12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2838 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina fsp. til hæstv. menntmrh. á þskj. 466 um kjör og starfsaðstöðu framhaldsskólakennara. Fsp. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hefur menntmrh. gert einhverjar ráðstafanir til að stuðla að samkomulagi í þeirri kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins sem nú er fyrir Kjaradómi? Ef svo er, þá hverjar?“

Seinni liður fsp. fjallar um það hvort menntmrh. mundi neyta heimildar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og framlengja starfstíma kennara einhliða um þrjá mánuði frá og með 1. mars n.k. Svarið við því barst í gær í bréfum til kennara þar sem ráðh. segist muni neyta þess réttar.

Það er ekki að ástæðulausu að þessi fsp. er borin hér fram. Svo sem alþjóð veit hafa um 440 framhaldsskólakennarar eða um 70% stéttarinnar sagt upp störfum sínum hjá ríkinu frá og með 1. mars n.k. Þegar þær uppsagnir koma til framkvæmda er deginum ljósara hvað mun gerast. Starf nánast allra framhaldsskóla í landinu mun stöðvast frá og með sama degi. Raunar hef ég þó í huga framlengingu þá sem menntmrh. hefur ákveðið. Þúsundir nemenda hefðu orðið að hverfa frá námi og horfa fram á skólavetur sem farið hefði forgörðum með þeim kostnaði sem því fylgir fyrir hvern og einn.

Það er ekki of sterkt að orði kveðið þó sagt sé að þessi staða mála er líkleg til þess að skapa neyðarástand í íslenskum menntamálum. En hvers vegna hafa þessir óvenjulegu atburðir gerst, og ég nefni þá mjög óvenjulega, þegar þorri framhaldsskólakennara segir upp störfum sínum? Hvers vegna hyggst nú nánast heil stétt, sem mikilsverð störf vinnur, hverfa úr þjónustu ríkisins? Hvers vegna er málum svo komið?

Það stoðar í sjálfu sér ekki að leita að neinum blóraböggli í þeim efnum, það þjónar ekki miklum tilgangi. En það er óhjákvæmilegt að menn reyni að átta sig á því hvers vegna kennarar hafa sagt upp störfum og eru margir hverjir þessa dagana að ráða sig til einkaframtaksins þar sem þeim er víða tekið tveimur höndum. Það er ekki vegna þess að þeim líki ekki lengur kennarastarfið sem þeir hafa af dugnaði og áhuga menntað sig til og rækt um áraraðir margir hverjir. Kennarastarfið er eitt af mikilvægustu störfum landsins og þá ekki síst starfið í framhaldsskólunum. Þar er í raun verið að skapa framtíð þessarar þjóðar. Ástæðan er einfaldlega sú að laun kennara eru ekki lengur lífvænleg. Eftir margra ára sérmenntun er þeim skipað á bekk í launum með þeim starfsmönnum sem minnst bera úr býtum í mörgu einkafyrirtækinu. Ríkið hefur á liðnum árum búið þannig að þeim mönnum sem mennta eiga næstu kynslóð þessa lands að þolinmæði þeirra er einfaldlega þrotin. Verkfallsrétt eiga þeir ekki, en þeir eiga uppsagnarrétt og til hans hefur því verið gripið á þessum tímamótum.

En hver eru þá laun kennara í framhaldsskólum landsins í dag? Byrjunarlaun þeirra eru 22 þús. kr. á mánuði þegar áralangt háskólanám er að baki til undirbúnings starfinu. Með langri starfsreynslu og aukinni menntun, svo sem doktorspróf í viðkomandi grein, geta þessi laun mest hækkað um 7 þús. kr. eða í 29 þús. kr. á mánuði en ekki fram yfir það. Það er kannske ástæða í þessu sambandi til að minna á að laun framhaldsskólakennara eru skv. nýlegri könnun á launum, sem Hagstofa Íslands framkvæmdi, lægri en skrifstofumanna á einkamarkaði sem hafa ekki verslunarskólapróf. Ef við berum á grundvelli þessarar sömu könnunar Hagstofu Íslands saman laun framhaldsskólakennara og meðaltal launa háskólamanna, sem vinna hjá einkafyrirtækjum, kemur í ljós að laun framhaldsskólakennara eru 81% lægri en það meðaltal sem þarna er um að ræða hjá þeim sem vinna í einkageiranum. Það er sem sagt næstum því helmingsmunur á launakjörum í þessum tilvikum.

Þessar tölur bera með sér hve mjög störf þessarar stéttar eru vanmetin í launakerfi ríkisins. Það sést enn betur þegar haft er í huga að byrjunarlaun menntaskólakennara eru yfir 44 þús. ísl. kr. í Noregi, 47 þús. í Danmörku og 48 500 kr. í Færeyjum. Þessi bágbornu laun endurspegla í hnotskurn þá þróun sem átt hefur sér stað síðustu árin í launamálum háskólamenntaðra manna sem starfa hjá ríkinu. Árið 1977 voru laun þeirra 28% lægri en laun háskólamanna hjá öðrum en ríkinu. Í dag er þessi munur orðinn miklu mun meiri. Sú könnun Hagstofunnar á einkageiranum, sem ég nefndi, sýnir að munurinn á launum háskólamenntaðra manna hjá ríkinu og á frjálsa markaðinum er í dag 61%.

Fyrir dyrum stendur úrskurður Kjaradóms um aðalkjarasamning háskólamenntaðra manna sem hjá ríkinu starfa. Hann mun væntanlega falla þann 22. þ.m. Kennarar hafa lýst því yfir að.ef þeir fá með þeim dómi sæmilegar kjarabætur miðað við aðra háskólamenntaða menn í þjóðfélaginu muni þeir draga uppsagnir sínar til baka. Það má því segja að framhald þessa máls velti á því hver er niðurstaða Kjaradóms í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að í lögum frá 1973, um kjarasamning opinberra starfsmanna, segir að „kjaradómur skal gæta þess við úrlausnir sínar að ríkisstarfsmenn njóti sambærilegra kjara og þeir menn með svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð, sem vinna hliðstæð störf hjá öðrum en ríkinu. Þá skal hafa hliðsjón af almennum afkomuhorfum þjóðarbúsins.“

Hér segir það svart á hvítu að ríkisstarfsmenn og þá ekki síst kennarar skuli njóta sambærilegra kjara og menn með svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð á almennum markaði. Þar ber nú 61% á milli. (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka máli mínu.

Að óreyndu verður því að teljast líklegt að hér verði gerð á sú bragarbót sem duga muni til þess að setja niður þessa deilu og koma á friði. Það er ekki síst vegna þess að annar málsaðili í þessu efni fyrir Kjaradómi er fjmrh. þar sem hann kemur fram fyrir hönd ríkisstj. Það veltur því m.ö.o. að miklu leyti á afstöðu ríkisstj. og þá ekki síst fjmrh. og menntmrh. til óska kennarasamtakanna hver verða úrslit þessa máls fyrir Kjaradómi. Ég vil því beina þeirri áskorun til menntmrh. og fjmrh. að þeir beiti sér fyrir farsælli lausn þessa máls svo að kennarar og aðrir háskólamenntaðir menn í þjónustu ríkisins megi búa við svipuð launakjör og almennt tíðkast í landinu. Það hlýtur að vera beggja hagur.