14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

204. mál, geymsla kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir síðustu orð hæstv. utanrrh. Ég held að það sé ákaflega áríðandi í þeirri stöðu sem Ísland er að utanrmn. og Alþingi geti skilað sameiginlegu áliti um þau mikilvægu mál sem hér er um fjallað. Það er ánægjuefni að utanrrh. skuli taka þetta sérstaklega fram og ég vænti þess að innan skamms verði skipuð sú nefnd sem hann hefur nú nefnt og áður nefnt er taki þessi mál til heildarathugunar.

Ég held að það sé skoðun allra sem um þessi mál fjalla að hér skuli ekki vera kjarnavopn. Þetta er grundvallaratriði og hver utanrrh. á fætur öðrum hefur undirstrikað þetta og núv. utanrrh. ekki síður en aðrir. Hitt er annað mál að e.t.v. eru skiptar skoðanir um leiðir að því marki að tryggja öryggi Íslands sem best má verða og hver staða landsins skuli verða í samskiptum þjóðanna. Ég held að það ætti þó að vera samkvæði allra að hlutverk Íslands á að vera að draga úr spennu eftir því sem mögulegt er hér á Norður-Atlantshafi og þá einkum Norðaustur-Atlantshafi. Þetta á að gera í náinni samvinnu við þær þjóðir sem eiga lönd að og hagsmuna að gæta á þessu svæði. Þar nefni ég til Norðurlöndin, Bretland, Kanada, Bandaríkin og Sovétríkin. Framsóknarmenn hafa oft ítrekað þá skoðun að Íslendingar eigi að hafa forgöngu um að ræða þessi mál, efna til ráðstefnu um þessi mál þar sem um þau verði fjallað af öllum þeim aðilum sem hagsmuna eiga að gæta.

Það er hárrétt hjá hæstv. utanrrh. að einhliða yfirlýsingar um kjarnorkuvopnalaus svæði eru lítils virði. Eins og forsrh. Svía, Olof Palme, sagði, er hann var hér í opinberri heimsókn fyrir nokkrum vikum, er slík yfirlýsing marklaus nema stórveldin viðurkenni hana á einhvern hátt. Mín skoðun er sú að Ísland eigi að vera aðili að öllum umræðum um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum og að vera með í umræðum og helst að standa fyrir umræðum um hvernig draga megi úr spennu á Norðaustur-Atlantshafi. Það er enginn vafi á því að þetta svæði er hernaðarlega mjög mikilvægt og mikilvægi Íslands, sem oft er talað um, er auðvitað fyrst og fremst af því að hér er herstöð. Það er staðreynd sem við getum ekki gengið fram hjá. Það hlyti að kosta nýja mjög flókna samninga að leggja niður þá herstöð og ég tel að það verði ekki gert nema í sambandi við allsherjarsamkomulag stórvelda og ríkja, bæði austan hafs og vestan, um afvopnun og öryggismál.

Það eru ýmsar spurningar sem koma upp í hugann í sambandi við þessa till. til þál. um bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði og það eru allalvarlegar spurningar.

Í fyrsta lagi hlýtur maður að spyrja: Hvað eru hættutímar? Við hvaða aðstæður er hugsanlegt að Bandaríkjastjórn eða Bandaríkjaforseti óski eftir að hér verði komið fyrir kjarnavopnum? Við höfum reynslu af því að við ráðum ekki, Íslendingar, svo miklu um það hvað taldir eru hættutímar. Á tímum Kóreustríðsins kom hingað bandarískt herlið og eftir á held ég að það hafi sýnt sig að þeir tímar voru kannske ekki eins stórlega hættulegir hér í Evrópu og um tíma var látið í veðri vaka.

Í öðru lagi er það spurningin: Getur það skaðað Ísland og hagsmuni Íslands á nokkurn hátt þó einhliða verði lýst yfir að ekki skuli höfð hér kjarnavopn, hvorki á friðartímum né tímum ófriðar? Ég hef í raun svarað þessu fyrir mitt leyti, en þetta er auðvitað mál sem þarf að ræða og kanna í sambandi við allsherjarúttekt á þessum málum. Ef það getur orðið til þess að auka líkurnar á því að dragi úr spennu á þessu svæði, að hægt sé með því að minnka hernaðarumsvif, er að sjálfsögðu jákvætt að Íslendingar gefi slíka yfirlýsingu. Ef það yrði hins vegar til þess að aukinn þrýstingur yrði á öðrum sviðum, varðandi önnur hernaðarmálefni á Íslandi væri verr farið en heima setið. Þó að kjarnorkuvopn séu slæm og reyndar það slæm að manni finnist oft og tíðum næsta óhugsandi að til þeirra verði nokkru sinni gripið — sá möguleiki er þó því miður ekki útilokaður — þá eru annar vopnabúnaður og önnur tegund herbúnaðar einnig hættulegt fyrir fámenna þjóð á hjara veraldar.

Ég held að ég lengi ekki mál mitt. Þetta kemur til utanrmn. og ég vænti þess að þar verði unnið af mikilli alvöru að þessum málum. Ég veit reyndar að bæði hæstv. utanrrh., formaður utanrmn. og nm. hafa mikinn hug á því að sinna þessum málum rækilega þannig að unnt sé að standa að sameiginlegri yfirlýsingu allra flokka um þessi mál. En að lokum vil ég aðeins geta þess í sambandi við fréttir síðustu daga varðandi áætlanir, áform og möguleika á flutningi kjarnavopna til Íslands að ég held að það hljóti að vera grundvallaratriði fyrir öryggi Íslands og fyrir alla umræðu um íslenska hagsmuni, frelsi, sjálfstæði og möguleika til þess að hafa hönd í bagga um framvindu mála að Íslendingar og íslenskir ráðamenn þekki til hlítar allar áætlanir sem snerta Ísland og stöðu þess, bæði á friðartímum og ófriðartímum. Það held ég að sé sú lexía sem margnefndur Mr. William Arkin kenndi okkur.