13.02.1985
Neðri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2898 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

275. mál, almannavarnir

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa verið háð, að því er talið er, nokkuð á annað hundruð stríð í heiminum, sem betur fer mjög takmörkuð við ákveðin landsvæði. Eigi að síður verðum við að hafa það í huga að í þeim hafa fallið jafnmargir og féllu í síðari heimsstyrjöldinni.

Það er áætlað að í dag fari yfir 80% af því fjármagni, sem fer til hernaðarútgjalda, fyrst og fremst til venjulegrar vopnagerðar, ekki til kjarnorkuvopnagerðar. Enn í dag stendur því heiminum mikill stuggur af venjulegum vopnaburði, venjulegum vopnum, en ekki kjarnorkuvopnum. Sem betur fer hafa þau ekki verið notuð í stríði síðan Bandaríkjamenn sendu sprengjur á borgirnar Nagasagi og Hiroshima í síðari heimsstyrjöldinni.

Það er alveg ljóst að það fer eftir styrk og stærð sprengjunnar sem springur hvort skýli hafa þýðingu. En það er alveg ljóst að ef magn er innan ákveðinna marka og ef sprengja springur í ákveðinni fjarlægð koma skýli að fullum notum. Þrátt fyrir nýjustu upplýsingar um kjarnorkuvetur og þær ráðstefnur sem haldnar hafa verið er það alveg ljóst að það fer fyrst og fremst eftir því magni sem springur. Þess vegna er spurningin, sem við stöndum frammi fyrir, sú: Ber okkur að auka okkar öryggi, halda uppi lágmarkstryggingu þrátt fyrir það að við vitum að svo kunni að fara að heimurinn tortímist í kjarnorkustríði?

Ef við hugsuðum þannig á öllum sviðum verðum við að gera upp við okkur í hverju einasta máli: Tekur það því fyrir okkur að gera þetta eða gera hitt ef óttinn er svo mikill í brjóstum okkar að við trúum því virkilega að til þess þurfi að koma að allsherjarstríð, allsherjar kjarnorkustríð tortími mannkyninu? Sem betur fer eru það langflestir sem eru það bjartsýnir að þeir ímynda sér að hægt sé að bjarga mannkyninu frá slíkri tortímingu. Sem betur fer eru það langflestir sem treysta því að forustumenn stórveldanna, sem hafa yfir þessum sprengjum að ráða, hafa í sér manndóm til að semja um að ekki eingöngu verði hætt framleiðslu á þessum vopnum, heldur og að þeim verði eytt og það verði bannað að hafa slík vopn í fórum sínum.

Samt sem áður vitum við það að svo auðvelt er orðið að smíða slíkar sprengjur að ávallt er hætta á því að þær lendi í höndum á mönnum sem misnota það. Þess vegna hlýtur það að vera eðlilegt þegar við útbúum okkur skýli eða gerum byrgi að við högum okkur eins og flestallar þjóðir gera sem ekki búa yfir kjarnorkuvopnum, ekki geta varið sig með kjarnorkuvopnum eða hótun um að beita kjarnorkuvopnum eins og sumar þjóðir gera, að við áttum okkur á því að byrgi geti í fyrsta lagi haft þýðingu fyrir venjulegt stríð og koma þar að fullum notum og það þarf tiltölulega litla viðbót til þess að þau komi að notum ef um eiturefni er að ræða sem notuð eru. Eða kjarnorkusprengjur springa, hvort sem það er í hernaði eða af slysni eða af öðrum ástæðum. Þar er þetta spurning um magn. Þetta er það sem við verðum að gera upp við okkur á hverjum tíma í þessum málum eins og svo mörgum öðrum.

Vík ég þá að máli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá henni, það var ágreiningur í nefndinni um orðalag 7. gr. Nú hefur hæstv. dómsmrh. tekið af skarið í þeim efnum. Og ég læt hv. þingnefnd eftir að kynna sér hvaða sjónarmið komu fram í nefndinni og leituðum við reyndar fanga út fyrir nefndina, þ. á m. til Sambands ísl. sveitarfélaga.

Hins vegar er ég henni ekki sammála hvað snertir allsherjarvarnir. Auðvitað er það svo þar sem um her er að ræða, að þar þýða allsherjarvarnir það að herinn er hluti af allsherjarvarnafyrirkomulagi ríkjanna. Eins og t.d. í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. En það þýðir ekki það að til sams konar samstarfs þurfum við að grípa hér á landi. Og ég sé ekkert athugavert við það, á meðan við höfum gert varnarsamning við aðra þjóð um að verja okkar land, að þá sé hugsanlegt að það samstarf gangi út á það að þeir komi okkur til aðstoðar þegar um er að ræða varnir sem ekki eru í þrengstu merkingu kallaðar almannavarnir. Þetta höfum við gert, við höfum átt ágætis samstarf við þá. Þeir hafa lagt okkur til ýmiss konar tæknilegar um er að ræða vá sem er af náttúruhamförum. Ég sé ekkert athugavert við það að þetta sé gert og þá sé skýrt frá því nákvæmlega í hverju slíkt samstarf felst en ekki farið með þessi mál eins og þetta sé eitthvert algjört pukur og herinn, sem hér er á Miðnesheiði, sé eins konar lús á þjóðinni sem hún getur ekki þvegið af sér. (GH: En hún er það.) Það er minni hluti, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, sem telur að svo sé. Sá minni hluti ræður ekki hér og sá meiri hluti, sem hefur tekið þá ákvörðun að haga varnarmálum þjóðarinnar með þeim hætti sem nú viðgengst, ber auðvitað ábyrgð á því og ég tel enga ástæðu til að skammast sín fyrir það. Ég tel hins vegar fullkomlega eðlilegt að það samstarf, sem við eigum við varnarliðið, sé á almannavitorði, en það sé ekki verið að fara með það eins og þetta sé leyndarmál sem við skömmumst okkar fyrir.

Herra forseti. Ég vil enn á ný fagna því að þetta mál er hér til umr. og vænti þess að hv. þm. kynni sér mjög rækilega þau skjöl sem fylgja með frv. Ég held að það sé okkur öllum til heilla ef það tekst að afgreiða þetta frv. á yfirstandandi þingi.