getið þess svona til fróðleiks að vitanlega hafa margir sýnt þessum nýju búgreinum, ekki síst fiskeldi, áhuga á síðustu árum. Ég nefni sem dæmi að gamni mínu að nú fyrir skömmu síðan þegar stjórn Brunabótafélags Íslands kom saman á fund til þess að úthluta heiðurslaunum til margra álitlegra umsækjenda úr ýmsum atvinnugreinum, listum og vísindum, þá var sá maður, sem valinn var úr þeim hóp sem skipti nokkrum tugum, ungur fisksjúkdómafræðingur sem er að ljúka störfum erlendis. Sá styrkur, sem hann fær frá Brunabótafélaginu, á að gera honum kleift að halda áfram námi sínu í nokkra mánuði í viðbót, þar sem hann leggur stund á þessa sérfræði. Þetta er byggt á þeirri hugsun og þeirri staðreynd að einnig að þessu leyti verðum við að sjá fyrir því að skilyrði skapist hér á landi til að stunda fiskirækt. Það þurfa að vera til sérfræðingar sem kunna skil á þeim fisksjúkdómum sem gert hafa vart við sig hér á landi og eru að sjálfsögðu uggvekjandi nema menn finni við þeim góð ráð.

Hér liggur fyrir till. til þál. um varnir gegn fisksjúkdómum í fiskeldisstöðvum og vötnum, þar sem sérstök áhersla er lögð á að varnir gegn fisksjúkdómum verði stórefldar. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. 2. þm. Norðurl. e., 1. flm. þessarar till., fyrir þetta framtak að ýta þessu máli hér á flot í sölum Alþingis og lýsi eindregnu fylgi mínu við þessa till.