26.02.1985
Sameinað þing: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3242 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

251. mál, fullvinnsla sjávarafla

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. Guðmundur J. Guðmundsson hefur flutt hér till. til þál. um fullvinnslu sjávarafla og fylgt henni úr hlaði með mjög ítarlegri ræðu, sem ég þakka fyrir, því að í henni komu fram mjög mikilsverðar og miklar upplýsingar. Ég get raunar tekið undir hvert orð af því sem fram kemur í grg. með till. og þeim orðum sem hann sagði hér og undirstrika mikilvægi þess að reyna að auka sem mest verðmæti okkar sjávarafla, bæði með því að bæta nýtingu þess afla sem á land er dreginn og fullvinna þar sem það á við. Það var einmitt þessi fyrirvari sem ég vildi undirstrika og er kannske ástæða til þess að ég kem hér upp, að ég vil undirstrika þennan fyrirvara „þar sem það á við“.

Sannleikurinn er sá að fiskur er ekki alltaf hráefni í iðnaði, eins og mér heyrist allt of margir tala um sem almenna staðreynd og nota niðrandi orð eins og veiðimannastig og veiðimannaþjóðfélag í því sambandi. Ég held að það sé alveg ljóst, ef við lítum á okkar fiskmarkaði, þá er sennilega sá fiskur sem gefur hvað hæst verð í dag, það er ferskur fiskur, sem fluttur er inn beint inn á neytendamarkaði.

Ég átti þess kost á s.l. ári að fara í nokkrar stuttar ferðir til Bandaríkjanna. Ég hef verið að reyna að huga að fiskmarkaði og fiskneyslu þar í landi og mér sýnist að fiskneysla sé að aukast mjög mikið í Bandaríkjunum, m.a. vegna áróðurs frá læknum og öðrum heilbrigðisstéttum, áróðurs þess efnis að hvetja fólk til þess að borða hollari fæðu. Og fiskur er þar mjög ofarlega á blaði þegar verið er að hvetja menn til hollara mataræðis. En þessi aukna fiskneysla í Bandaríkjunum virðist fyrst og fremst vera í ferskum fiski og veitingahús í Bandaríkjunum gera sér nú greinilega mjög mikið far um það að hafa aukinn og fjölbreyttari fisk á boðstólum og er þá alltaf auglýstur sem ferskur fiskur. Nú skal ég að vísu ekki um það fullyrða hvort auglýsingatæknin sé þannig þar í landi að þeir kalli ferskan fisk eða noti sama orðið í sömu merkingu og við, að ferskur fiskur gæti ekki hafa komið við einhvers staðar í frystihúsi, en allavega eru áróður um og auglýsingar veitingahúsa á ferskum fiski orðnar mjög áberandi. Og það er ljóst að þar er um verðmætari og verðmeiri vöru að ræða.

Frosinn fiskur virðist fyrst og fremst nú vera seldur til stofnana, til mötuneyta, sjúkrahúsa, fangelsa, stórra veitingahúsakeðja, sem selja fyrst og fremst það sem Bandaríkjamenn kalla „fast food“ eða hraðtilbúinn mat, sem er búinn til snögglega og neytt á staðnum, en hinn almenni neytendamarkaður fyrir frosinn fisk virðist vera á undanhaldi.

Ég gerði mér far um það ekki alls fyrir löngu að koma við í einu af þeim veitingahúsum, sem eru hvað mikilvægastir viðskiptamenn Íslendinga í fiski, þ.e. Long John Silver. Þessi veitingahúsakeðja telur um 1400 veitingastaði, sem dreifast um öll Bandaríkin, og selur fyrst og fremst fisk og hefur keypt mikið af frosnum fiski af okkur Íslendingum. Ég borðaði þarna til þess að sjá hvernig þeir matreiddu þennan fisk. Þetta er „standard“-fæða. Hann er vafinn inn í ákveðið deig, sem þeir virðast hafa einkarétt á, og sannast sagna fannst mér að gæði fisksins skiptu ekki verulegu máli í þeirri matreiðsluaðferð, sem þarna fór fram, því að bragðefni og það deig, sem utan um fiskinn var sett virtist vera fullt eins mikilvægt og fiskurinn sjálfur. Í þessu tilviki var um kanadískan fisk að ræða. Kanadamenn eru að komast inn á þennan markað í mjög stórum stíl og ég verð að viðurkenna að fiskurinn var ágætur og ekkert upp á hann að klaga. En einhvern veginn fannst mér að ef þetta væri sá markaður, sem við Íslendingar legðum mesta áherslu á í okkar fisksölu í Bandaríkjunum, þ.e. veitingahús af þessu tagi, þá værum við ekki að bjóða 1. flokks vöru, ég vil ekki segja 1. flokks vöru fyrir þær kröfur sem þarna eru gerðar, en mér fannst kröfurnar sem gerðar eru um gæðin ekki það miklar að við ættum ekki að geta gert betur.

Sama þróun held ég að sé í Evrópu. Frakkar t.d. eru mikil fiskneysluþjóð en Frakkar borða helst ekki frosinn fisk. Þeir leggja höfuðáherslu á að fá ferskan fisk og París er einn stærsti ferskfiskmarkaður Evrópu. Þangað er fiskur fluttur frá höfnunum við Atlantshafið og þaðan er honum dreift um allt Frakkland og reyndar víðar inn í Mið-Evrópu, ferskur fiskur sem kemur daglega inn á markaðinn þar. Allt þetta hefur orðið til þess að ég hef verið að velta því fyrir mér: Getur verið, og ég set mikið spurningarmerki við þetta, ég tek það fram, en mér þótti rétt að varpa þessu hér inn í þessa umr., getur verið að ný bylting sé í aðsigi varðandi fisksölu og meðferð á fiski? Getur verið að sú bylting, sem gerð var fyrir nokkrum áratugum og við Íslendingar tókum mjög sterklega þátt í varðandi frystingu fisks, getur verið að sú bylting sé að renna sitt skeið á enda og ný bylting sé í aðsigi, bylting sem eigi rætur að rekja til breyttra neysluhátta og nýrrar samgöngutækni, þ.e. að fólk vilji fyrst og fremst ferskan fisk og það sé ferski fiskurinn sem gefi betra og meira verð en sá frysti? Um þetta skal ég þó ekki fullyrða.

Það væri auðvitað gífurlega alvarlegt áfall fyrir okkur Íslendinga ef þessi þróun yrði, því að við höfum byggt okkar net frystihúsa út um allt land og notað til þess gífurlega mikið fjármagn og hundruð eða þúsundir manna eiga atvinnu sína undir þessu. En ég tel að hér sé um að ræða atriði sem við þurfum að fylgjast mjög rækilega með og leggja okkur mjög fram um að skynja þennan markað, fá tilfinningu fyrir honum, þannig að við getum verið við því búin í tíma að bregðast við ef svo færi sem ég hef hér tæpt á. Ég ítreka það að ég set mikið spurningarmerki við þetta, en tel engu að síður rétt að við Íslendingar höfum þetta sterklega í huga svo að við missum ekki af strætisvagninum í þessum efnum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég bið menn um að líta ekki á þau sem nein andmæli við þessari till., ég tek undir hana. Mér þótti hins vegar rétt að líta á málið frá svolítið öðru sjónarhorni heldur en till. gerir ráð fyrir.