26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3191 í B-deild Alþingistíðinda. (2662)

261. mál, lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Stórmál eins og þetta er, húsnæðismálin almennt, verður ekki rætt í fyrirspurnatíma eða rakið. Hitt vita allir, að fyrir ótrúlega stóran hóp í okkar þjóðfélagi eru húsnæðismálin og vandinn þar sem ókleifur veggur sem hækkar stöðugt og verður enn örðugri yfir að komast venjulegu fólki. Í ljósi síversnandi ástands og æ fleiri nauðungaruppboða væri freistandi að gera nokkra úttekt á þessum málum öllum, efndum glæsiloforða sem gefin voru fyrir síðustu kosningar um betri tíð með blóm í haga fyrir húsbyggjendur sem húskaupendur, en það verður gert síðar. Hitt skiptir mestu í dag, hversu bætt skuli úr hreinu neyðarástandi fjölmargra fjölskyldna, hversu lánveitingar ganga fram til þeirra sem lengi hafa beðið úrlausnar og hafa fengið lítil svör um hvenær úr verði bætt.

Eins og spurningarnar bera með sér snerta þær einungis tvo lánahópa og af þeim sést einnig hver seinkun hefur á orðið um afgreiðslu umfram það sem áður hefur verið. Hins vegar taldi ég brýnt að bein svör fengjust um það frá hæstv. ráðh. hversu líklegt væri að um þessa lánahópa og afgreiðslu til þeirra færi. Svo margir hafa hér hagsmuna að gæta að ótækt er að ekki séu gefin svo skýr svör sem nú er unnt um afgreiðslu þegar þess er gætt að undir venjulegum kringumstæðum hefði átt að afgreiða lán til þessa fólks í desember s.l.

Ég reikna með því að eftir upphlaupið í kringum Byggung á dögunum og yfirlýsingar í kjölfar þess og fyrirgreiðslu til Húsnæðisstofnunar ríkisins þar á ofan séu nú svör á reiðum höndum. En hitt er svo aftur miklu meiri spurning í mínum huga hvort það þurfi virkilega voldugan byggingaraðila til þess að venjulegt fólk geti fengið svör og úrlausn sem hefur verið beðið eftir um mánaðaskeið. Því spyr ég hæstv. félmrh. á þskj. 439:

„1. Hvenær má vænta afgreiðslu G-lána — lána til eldri íbúða — til þeirra sem keyptu íbúðir í apríl-júní á s.l. ári?

2. Hvenær verður þriðji hluti nýbyggingarlána afgreiddur til þeirra sem fengu fyrsta hluta í desember 1983?“