26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3201 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

295. mál, lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. félmrh. áðan um að það hafi hvergi komið fram að taka ætti af nýbyggingafé í þessa sérstöku neyðarfyrirgreiðslu, þá vil ég láta þess getið að á fundi forsrh. með fulltrúum allra stjórnarandstöðuflokkanna kom beinlínis fram að hann taldi að fé til neyðaraðstoðarinnar ætti að taka af nýbyggingafé. Fsp. hv. 2. landsk. þm. styðst væntanlega við þessar yfirlýsingar forsrh. sem hafa einnig komið fram á opinberum vettvangi. Það er því full ástæða til þess að spurt sé með þeim hætti sem hér er gert.

Skv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun eins og hún liggur fyrir er gert ráð fyrir að veita 705 millj. kr. til F- lána á árinu 1985. Skv. þeim yfirlýsingum sem forsrh. hefur gefið er gert ráð fyrir að lækka þá upphæð niður í 500–550 millj. kr. Ef þetta á ekki að taka af öðrum liðum þýðir það stórkostlega lækkun á lánshlutfalli. Ég vil ítreka spurningu hv. 2. landsk. þm. til félmrh. og spyrja: Er ætlunin að lækka lánin eða er ætlunin að fækka lánunum? Ef hvorugt stendur til, af hvaða lánaflokkum Húsnæðisstofnunar á þá að taka 150–200 millj. kr.? Lánum til meiri háttar viðgerða á íbúðarhúsnæði, orkusparnaðarlánum, lánum til dagheimila, lánum til íbúða aldraðra eða lánum til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði? Hvaða lánaflokkar eru það sem ráðh. ættar að skera niður?

Í annan stað vil ég mótmæla mjög ákveðið yfirlýsingum hans aftur og aftur varðandi lánsfjáráætlun. Frv. til lánsfjárlaga liggur fyrir í Ed. Alþingis. Þar hefur ekki verið hægt að taka á því máli til fulls eins og eðlilegt væri vegna þess að það skortir stefnumótun frá ríkisstj.

Ríkisstj. hefur ekki gefið út hvað hún ætlar að skera niður, skv. síðustu yfirlýsingum upp á 1000 millj. kr., hvaða atriði það eru sem á að skera niður. Þess vegna er útilokað að setja dæmið þannig upp: Ja, það er beðið eftir því að þingið afgreiði lánsfjáráætlunina. Lánsfjáráætlun er eðli málsins skv. lánsfjáráætlun ríkisstj. og hún heitir það. Lánsfjárlög eru sá þáttur sem lagalega byggir undir lánsfjáráætlunina. Það er því með öllu fráleitt fyrir hæstv. ráðh., hvort sem það er þessi ráðh. eða aðrir, að skjóta sér á bak við þingið í þessum efnum. Það er ríkisstj. sem ræður þessu ein. Ef það stendur á lánsfjáráætlun í sambandi við húsnæðismálin er það ríkisstj. einni að kenna.