11.02.1985
Neðri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2788 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

274. mál, ávana- og fíkniefni

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna því frv. sem hér er til umr. Hér er um að ræða, eins og fram kemur í grg., einn þátt í þeim aðgerðum sem starfshópur hefur lagt til sem skipaður var í samræmi við ályktun Alþingis um skipulagðar aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna, en þá till. fluttu þm. úr öllum flokkum. Þessi starfshópur lagði reyndar til miklu fleiri tillögur og úrræði í þessu efni. Þær snertu skipulagsbreytingar við rannsókn fíkniefnamála, aukinn mannafla löggæslu og tollgæslu, aukinn tækjakost, aukna menntun löggæslu- og tollgæslumanna, aukið samráð milli lögregluumdæma og samræmingu aðgerða hjá lögreglu og tollgæslu, þær snertu breyttar rannsóknaraðferðir, alþjóðasamvinnu og hert viðurlög, en það er það mál sem við nú erum að fjalla um.

Ég sé ástæðu til, herra forseti, við þessa umr. að beina ákveðnum fsp. til hæstv. dómsmrh. Því vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hægt sé að ná í dómsmrh. þannig að hann verði viðstaddur þessa umr. (Forseti: Ég skal verða við því að hafa upp á hæstv. dómsmrh.Hæstv. dómsmrh. gengur í salinn.)

Ég beindi fyrr í vetur ákveðnum fsp. til hæstv. dómsmrh. út af tillögum sem starfshópurinn lagði fyrir. Ég fékk þau svör við þeirri fsp. að ýmislegt væri í undirbúningi af hálfu dómsmrn. er snerti þessar tillögur. M.a. sagði hæstv. dómsmrh. að hann hefði ritað heilbrmrn. bréf — það var fyrir tæpu ári síðan — þar sem fram kom ósk um að leggja fram það frv. sem hér er til umfjöllunar. Það hefur tekið þennan tíma, eða tæplega ár, að undirbúa þetta frv. sem við fjöllum um hér í dag.

Hæstv. dómsmrh. upplýsti að ýmislegt annað væri í undirbúningi. Hann upplýsti að hann hefði óskað eftir því við fjárlagaafgreiðslu að fjölgað yrði um sex lögreglumenn til að taka á þessum málum. Hann upplýsti að stofnaður hefði verið samstarfshópur 16 fulltrúa frá 9 embættum til að skipuleggja aðgerðir og löggæslu á þessu sviði. Hann minntist á breytingar á skipulagi sakadóms og fleira kom fram í máli hæstv. dómsmrh.

Nú er það svo að við fjárlagaafgreiðslu var einungis veitt til þessa verkefnis 1 millj. kr. á fjárlögum. Ég held að það sé ljóst og allir þm. hljóta að vera um það sammála að það má ekki ske að skortur á fjármagni standi í vegi fyrir því að hægt sé að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir neyslu og ólöglegan innflutning og dreifingu ávana- og fíkniefna. Hæstv. heilbrrh. og dómsmrh. hafa vissulega mikinn skilning á þessu máli og eins og ég sagði eru ýmsar aðgerðir í undirbúningi. En miðað við það takmarkaða fjármagn, sem veitt er á fjárlögum, óttast ég að hægt miði í þessu máli þó að ég efi ekki góðan vilja þeirra sem með þessi mál fara.

Því vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. og hæstv. heilbrrh. hvort frekari aðgerða sé að vænta af hálfu dómsmrn. og heilbrrn. á þessu ári að því er þessi mál varðar og hvort það sé mat þeirra að skortur á fjármagni muni koma í veg fyrir að hægt sé að hrinda frekar í framkvæmd þeim till. og þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að fyrirbyggja neyslu og dreifingu þessara efna og hvort þeir muni þá beita sér fyrir því að aukafjárveiting komi til á þessu ári til að hægt sé að hrinda frekar í framkvæmd till. starfshóps sem um þessi mál fjallaði.

Það er ljóst að hver dagur, hver vika, sem líður án þess að þessi mál séu tekin föstum tökum getur orðið dýrkeypt. Fréttir eru sífellt að berast um aukna neyslu þessara eiturefna. Það er ekki bara aukin neysla þeirra sem er ógnvekjandi, heldur ofbeldi, rán o.fl. sem fylgir einatt neyslu þeirra, að ekki sé minnst á hvernig neysla þessara efna getur eyðilagt líf fjölda ungmenna og fjölskyldna þeirra og aukið á vandamálin í heilbrigðiskerfinu. Það er því ljóst að einskis má láta ófreistað af hálfu stjórnvalda til að fyrirbyggja neyslu þessara efna og það getur orðið þjóðfélaginu dýrkeypt ef spara á þarna fjármuni til nauðsynlegra aðgerða. Hér verður að bregðast skjótt við, að öðrum kosti getur þjóðin jafnt sem einstaklingar staðið frammi fyrir stórfelldu og alvarlegu vandamáli sem erfitt verður við að ráða. Því beini ég þessum spurningum til hæstv. ráðh. hvort frekari aðgerða sé að vænta á þessu ári og hvort skortur á fjármagni muni hindra það að frekar verði aðhafst í þessu máli á yfirstandandi ári.