12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

252. mál, auglýsingakostnaður vegna sölu spariskírteina ríkissjóðs

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Það skal vera stutt.

Fyrst af öllu vil ég segja vegna orða hv. 5. landsk. þm.: Afturhaldssemi getur verið dyggð. Já, ég er afturhaldssöm í þessum efnum. Ég mótmæli því að auglýsingaskrum sé nokkurn tíma upplýsing. Það er ekki þjónusta við einn eða neinn. Auglýsingar eru til þess gerðar að rugla dómgreind hvers og eins. Hv. þm. spyr: Hvað á að gera? Vill hún ráða, þ.e. fyrirspyrjandi? Vill hún ráða hvað menn kaupa? Nei. Svarið er afdráttarlaust nei. En ég vil að fólkið ráði því sjálft. Því er nefnilega ráðið fyrir það með auglýsingaskruminu. Það er m.a. s. svo langt gengið, eins og alþjóð veit, að á Rás 2 eru skipulagðar hersveitir til að ákveða hvaða hljómplata sé vinsæl. Þetta kalla ég ekki upplýsingu og auglýsing er ekki fremur upplýsing en þetta rugl.

Ég harðneita því að ég hafi verið, eins og hér hefur margsinnis komið fram, að hnýta í það fólk sem rekur auglýsingastofur eða gerir auglýsingar. Það er auðvitað að gera það sem það er beðið um: að við skulum eins og allir aðrir, vegna skorts á heilbrigðri íhaldssemi, hlaupa inn á þennan gljámarkað sem ég sé ekki hvað við höfum að sækja til.

Þm. segir og það er skelfilegt til að vita ef fleiri þm. hugsa þannig: Við verðum að horfast í augu við þann heim sem við lifum í. Ég hélt að við værum hingað kjörin til að móta þann heim sem við lifum í. (Gripið fram í: Já.) Ef við sættum okkur við hann eins og hann verður af einhverjum ástæðum, eins og í þessum tilvikum vegna fjársterkra afla sem móta hann að sinni vild, þá er illa komið. Ég hélt að við værum hér til að spyrna þarna við fæti. (Forseti hringir.) Ég verð hins vegar, forseti, að fá eina eða tvær mínútur til að benda á dálítið varðandi þær 5 millj. sem hæstv. fjmrh. talaði hér um. (Forseti: Ein eða tvær mínútur eru allt of langur tími fyrir örstutta aths. Það verða menn að skilja. Við verðum að leitast við að hafa hemil á þessum umr. og fara ekki út fyrir þingsköpin til þess að við eyðileggjum ekki þetta form sem þm. hafa til þess að leita upplýsinga.) Ég skal virða það, herra forseti.

Þá nokkur orð að síðustu: Sjónvarpið hefur upplýst mig um að í janúar-mars fái það greidda 1 millj. 169 þús: 920 kr., en hæstv. fjmrh. sagði að heildaráætlunin varðandi sjónvarpið væri að mig minnir um 600 þúsund. Á þessu er verulegur munur. Ég tel því ekki að ég hafi fengið ítarleg svör við fsp. minni og leyfi mér að hafa þann grun að hér sé um miklu hærri upphæðir að ræða. Ég minni á að til aðgerða í fíkniefnamálum var veitt á fjárlögum 1 millj. kr. En þó að það séu ekki nema 5 millj. sem fara í þetta auglýsingaskrum, þá er það ærið nóg og verra er ef það er meira.