24.10.1984
Efri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Á Íslandi hefur það verið svo um langan aldur að mönnum hefur verið tiltæk viss hjálp í fréttaleysi og fásinni. Þessi hjálp hefur verið látin í té af gamalli konu sem hét Gróa og var kennd við bæinn Leiti. Gróa þessi hefur nú greinilega verið hjálpsöm þegar hv. 5. landsk. þm. skrifaði ræðu sína, enda var það svo að undir lok máls síns sagði hv. þm.: Menn segja ýmislegt sem þeir vildu ekki sagt hafa. Það hugsa ég að hann eigi eftir að staðreyna hjá sjálfum sér.

Ég vil víkja að nokkrum atriðum sem voru dylgjur að mínu mati ósæmilegar og sjálfsagt að svara undir eins ef það mætti verða til að létta á kostnaði ríkisins við störf rannsóknarnefndarinnar ef hv. þd. sér ástæðu til að samþykkja till. með heimild í 39. gr. stjórnarskrárinnar. Með leyfi hæstv. forseta hljóðar greinin svo:

„Hvor þingdeild getur skipað nefndir innandeildarþingmönnum til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Þingdeildin getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.“

Nú getur starf slíkrar nefndar orðið æði tafsamt, ef henni eru ekki veittar allar þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir, og ég vil víkja að nokkrum atriðum.

Hv. þm. hélt ýmist fram nokkrum atriðum eða þá að hann dylgjaði um óviðurkvæmileg afskipti mín af því máli sem hann fjallar hér um. Einkum hefur honum sem og mörgum þm. stjórnarandstöðunnar orðið tíðrætt um lítið svar sem ég gaf í Ríkisútvarpinu 6. okt. Þá spurði fréttamaður mig hvað ég hygðist gera í málum hinna ólöglegu útvarpsstöðva. Þannig stóðu mál þá að degi áður hafði útvarpsstjóri kært þessar stöðvar til ríkissaksóknara þannig að málið var í höndum ákæruvaldsins. Málið var þar. Það var í höndum þeirra aðila sem með kærur fara þannig að á því stigi málsins var ekki um margt að ræða að því er verkefni ráðh. varðaði að þessu leyti til. Hitt er öllum mönnum frjálst að vita, sem ég hef margoft lýst yfir, að ég er einlægur fylgismaður þess að afnema einkarekstur ríkis á útvarpi. Mér þykir það jafnfráleitt að hafa einkarekstur ríkisins á útvarpi eins og væri um einkarétt ríkisins á öðru tjáningarformi.

Það er fjöldi manna í þjóðfélaginu og mér er nær að halda meiri hluti sem litur á þetta sem sjálfsagt réttindamál. Mörg þjóðfélög líta svo á að lagaákvæði sem skerða slíkt tjáningarfrelsi með almennum hætti, eins og gert var í þessu tilfelli, gangi í berhögg við grundvallarréttindi manna til frjálsrar tjáningar. Og stjórnarskrá gengur framar lögum. Það eru til dómar í veröldinni sem um slíkt hafa gengið. Mér er alveg ljóst að undir venjulegum kringumstæðum gengi leyfislaus fjarskiptastarfsemi, sem flytti útvarpsefni til almennings, hvort heldur er um þráð eða þráðlaust, í berhögg við einkaréttarákvæði Ríkisútvarpsins að því er útvarp varðar og einkarétt ríkisins á vegum Póst- og símamálastofnunar að því er fjarskipti varðar. Þetta er ekki nokkurt einasta vafaatriði. Hitt er annað mál að við þær aðstæður þegar útvarpsstöðvar, tvær eða þrjár eða fjórar eða fimm eða hvað þær eru nú margar þessar stöðvar, spruttu upp dagana eftir skyndilokun útvarpsins, þá virðast þær hafa borið fyrir sig neyðarréttarsjónarmið svo og stjórnarskrárákvæði um tjáningarfrelsi. Ég skal ekki leggja dóm á það atriði, ekki vegna þess að ég hafi ekki skoðun á þeim málum, heldur vegna þess að þetta mál er til umfjöllunar hjá dómstólum og það er þeirra að skera úr um þetta atriði. En neyðarréttur er sú aðstaða þegar athæfi, sem undir venjulegum kringumstæðum væri ólögmætt, verður lögmætt vegna sérstakra annarra atvika, annaðhvort vegna þess að það er verið að afstýra hættu eða neyð. M.ö.o.: Það er hagsmunamat sem er lagt til grundvallar við dóma á slíku tilviki, þannig að aðstaðan sem fyrir hendi er gerir það réttmætt að fórna því, sem þá er talið minni hagsmunir, fyrir meiri. Að mati þeirra sem bera fyrir sig neyðarréttarsjónarmiðin er þarna um að ræða að meiri hagsmunir hafi verið fólgnir í því að menn fengju að koma einhverjum fréttum til almennings gegnum útvarp og þá þess heldur að það lágu niðri póstsamgöngur, blöð voru ekki, sími ekki í fullkomnu lagi og Ríkisútvarpið hafði verið alveg lokað. Þessi atriði eru til umfjöllunar hjá réttum aðilum.

Ég efast ekki um að hv. þingdeild taki mikið tillit til dóms hv. 5. landsk. þm., en ég vil minna á að það eru aldir síðan Alþingi hafði dómsvald og dómur eins þm. um slíkt stenst ekki ef lögmætur og til þess skipaður dómstóll kemst að annarri niðurstöðu. Ég held sem sagt að í þessu máli sé það eitt að gera, ef menn vilja fá skorið úr um lögmæti þessa, að bíða eftir niðurstöðu dómstólsins. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Þegar tilvitnuð ummæli hæstv. póst- og símamálaráðherra, hæstv. samgrh. Matthíasar Bjarnasonar, voru uppi höfð um að hann aðhefðist ekkert í þessu máli án þess að ósk kæmi fram frá menntmrh., þá var þegar búið að senda málið til ákæruvaldsins. Það var hjá ríkissaksóknara og var til umfjöllunar þar. Að því er varðar hraða málsins skal ég ekki um það segja hvað er eðlilegur hraði í slíku máli. Um það er ég ekki dómbær. Hv. þm. er væntanlega að beina örvum sínum að ríkissaksóknara eða starfsmönnum hans, ég átta mig ekki alveg á því. En hvað sem um það er skiptir meginmáli að fá dómsniðurstöðu í þessu máli til að fá skorið úr um lögmæti.

Hitt er svo annað mál að það getur vel verið að við komumst að þeirri niðurstöðu að atferli sé ólögmætt vegna þess að lögin mæla fyrir á þennan veg eða annan, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Ef okkur þykja lögin óréttlát eigum við vitanlega að vinna að því að breyta þeim og það er það sem við erum að gera núna hér í hv. Alþingi. Það er allt annað mál. Ég vona að áhyggjur hv. þm. af þessu máli, sem auðvitað blindast saman við flokkslegar áhyggjur hans, verði nú ekki til þess að trufla hann í fyrri afstöðu hans til þess að rýmka útvarpslögin, en ég þykist vita að hann hafi verið einn þeirra sem voru þeirrar skoðunar að svo bæri að gera.

Hv. þm. nefndi í ræðu sinni að hafa bæri lögin að leiðarljósi og það er alveg rétt. Ef okkur líka ekki lögin, ef okkur finnast þau ranglát, þá skulum við reyna að breyta þeim. En ef við ætlum að hafa lögin að leiðarljósi skulum við líka átta okkur á því að allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum og þó að okkur líki ekki skoðanir einhverra, sem við teljum hafa brotið lög, á ekki að taka þá eina út úr og láta þá sæta sérstakri meðferð fremur en annað fólk. Vissulega á að framfylgja lögunum. Eins og fram kom í umr. í gær í hv. Nd. er eins og mönnum finnist það ekki gilda einu hver í hlut á því að allt í einu segja menn að þeir efist um hvort lögmæt hafi verið t.d. athöfn eins og sú sem hv. þm. Eiður Guðnason nefndi hér áðan, þegar útvarpinu var lokað skyndilega 1. okt. Hv. þm. segir að það sé umdeilt meðal lögfræðinga. Það má vera að það sé umdeilt meðal lögfræðinga, en engan lögfræðing hef ég heyrt halda því fram að sú athöfn hafi verið lögmæt. (EG: Útborgun launanna, hæstv. ráðh. Lögfræðinga greindi á um það.) Það er rétt að málinu um útborgun launa var vísað til dómstóla líka. Við getum haft þá skoðun og ég hef þá skoðun að það hafi að vísu verið löglegt að greiða ekki út öll októberlaunin. Hitt getur menn greint á um, hvort það var hyggilegt eins og málin stóðu. Ég hygg að það hafi verið löglegt. Laun eru endurgjald fyrir unna vinnu og ef það liggur fyrir fram fyrir að menn ætla ekki að vinna þá vinnu sem þeir fá fyrir fram greidda er alveg ljóst að þá hljóta þau laun að mega lækka. Hvort það ætti að koma til framkvæmda við þessi mánaðamót eða síðar, það kemur mönnum ekki saman um og um það má vafalaust deila. Þessi varð nú niðurstaðan að þessu sinni. Aftur á móti finnst mér það harla sérkennilegt ef menn eiga að láta það gott heita að eini fjölmiðill landsins sem heitir útvarp sé lokaður landsmönnum gersamlega að óvörum og þá þess heldur þegar vitað var að hann átti að lokast vegna verkfalls þrem dögum síðar og mönnum því nauðsyn að koma ýmiss konar tilkynningum á framfæri einmitt vegna þessa afbrigðilega ástands. Mönnum voru allar bjargir bannaðar fyrirvaralaust.

Þetta er atriði sem er mjög mikið áhyggjuefni. Það er auðvitað alveg rétt og engin ástæða til að efast um að það voru mörg lögbrot framin þessa dagana og eru. Það verður því miður að segjast eins og er að ekki hefur tekist að halda uppi lögum í landinu þessa daga nú í verkfallinu að öllu leyti, eins og menn vilja gera undir eðlilegum kringumstæðum. Okkur er öllum kunnugt um tjón sem af því hefur leitt.

Hv. þm. vék að því og þótti skemmtilegt eða hélt það væri staðreynd, að ég hefði fengið afrit af öllum fréttum Ríkisútvarpsins. Ég þykist vita af hverju hv. þm. heldur þetta. Þannig var og þannig er að lögum samkvæmt þá á einstaklingur sem á sig telur hallað í fréttum Ríkisútvarpsins rétt á því að fá afrit af þeim fréttum. Eftir að ég hafði svarað með þessari litlu setningu í útvarpi sem þýðir ósköp einfaldlega að menn eigi að vera jafnir fyrir lögunum, þá voru tilkallaðir í fréttatíma Ríkisútvarpsins í hádeginu sunnudaginn eftir talsmenn allra stjórnarandstöðuflokkanna til þess að útskýra mín ummæli, en mér var hins vegar enginn kostur á því gefinn. Það var enn þá haldið áfram að víkja að mínum ummælum í þessa veru í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Þetta frétti ég hins vegar ekki fyrr en um áttaleytið um kvöldið. Þá var hringt í mig utan af landi og sagt: Þetta er ekki rétt. Mér var tjáð eftir minni þess sem talaði hvað sagt hefði verið og hverjir hefðu verið dregnir inn í þá umr. Þarna var um rangtúlkanir og rangfærslur að ræða. Vel má vera að fréttamönnum þyki þetta viðeigandi vinnubrögð. Mér þykir það ekki. Mér þykir þetta vera fyrir neðan virðingu þeirra sem hafa einkarétt á hinu talaða orði í útvarpi. Af þessum sökum óskaði ég eftir þessum fréttum. Þær fékk ég og þær hef ég, ef hv. þm. skyldi einhvern tíma hafa löngun til að líta á þær. Ég held að þær séu til enn þá. Eins og hann sagði auðvitað sjálfur eru fréttir Ríkisútvarpsins þar að auki alls ekkert leyndarmál. Hefði kannske verið ráð hjá Ríkisútvarpinu þessa daga að selja ljósrit af fréttum sínum þannig að þeir sem misstu af fréttatímum fengju nú einhverjar fréttir af því sem væri að gerast í veröldinni. En það er nú önnur saga. Það hefði þó vissulega verið hugsanlegur möguleiki því að ekki eiga allir kost á að heyra fréttir einmitt á þeim tveimur tímum sem þær eru fluttar.

Ég vil víkja að einu atriði sem ég hef sérstaka ástæðu til að leiðrétta hjá hv. þm. Hv. þm. sagði að menn efuðust um sjálfstæði Ríkisútvarpsins eftir afskipti ráðh. og þau afskipti áttu að hafa verið fólgin í því að ég hefði bannað útvarpsstjóra að hafa samskipti við BSRB eða verkfallsnefnd. Útvarpsstjóri og hver sem er annar má tala eins mikið við menn úr BSRB og honum sýnist án minna afskipta. Það sem var hins vegar um að ræða var þetta: Ef sótt er um undanþágu til kjaradeilunefndar fyrir því að menn megi vinna sem í verkfalli eru eða séu menn úrskurðaðir vinnuskyldir í verkfalli, þá á ekki að byrja að framkvæma þá vinnu fyrr en úrskurður kjaradeilunefndar liggur fyrir. Það var það sem ég tjáði útvarpsstjóra, að lögum samkvæmt væri það kjaradeilunefnd sem hefði þetta úrskurðarvald og Ríkisútvarpinu bæri að hlíta þeim úrskurði eins og öðrum ríkisstofnunum að farið sé að lögum. Ég get ekki séð að sjálfstæði Ríkisútvarpsins skerðist af þessum ástæðum fremur en annarra stofnana, nema að því leyti til sem sjálfstæði stofnana og frelsi manna er innan ramma laganna eins og hv. þm. vitnaði réttilega til. Það er vitanlega innan ramma laganna. Og ekki nóg með það. Þessu frelsi fylgir sú ábyrgð að beita því þannig að það bitni ekki á mannréttindum annars fólks.

Ég held nú að það hafi ekki verið fleiri atriði í ræðu hv. þm. sem ég hafði sérstaka ástæðu til þess að svara. En mér finnst engin ástæða til að eyða tíma hv. Alþingis í það að tjá því hvað eftir annað sömu Gróusögurnar, eins og hér hefur verið ýjað að í síðustu ræðu að því er þetta varðar. (EG: Hvaða Gróusögur, hæstv. ráðh.?) Ja, um það t.d. að ég hafi bannað útvarpsstjóra að hafa samskipti við BSRB og um það að efast mætti um sjálfstæði Ríkisútvarpsins eftir þau afskipti ráðh. að skrifa Ríkisútvarpinu bréf um hver hefði úrskurðarvald um vinnuskyldu í kjaradeilum. Það stendur í lögum. Einnig má nefna dylgjur í sambandi við það að menntmrh. hefði ekkert aðhafst í málinu. Það var komið til ákæruvaldsins. Það var komið til umfjöllunar réttra aðila. Mér er alveg óskiljanlegt hvað hv. þm. á við. En það er nú svo með menn sem eru illa staddir í pólitíkinni að þeir missa stjórn á sér svo að þeir rífa hár sitt og skegg, þeir sem það hafa. Þetta er í óeiginlegri merkingu vitanlega, og menn vita bara ekki hvað þeir eiga að segja næst. Og þeim verður á, eins og hv. þm. sagði áðan sjálfur, að „segja ýmislegt sem þeir vildu ekki sagt hafa.“ Ég ítreka að ég hygg að það eigi hv. þm. eftir að finna hjá sjálfum sér.