21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3147 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

19. mál, Jarðboranir ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. á þskj. 19 um það að ríkisstj. verði falið að leggja niður Jarðboranir ríkisins, þ.e. að leggja niður þá starfsemi á vegum ríkisins sem fjallað er um í reikningum þess undir því heiti. Hér er um sjálfstætt fyrirtæki, anga út úr Orkustofnun, að ræða þar sem sinnt er verkefni ósköp ámóta því sem við gætum hugsað okkur, skurðgreftri, leigubílaakstri eða öðru slíku og ekki nokkur ástæða til að ríkissjóður eða stofnanir hans séu að bera þann kostnað sem óhjákvæmilega hlýst af fjárfestingum í tækjum sem þarna er um að ræða. Þegar ríkissjóður þarf svo mjög á fé að halda hlýtur að liggja í augum uppi að selja eigi tæki sem þessi svo að ríkið þurfi ekki að greiða neitt annað, þegar það þarf á þessari þjónustu að halda, en það þjónustugjald sem upp er sett hverju sinni.