26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3207 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

260. mál, útlán banka og sparisjóða

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. hefur flutt fjórar fsp., þ.e. 260. mál Sþ. Þm. hefur lesið upp fsp. hér svo að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þær.

Þær fsp. sem hér liggja fyrir voru sendar bankaráðum viðskiptabanka og Sambandi sparisjóða í byrjun þessa mánaðar og þess óskað að svör væru send rn. hið allra fyrsta. Svörin hafa nú borist. Svör einkabanka eru á þá leið að þeim sé hvorki heimilt né skylt að veita þær upplýsingar sem leitað er eftir með fsp.

Í svari Iðnaðarbankans er vísað til álitsgerðar sem bankinn lét taka saman um skyldur sínar til að láta stjórnvöldum í té upplýsingar. Síðan segir í bréfinu, með leyfi forseta:

„Helstu niðurstöður lögfræðingsins eru þær, að Iðnaðarbanki Íslands sé lögpersóna og hlutafélag í skilningi íslenskra laga og hafi bankinn ákveðna upplýsingaskyldu gagnvart hluthöfum eins og hlutafélagalögin ákveða. Af ákvæðum hlutafélagalaganna og samþykkt bankans sé ljóst að upplýsingaskipti milli hluthafa annars vegar og bankaráðs, bankastjórnar og endurskoðenda bankans hins vegar eigi fyrst og fremst að fara fram á hluthafafundum, aðal- og aukafundum.

Í álitsgerðinni kemur enn fremur fram að Iðnaðarbanki Íslands hf. sé í stjórnarfarslegum skilningi hvorki stjórnarstofnun í hinu almenna né sérstaka stjórnkerfi ríkisins.

Loks fjallaði lögfræðingurinn um upplýsingaskyldu gagnvart Alþingi og komst að þeirri niðurstöðu að skv. gildandi réttarheimildum hafi bankinn ekki upplýsingaskyldu gagnvart einstökum þm. eða þingnefndum, fastanefndum eða lausanefndum, með þeirri undantekningu einni sem fjallað er um í 39. gr. stjórnarskrárinnar, um sérstakar rannsóknarnefndir.

Með vísan til þessarar álitsgerðar Þórðar S. Gunnarssonar hrl. telur bankaráð Iðnaðarbanka Íslands hf. sér ekki skylt að svara framkominni fsp.

Í svari Verslunarbankans segir:

„Það er skoðun bankaráðs að því sé hvorki skylt né heimilt skv. lögum að veita umbeðnar upplýsingar í því formi sem óskað er. Á aðalfundum bankans eru gefnar upplýsingar um þau atriði er snúa að hinum ýmsu þáttum í rekstri hans ef tilefni gefst til hverju sinni, en hins vegar er ekki fjallað um stöðu einstakra viðskiptamanna þar sem slíkt samrýmist ekki þeim trúnaði sem þeir njóta.

Með hliðsjón af framansögðu sjáum vér oss ekki fært að veita efnisleg svör við þeim spurningum sem til vor var beint.“

Svar Samvinnubankans er því sem næst á sama veg, en þar segir, með leyfi forseta:

„Það er skoðun bankaráðs að bankanum sé ekki skylt að veita umbeðnar upplýsingar. Ekki er heimilt að gefa upplýsingar um einstaka viðskiptamenn bankans, sbr. þagnarskyldu bankans, bankaráðs og starfsmanna, skv. reglugerð nr. 11/1963 um Samvinnubanka Íslands hf.“

Alþýðubankinn vísar í sínu svari til 56. gr. reglugerðar bankans, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki verða gefnar upplýsingar um viðskipti manna við bankann, skuldir þeirra né eignir. Bankaráðsmenn, bankastjórar og aðrir starfsmenn bankans eru bundnir þagnarskyldu um allt það er snertir hagi viðskiptamanna bankans og þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Þagnarskyldan helst þó þeir láti af starfi.“

Í svari Sambands sparisjóða kemur fram sama afstaða til fsp og hjá einkabönkum.

Ríkisbankarnir svara fsp. á þann veg að þeim sé óheimilt að veita þær upplýsingar sem leitað er eftir með fsp. Bankarnir vísa að öðru leyti til álits lögfræðings Landsbankans, Stefáns Péturssonar, en þar segir svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. mgr. 17. gr. laga nr. 11/1961, um Landsbanka Íslands, er svohljóðandi:

„Bankaráð, bankastjórar og allir starfsmenn bankans eru bundnir þagnarskyldu um allt það er snertir hagi viðskiptamanna bankans og þeir fá vitneskju um í starfi sínu.“

Lagagr. þessa verður að túlka á þann veg að stjórnendum og starfsmönnum bankans sé óheimilt að veita upplýsingar um nokkuð það sem snertir hagi viðskiptamanna bankans, hvort sem óskað er eftir nöfnum viðkomandi aðila eða ekki. Viðskipin sjálf falla undir þagnarskyldu bankamanna.

Ekki verður séð af fsp. hvort óskað er eftir nöfnum þeirra aðila sem um er spurt, en svör við henni án slíkrar tilgreiningar mundu leiða til getsaka sem lagagr. er m.a. ætlað að vernda viðskiptamenn bankans fyrir. Niðurstaða mín er því sú“ — þ.e. lögfræðingsins- „að skv. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 11/1961 sé óheimilt að veita þær upplýsingar sem eftir er leitað í fsp.

Þar lýkur því sem segir í bréfi frá Landsbankanum og hinir ríkisbankarnir vísa til. Svör viðskiptabankanna og Sambands sparisjóða eru, eins og fram hefur komið, ótvíræð. Svör þeirra eru fengin eftir að viðskrn. leitaði upplýsinga hjá þeim skv. þeirri fsp. sem hér er til umr.