23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

41. mál, framhaldsskóli

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að svara fsp. minni, en ég get ekki lýst ánægju með inntak hennar ræðu eða svar hennar því að þar kom skýrt fram, eins og hv. þm. hafa heyrt, að ráðherrann hefur ekki í hyggju að undirbúa löggjöf, löggjöf um samræmdan framhaldsskóla eða rammalög sem taka yfir þetta skólastig. Það eina sem við heyrum að sé í undirbúningi nú varðandi framhaldsskólastigið á vegum menntmrn. er reglugerð um fjölbrautaskóla.

Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum yfir þeirri stefnu sem hæstv. menntmrh. hefur tekið varðandi málefni þessa skólastigs. Ég tel að það sé ekki frambærileg skýring á neinn hátt þó að Alþingi hafi áður fjallað um frumvörp um framhaldsskóla án þess að afgreiða þau og taka til þeirra afstöðu. Ég tel að sú vinna sem fór fram í sambandi við þau efni hafi vissulega á ýmsan hátt nýst í framkvæmd, það hafi verið tekið mið af mörgum þáttum sem þar voru á blaði varðandi mótun einstakra skóla og samræmingu milli skóla þannig að hún hafi ekki verið unnin fyrir gýg. En það skapar auðvitað mikið óöryggi á þessu skólastigi ef ekki er löggjöf þar sem kveðið er á um lágmarkssamræmi milli skóla og skólastofnana og auðvitað einnig varðandi kostnaðarþáttinn sem nú er mjög mismunandi varðandi skóla á þessu skólastigi.

Ég vil alveg sérstaklega vekja athygli á aðstöðu verkmenntunarinnar innan framhaldsskólans nú, á framhaldsskólastiginu. Þar þyrfti að gera markvisst átak, stórt átak til úrbóta, gera verknámsbrautir og þá skóla sem öðrum fremur sinna verknámi aðlaðandi og búna til þess að rækja hlutverk sitt, sem þeir engan veginn eru nú, og fella slíkar námsbrautir með skipulegum hætti að öðrum þáttum, námsbrautum og námssviðum á framhaldsskólastiginu, þannig að bæði sé um hagkvæmni að ræða og samræmi til þess að nemendur lendi ekki í blindgötu og geti hverju sinni nýtt það nám sem þeir hafa stundað í framhaldandi námi, jafnvel þó að breytt sé um áherslur.

Ég tel að þetta efni, þörfin fyrir samræmda löggjöf um framhaldsskólastigið, sé svo mikilvægt að Alþingi verði að taka á því máli, þó svo að hæstv. menntmrh. sjái ekki ástæðu til þess að undirbúa það í sínu rn. Ég tel að þær upplýsingar, sem ráðh. hér hefur gefið, hljóti að verða þm. hvatning til þess að taka á þessu máli á vegum þingsins og undirbúa löggjafaratriði til þess að ná fram æskilegum markmiðum á framhaldsskólastiginu og tryggja eðlilega þróun þess. Hæstv. ráðh. boðar þá stefnu að einstakir skólar starfi undir sérgreindum lögum og þróist jafnvel sitt í hvora áttina þó að það hafi ekki verið orð hæstv. ráðh. Hættan er fyrir hendi að sú stefna horfi síst til heilla og því er brýnt að þingið taki á málefnum framhaldsskólans og afgreiði lög. Það ætti ekki að vera ofætlan eftir alla þá umr. og undirbúningsvinnu sem farið hefur fram á fyrri árum, undanfarin átta ár, varðandi þetta skólastig.