20.02.1985
Efri deild: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3058 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

281. mál, hagnýting Seðlabankahúss

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Hér eru málefni Seðlabankans á dagskrá, þó fyrst og fremst sú till. sem hér hefur verið flutt í því efni að athugað verði hvernig æskilegt sé að nýta svonefnt Seðlabankahús og sérstaklega verði athugað hvort það geti hentað fyrir Stjórnarráð Íslands. Í grg. með till. er ýmislegt fært fram sem þykja vera gild rök að dómi flm. fyrir því að till. verði samþykkt. Þar eru reyndar að mínum dómi viðhöfð nokkuð stór orð sums staðar þar sem talað er um ofstjórn og óstjórn í peningamálum. Það má auðveldlega skilja þannig að þegar það er sagt sé um leið vísað til Seðlabankans.

Nú ætla ég að taka það fram til að fyrirbyggja allan misskilning hjá hv. þm. að ég ætla ekki að fara hér úr þessum ræðustóli að gerast málsvari athafna Seðlabankans sérstaklega á undanförnum árum. Hitt þætti mér vænna um, þegar svona till. er flutt og fullyrt er að óstjórn hafi verið og fullyrt að umfang í starfsemi Seðlabankans sé allt of mikið, að fluttar væru raunhæfari tillögur í því efni með hvaða hætti starfsemi Seðlabankans á að verða á næstu árum ef menn vilja á annað borð breyta þar einhverju.

Hv. síðasti ræðumaður minntist á frv. sem hér hefur verið flutt og gerir ráð fyrir lækkaðri bindiskyldu Seðlabankans, niður í 10% eins og hún upphaflega var. Nú er hv. alþm. kunnugt að stefnt er að því að lækka bindiskylduna. En hvaða breytingar verða þá gerðar til móts við þá breytingu? Einmitt þær að afurðalánin færist alfarið til viðskiptabankanna, að Seðlabankinn láti af endurkaupum afurðalána, en bindiskyldufé hefur m.a. verið notað í því skyni. Ég held að menn verði að sjá þetta fyrir sér í svolitlu samhengi.

En áfram um stærð og umfang Seðlabankans. Nú vil ég ekki leggja neinn dóm á það, ég þekki það ekki nægilega vel enn þá, hvort starfslið Seðlabankans sé of fjölmennt miðað við þau störf og miðað við það umfang sem honum er ætlað skv. gildandi lögum. Í þessum samanburði má e.t.v. vitna til bankakerfisins í heild. Ef ég man rétt hefur starfsmönnum bankastofnana í landinu — utan Seðlabankans — fjölgað úr 1897 í 3114 frá upphafi árs 1978 til loka ársins 1984. Þetta er fjölgun um 64%. En þegar margrædda útþenslu Seðlabankans ber á góma er rétt að minna á að stöðugildi í Seðlabankanum voru í upphafi árs 1978, ef ég man rétt, 117 en við lok ársins 1984 128. Fjölgunin er innan við 10%.

Ég er ekki að segja frá þessu hér til að réttlæta eitt eða neitt vegna þeirrar stofnunar sem hér er fyrst og fremst til umræðu. Auðvitað er augljóst mál öllum mönnum að þensla í bankakerfinu, þá á ég við hið almenna bankakerfi, hefur farið langt út fyrir allt velsæmi. Tek ég undir það með 1. flm. þessarar till. og reyndar hefur það komið fram miklu víðar.

En þegar vikið er að óstjórn í peningamálum og efnahagsmálum almennt leiðir maður hugann að hlutverki Seðlabankans, sem er markað í lögum, þar sem gert er ráð fyrir að Seðlabankinn ráðleggi ríkisstj. á hverjum tíma í peninga- og gjaldeyrismálum. Og þá hugsar e.t.v. einhver: Ja, þá er öll óstjórnin og vitleysan alfarið á ábyrgð Seðlabankans. Þá vil ég minna á 4. gr. seðlabankalaganna þar sem skýrt er tekið fram að bankastjórum Seðlabankans sé skylt að opinbera ágreining, ef um hann er að ræða, milli Seðlabankans og viðkomandi ríkisstjórnar, en niðurlag greinarinnar er þannig að eigi að síður skuli Seðlabankinn telja það eitt meginhlutverk sitt að fara að þeirri stefnu sem ríkisstj. markar að lokum. Og nú er það spurningin um eggið og hænuna. Hvort kemur á undan? Ég get ekki að því gert að mér hefur stundum fundist svo sem við stjórnmálamenn leituðumst við að skýla okkur bak við ýmsar stofnanir sem við berum ábyrgð á, höfum augljóslega á hendi að líta eftir. Þar eigum við kjörna fulltrúa í ráðum og stjórnum og okkur á því að vera í lófa lagið að hafa mikil áhrif á vegum þessara fulltrúa okkar á starfsemi viðkomandi stofnana.

Ég tek auðvitað undir það að ráðstöfun fjármagns í landinu hefur á undanförnum árum oft verið með þeim hætti að það hefði mátt fara betur. En það gerist ekki síður úti í hinu almenna bankakerfi. Ég hef hugmynd um að margir forsvarsmenn í hinu almenna bankakerfi hafi ekki verið nægjanlega opnir fyrir þeim brautum fjármagns sem eðlilegar hefðu verið á undanförnum árum til þess að treysta okkar efnahagslíf. Þá er ég ekki síst með í huga ýmiss konar atvinnuuppbyggingu sem aðrar þjóðir sjá efnahag sínum borgið í, en við þybbumst við að viðurkenna. Því miður hefur það allt of oft gerst að einstaklingar hafa ekki fengið lánafyrirgreiðslu hjá bönkum nema því aðeins að það sem menn báðu um lánið til væri beint vaxið út úr hinum hefðbundnu gömlu, að vísu ágætu, atvinnuvegum okkar. Ef menn hafa haft eitthvað annað fram að færa hefur öllu verið neitað. Að þessu leyti tek ég undir málflutning hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Slíkri öfugþróun hefði átt að snúa við fyrir löngu.

En ástæðan fyrir því að ég stóð upp var kannske fyrst og fremst sú að ég vildi benda á ábyrgð okkar stjórnmálamanna og þá fyrst og fremst þeirra ríkisstjórna sem setið hafa á undanförnum árum. Ég get ekki séð annað en gjörðir Seðlabankans á undanförnum fjölmörgum árum og jafnvel alla tíð hafi hlotið velþóknun viðkomandi ríkisstjórnar. A.m.k. hefur djúpstæður ágreiningur ekki verið opinberaður, eins og skylt er að gera skv. lögum ef um ágreining er að ræða. Ég hvet menn því til þess að gera sér grein fyrir orsökum og afleiðingum og ábyrgð á endanlegum ákvörðunum.

En Seðlabankahúsið er fyrst og fremst til umræðu, höllin við Arnarhól. Ég skal strax taka undir að þar er byggt nokkuð við vöxt. Ég vil þó minna á að nú þegar er gert ráð fyrir nýtingu töluverðs hluta hússins til annarrar starfsemi en beinlínis fyrir Seðlabankann. Efast ég ekki um að hv. 1. flm. till. um hagnýtingu Seðlabankahúss sé fullkunnugt um það. (Gripið fram í.) Já. Ég held þá sé rétt að ég fari örfáum orðum um fyrirhugaða nýtingu seðlabankahússins eins og það liggur fyrir nú að óbreyttum Seðlabanka.

Heildargólfflötur er 12 765 fermetrar. Þar af eru bílageymslur ásamt öryggissvæði og rými fyrir tæknibúnað 3600, mötuneyti og sameiginleg þjónustuaðstaða 500, en almennt rými alls 8665. Reiknistofa bankanna fær 2260 m2, en eins og menn vita er hún til húsa suður í Kópavogi og þar vinna 75 manns eða þar um bil. Almennt rými án Reiknistofu er 6405 m2: fjárhirslur og seðlagreining 1390 m2, geymslurými, fjölritun o.fl. 930 m2, afgreiðslusalur og anddyri 480 m2, skrifstofuhúsnæði og fundarsalir 3605 m2. (Gripið fram í: Fyrirgefðu. Á eftir mötuneyti talar þú um almennt rými. Hvað sagðir þú að það væri?) 8665 m2.

Núverandi húsnæði Seðlabankans til sambærilegra nota, þ.e. skrifstofuhúsnæði og fundarsalir, er 2500 m2 eða um 70% af rými til sambærilegra nota í nýju fallegu Seðlabankabyggingunni sem bráðum verður fullgerð eða á árinu 1986.

Ég taldi rétt, virðulegi forseti, að þetta kæmi fram svo menn vissu hve stórt húsið væri sem verið er að fjalla um. Það er eðlilegra og skemmtilegra, þegar verið er að tala um hús, að vita stærð þeirra. (Gripið fram í: Fyrirgefðu aftur.) Menn vita nokkurn veginn hvar húsið er staðsett, þannig að ég þarf ekki að fara að... (Gripið fram í: Reiknistofan. Hvað sagðir þú um hana?) Reiknistofu bankanna? Ég skal gefa hv. þm. þetta svo ég þurfi ekki að endurtaka þetta oftar en tvisvar eða oftar en þrisvar héðan úr ræðustól og eyða dýrmætum fundartíma.

Það má vel vera að þetta hús verði notað til fleiri þarfa en nú er gert ráð fyrir. Ég vil ekki fullyrða neitt um það. Það kemur í ljós á sínum tíma. (Gripið fram í.) Byggingin verður afskaplega falleg, það er ég sannfærður um. Annað mál er að opinberar stofnanir eiga að gæta lágmarksfyrirhyggju og sparnaðar í öllu sínu atferli og ég held ég hafi komið að því fyrr í ræðu minni að mér þykir þetta nokkuð flott. En það voru byggð myndarleg hús á Íslandi fyrir áratugum þegar þjóðin var að drepast. Þegar hún átti varla málungi matar byggðu menn hallir, jafnvel á nútímavísu.

Ég vil segja það að lokum að ég hefði fremur kosið að flm. hefðu velt því fyrir sér og gert ljósari grein fyrir því hvers konar stofnun þeir vilja að Seðlabankinn sé vegna þess að þung orð hafa fallið í þessu efni.

Menn tala um bindiskylduna og segja að væri látið af bindiskyldunni mundi minnka umfang Seðlabankans svo að eftir það kæmist hann fyrir í einni lítilli skúffu eða svo til. Já, hann var í skúffu í Landsbankanum. Nú er það þannig að líklega vinna tveir starfskraftar í Seðlabankanum við innheimtu bindiskyldunnar. Að vísu starfa nokkru fleiri við að ráðstafa þeim fjármunum. Mér er ekki kunnugt um hversu margir þeir eru. En ég neita því að bindiskylduféð fari í óþarfa. Þetta er nátengt þeim afurðum sem atvinnuvegirnir gefa af sér og við þurfum að afsetja og við þurfum að borga framleiðendunum strax með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Ég hvet fjh.- og viðskn. til þess að kynna sér rækilega starfsaðstöðuna í Seðlabankanum og kynna sér rækilega hvaða hlutverk er eðlilegt að Seðlabankinn hafi með höndum. Vilja menn breyta einhverju þar um? Ef svo er, þá komi menn með myndarlegri frv. en að lækka bindiskyldu, málefni sem þegar er í framkvæmd.