27.02.1985
Efri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3348 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Frsm. 1. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hl. fjh.- og viðskn. sem er að finna á þskj. 538, en eins og þar kemur fram legg ég til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Megintilgangur frv. er að tryggja fé til sérstaks átaks í uppbyggingu dagvistarheimila fyrir börn, en eins og menn vita og fram kemur í grg. með frv. ríkir nú hið mesta ófremdarástand í þessum málum nú, þegar yfir 80% kvenna og rúm 90% karla vinna utan heimilis. Á sama tíma og báðir foreldrar ungra barna eru í sífellt auknari mæli kallaðir til vinnu úti á vinnumarkaðinum sökum bágs fjárhags heimilanna fara framlög ríkisins til dagvistarmála lækkandi að raungildi frá ári til árs. Það gerist þrátt fyrir loforð ríkisstjórna um hið gagnstæða við gerð kjarasamninga við aðila vinnumarkaðarins og þrátt fyrir að sýnt hefur verið fram á að þörfin fyrir dagvistarrými er miklum mun meiri en dagvistarheimilin fá nú annað. Ég vísa þar m.a. til skýrslu menntmrn. um þessi mál frá árinu 1982.

Undan þessum staðreyndum verður ekki vikist og um það er ekki deilt í hv. fjh.- og viðskn. að átaks sé þörf í þessum málum. Um það eru menn sammála, eins og fram kemur í nál. á þskj. 537 frá meiri hl. n. sem hv. þm. Jón Kristjánsson hefur þegar gert grein fyrir og nál. á þskj. 540 frá 2. minni hl. n., og gleður það mig sannarlega að ekki skuli vera ágreiningur um þetta atriði.

Það sem menn greinir á um er með hvaða hætti tryggja beri að svo miklu leyti sem það er hægt framlög til þessara mála og hversu miklu fé skuli varið til uppbyggingar dagvistarheimila ár hvert, en það er einmitt meginmálið. Hv. meiri hl. n. setur allt sitt traust á ríkisstj. og leggur til að átakinu mikla verði vísað til hennar. Núverandi ríkisstj. hefur hins vegar ekki gert annað í þessum málum hingað til en að lækka framlög til byggingar dagvistarheimila frá einu ári til annars, þannig að augljóst er að þaðan er lítilla átaka að vænta og viðbúið að þetta nauðsynjamál dagi þar uppi í einhverri möppunni.

Meiri hl. n. er ósammála flm. um að lögbinda skuli framlög til þessara verkefna, eins og segir í nál. meiri hl. með leyfi forseta, og vísar meiri hl. þar til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um frv. þar sem sett er fram sama skoðun. Ég vil vekja athygli hv. þdm. á því að Samband íslenskra sveitarfélaga segir ekki eitt orð um það í umsögn sinni af hverju það telur slíka lögbindingu óæskilega. Má það undarlegt teljast þar sem gera verður þá lágmarkskröfu til umsagnaraðila að þeir segi af hverju þeir eru með eða á móti einhverju svo umsögnin sé fyllilega marktæk.

Ég vil út af þessu atriði ítreka það, sem ég sagði í framsögu með frv., að frvgr. bindur á engan hátt hendur sveitarfélaganna í þessum málum. Hún tryggir aðeins að ekki muni standa á framlagi ríkisins til dagvistarmála upp að ákveðnu marki. sveitarfélögin hafa eftir sem áður nákvæmlega jafnfrjálsar hendur í þessum málum og þau nú hafa. Eftir sem áður er það undir pólitískum vilja og fjárhagslegu bolmagni sveitarfélaganna komið hversu miklu fé þau verja til dagvistarmála.

Það er líka rétt að benda á að ef sveitarstjórnir nýta ekki það fé sem til ráðstöfunar er af hálfu ríkisins hverju sinni fellur sá hluti fjárveitingarinnar sem umfram er sjálfkrafa niður um áramót, eftir því sem mér er tjáð af fjmrn. Allur ótti við það að ríkið sé að binda hendur sveitarfélaganna með þessu móti er því fullkomlega ástæðulaus og álit meiri hl. n. hvað þetta varðar því ekki á rökum reist.

Í annan stað segir í áliti meiri hl. fjh.- og viðskn., með leyfi forseta.

„Ákvörðun um framlög ríkisins hverju sinni á að vera í höndum fjárveitingavaldsins og sé þá tekið mið af þeirri þörf sem fyrir hendi er.“

Ég er fyllilega sammála þeim meirihlutamönnum í þessu efni, en ég fæ alls ekki séð hvernig þetta getur verið röksemd gegn efni þess frv. sem hér um ræðir. Fjárveitingavaldið er í höndum Alþingis og með þessu frv. er það lagt í hendur Alþingis að ákveða hver verði framlög ríkisins til dagvistarmála næstu sjö árin. Ákvörðun Alþingis er ákvörðun fjárveitingavaldsins. Það er síðan ríkisstj. að framkvæma ákvarðanir Alþingis og virðist mér sem hv. meirihlutamenn hafi hér e.t.v. ruglast eitthvað á hverjir séu handhafar hvaða valds.

Í öðru lagi, ef hv. meirihlutamönnum er alvara með því að segja að taka eigi mið af þeirri þörf sem fyrir hendi er við ákvörðun fjárveitinga, eins og segir á nál., er nærtækast fyrir þá að samþykkja það frv. sem hér er til umr. því það tekur einmitt mið af þeirri þörf sem menntmrn. áætlar að sé fyrir hendi þótt hins vegar sé óvíst hvort frv. næði að fullnægja þeirri þörf þótt að lögum yrði.

Ég fæ því ekki séð að neitt standi eftir af rökum meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. Frv. miðar við áætlaða þörf fyrir dagvistarrými, það er háð samþykki fjárveitingavaldsins og það bindur á engan hátt hendur sveitarfélaganna.

Þar sem í nál. er tekið undir meginmarkmið frv. er ljóst að það sem upp á vantar er einfaldlega pólitískur vilji til að framkvæma það átak í dagvistarmálum barna sem frv. kveður á um, vilji til þess að takast á við það verkefni sem hér um ræðir og það e.t.v. á kostnað annarra verkefna. Það er ekki nóg að segjast vilja eitthvað, það verður líka að gera það sem menn segjast vilja. Og eins og ég sagði áðan hef ég ekki mikla trú á því að stefnubreyting verði hjá núv. hæstv. ríkisstj. á þann veg að hún taki allt í einu upp á því að framkvæma góðan vilja þeirra ágætu hv. þm. sem undirrita nál. meiri hl. fjh.- og viðskn.

Það hefði verið fróðlegt að fá að heyra hvað hæstv. fjmrh. hefur um þetta að segja. Hann er því miður ekki viðstaddur hér í deildinni, en e.t.v. hefur landbrh. einhverja skoðun á þessu og er e.t.v. tilbúinn til að lýsa henni héðan úr ræðustól á eftir.

Ég er, og ekki að ástæðulausu, vondauf um árangur í þessum efnum fari málið til ríkisstj., en ég fagna því að menn viðurkenni einróma að átaks sé þörf í dagvistarmálum barna, en um það voru menn hreint ekki sammála við 1. umr. málsins hér í hv. þd.

Í nál. 2. minni hl. hv. fjh.- og viðskn. er öllu hraustlegar á málum tekið en hjá meiri hl. og leggur 2. minni hl. til að frv. verði samþykkt með nokkrum breytingum. Um brtt. 2. minni hl. n. vil ég það segja að mér finnst ekki öllu máli skipta á hvern hátt framlög til dagvistarmála eru lögbundin. Ég hef valið þá leið að lögbinda hlutfall af heildarútgjöldum fjárlaga vegna þess að ég lít á framlög til dagvistarmála sem útgjaldalið sem skoðast verður í samhengi við aðra útgjaldaliði á fjárlögum, sem sagt hversu miklu við viljum verja til þessara mála miðað við önnur mál. Því hef ég valið þá leið sem er að finna í frv. Ég tel þann hátt eðlilegri en að lögbinda einhverja ákveðna fjárhæð eins og 2. minni hl. leggur til að gert verði, en eins og ég sagði hér áðan skiptir lögbindingarleiðin sjálf e.t.v. ekki öllu máli. Meginmálið er að tryggja nægilegt fé til þessara mála hvernig sem við förum að því.

Því er það að það sem ég hef einkum við brtt. 2. minni hl. n. að athuga er að upphæðin er of lág. 75 millj. á ári er vissulega miklum mun ríflegri upphæð en þær 30 millj. t.d. sem veittar voru á fjárlögum fyrir árið í ár, en þær duga samt engan veginn til að mæta þeirri þörf sem áætlað er af hálfu menntmrn. að fyrir hendi sé í þessum málum, hvað þá heldur til að vinna upp það sem tapast hefur í byggingarhraða á undanförnum árum eða mæta þeirri þörf sem kann að vera til staðar umfram þá þörf sem menntmrn. áætlar og bent er á í grg. með frv. Til þess þurfum við miklu hærri fjárhæð eða allt að 150 millj. kr. á ári miðað við verðlag ársins í fyrra. Ég tel ekki vænlegt að binda með lögum til sjö ára of lága fjárhæð til þessara mála. Þá er e.t.v. betur heima setið en af stað farið.

Fim. till. miða tillöguupphæðina við umsóknir sveitarfélaganna um fjárveitingar til byggingar dagvistarheimila á síðasta ári. Ég vil í þessu sambandi minna á að fjárbeiðnir sveitarfélaganna eru vitaskuld háðar pólitískum vilja meiri hl. sveitarstjórna í þessum málum hverju sinni og ber ekki að taka þær sem ábendingu um hver hin raunverulega þörf fyrir dagvistarrými er. Eins og þeim, sem fylgjast með málefnum Reykjavíkurborgar, er kunnugt lögðu minnihlutaflokkar í borgarstjórn fram tillögur — fleiri en eina — við gerð fjárhagsáætlunar borgarinnar á s.l. hausti um mun hærri fjárveitingar til dagvistarmála en fengust samþykktar. Hefðu þær verið samþykktar hefði fjárbeiðni sveitarfélaganna hækkað til muna. Ég tel það fráleitt að þegar verið er að lögbinda framlög til lengri tíma til ákveðinna verkefna, eins og till. gerir ráð fyrir, sé tekið mið af þeim pólitíska vilja sem tímabundið ræður ferðinni í sveitarstjórnum í stað þess að taka mið af þeirri þörf sem fyrir hendi er fyrir dagvistarrými barna.

Eins og ég sagði áðan leggur frv. engar skyldur á herðar sveitarfélaganna. Það tryggir aðeins framlög ríkisins til dagvistarmála sem sveitarfélögin geta notfært sér ef þau vilja. Því er engin ástæða til að skera framlög ríkisins við nögl af ótta við að þau reisi sveitarfélögunum hurðarás um öxl sem mér hefur hvarflað í hug að kunni að vera hugsunin á bak við þessa brtt.

Ég vil taka fram að það er rétt, sem fram kemur í nál. 2. minni hl. hv. fjh.- og viðskn., að við afgreiðslu fjárlaga flutti Kvennalistinn brtt. um hækkun á fjárveitingu til byggingar dagvistarheimila sem miðaðist við að mæta fram komnum fjárbeiðnum sveitarfélaganna. Eins og ég sagði þegar ég mælti fyrir þeirri brtt. við 2. umr. fjárlaga vildi Kvennalistinn með þeirri till. leggja til að framlög til dagvistarmála hækkuðu í tveimur áföngum, fyrst upp í rúmar 70 millj. á fjárlögum ársins 1985 og síðan, fengist það frv. sem við erum nú að ræða um samþykkt, upp í nálega helmingi hærri fjárhæð á fjárlögum ársins 1986. Fjárlagatillagan miðaði því við að stóra stökkið í þessum málum yrði tekið í tveimur áföngum. Ég nefni þetta hér til þess að fyrirbyggja misskilning á tillöguflutningi Kvennalistans.

Virðulegi forseti. Góður vilji hv. þm. í 2. minni hl. fjh.- og viðskn. til að gera átak í dagvistarmálum barna leynir sér ekki og ég fagna þessum góða vilja. Okkur greinir í rauninni aðeins á um hversu stórt skref skuli nú stíga í þessum málum og við hvað skuli miða fjárframlög. Ég er þeirrar skoðunar að skrefið þurfi að vera býsna stórt ef við eigum að geta ráðið bót á þeim vanda sem nú blasir við fjölda foreldra ungra barna í landinu. Og ég er einnig þeirrar skoðunar, eins og reyndar hv. meiri hl. fjh.-og viðskn., að fjárframlög til dagvistarmála eigi að miða við þá þörf á dagvistarrými sem áætlað er að sé fyrir hendi á hverjum tíma en ekki við eitthvað annað. Við þetta hvoru tveggja miðast það frv. sem hér er nú til 2. umr. og því legg ég til á nál. á þskj. 538 að það verði samþykkt óbreytt.

Fyrir utan umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frv., sem þegar hefur verið fjallað um, bárust þrjár aðrar umsagnir um það sem ég vil lesa, með leyfi forseta.

Frá Fóstrufélagi Íslands barst svohljóðandi umsögn: „Fóstrufélag Íslands fagnar fram komnu frv. um átak í dagvistarmálum barna og væntir þess að það nái fram að ganga.

Í grg. með frv. er bent á svonefnda tíu ára áætlun sem hefur verið gengið fram hjá við fjárveitingar til dagvistaruppbyggingar. Á sínum tíma fagnaði Fóstrufélag Íslands umræddri áætlun sem því mikilverðasta sem lagt hefur verið fram varðandi dagvistaruppbyggingu. A sama hátt hefur félagið talið allsendis óviðunandi að ríkið skuli ekki hafa staðið við gefin fyrirheit.

Fóstrur þekkja best hinn geigvænlega skort á dagvistarrýmum sem langir biðlistar vitna um. Þannig sjá þær í starfi sínu hörmulegar afleiðingar þess að börn búa við óörugga vistun þar sem ekkert markvisst uppeldisstarf fer fram. Börn okkar eru framtíðin og ekkert þjóðfélag hefur efni á að spara í aðbúnaði þeirra. Með tilliti til þessa varar Fóstrufélag Íslands við öllum hugmyndum um ódýrar lausnir við uppbyggingu dagvistarheimila. Þær verða gjarnan hinar dýrustu þegar til lengdar lætur. Að auki verða vinnustaðir barna að vera fyllilega sambærilegir við vinnuaðstæður annarra þjóðfélagsþegna.“

Undir þessa umsögn rita formaður og varaformaður Fóstrufélags Íslands.

Frá stjórn Félags einstæðra foreldra barst svohljóðandi umsögn:

„Stjórn Félags einstæðra foreldra hefur kynnt sér frv. nr. 61 til laga, flm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, og lýsir stuðningi sínum við það.“

Undir þetta ritar Stella Jóhannsdóttir.

Frá Sambandi foreldra- og kennarafélaga í grunnskólum Reykjavíkur barst svohljóðandi umsögn: „Samband foreldra- og kennarafélaga í grunnskólum Reykjavíkur hefur móttekið bréf yðar, dags. 14. nóv. 1984, þar sem óskað er eftir umsögn sambandsins um frv. til l. um átak í dagvistarmálum barna. Með bréfi þessu vill stjórn sambandsins lýsa eindregnum stuðningi sínum við frv. þetta af eftirtöldum meginástæðum:

1. Þjóðfélagsrannsóknir hérlendis gefa ótvíræðar upplýsingar um að í flestum tilvikum vinna báðir foreldrar barna á aldrinum 1–10 ára utan heimills. Afleiðingar þessa eru þær að fjölmörg börn eru án lágmarksumönnunar verulegan hluta dagsins.

2. Að áliti sérfróðra aðila um uppeldismál eru góðar dagvistunarstofnanir taldar nauðsynlegur stuðningur við uppeldisstarf heimilanna.

3. Þjónusta einkaaðila (dagmæður) á þessu sviði getur vart talist nægilega formföst og örugg lausn á dagvistun barna og því ber að efla þjónustu hins opinbera.

Að lokum ítrekar sambandið stuðning sinn við frv. þetta og treystir því að það fái fljóta og jákvæða afgreiðslu Alþingis.“

Undir þetta skrifar f.h. stjórnar Sambands foreldra- og kennarafélaga í grunnskólum Reykjavíkur Ingibjörg Einarsdóttir ritari.

Jafnframt því að vekja athygli hv. þm. á þessum umsögnum um frv. langar mig til að minna hv. þm. á ályktun síðasta þings Alþýðusambands Íslands um dagvistarmál, en hún var svohljóðandi með leyfi forseta:

„Við gerð kjarasamninga Alþýðusambands Íslands haustið 1980 hét ríkisstj. að beita sér fyrir því í samvinnu við sveitarfélögin að þörfinni fyrir dagvistarþjónustu barna yrði fullnægt á næstu tíu árum. Síðan eru liðin fjögur ár og ekkert ber á efndum. Þvert á móti hefur framlag til byggingar dagvistarstofnana á fjárlögum farið lækkandi að raungildi hin síðari ár. Af þessum sökum skorar 35. þing Alþýðusambands Íslands á ríkisstj., Alþingi og sveitarfélög að gera nú þegar sérstakt átak í þessum málum þannig að staðið verði við gefin fyrirheit og dagvistarþörfinni fullnægt fyrir árið 1990.“

Fjöldamargar aðrar ályktanir, áskoranir og samþykktir um þessi efni væri hægt að nefna, þ. á m. tillögu samþykkta á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna s.l. haust um þessi mál sérstaklega, tillögu sem Ísland studdi, en ég held að meining hinna fjölmörgu aðila, sem áskoranir, tillögur og samþykktir hafa gert um þessi mál, ætti að hafa komið nokkuð glögglega í ljós þegar.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta mál í bili. Hv. þm. er, trúi ég, öllum ljóst að við svo búið má ekki lengur standa í dagvistarmálum barna hér á landi. Það er ábyrgðarhlutur okkar sem sitjum á hæstv. Alþingi að leggja okkar af mörkum til að aflétta því neyðarástandi sem nú ríkir í þessum málum. Við getum ekki sent báða foreldra ungra barna út á vinnumarkaðinn án þess að hugsa fyrir því hvað eigi að gera við börnin. Og við getum ekki vænst þess að konur og karlar standi jafnfætis úti á vinnumarkaðinum á meðan foreldrar hafa ekkert val um það hvort þau fóstri börn sín á dagvistarheimili eða ekki. Annars vegar verðum við að minnka þá óheyrilegu vinnuskyldu sem þjóðfélagið leggur foreldrum þessa lands á herðar og gefa foreldrunum færi á að vera meira með börnum sínum en nú er og hins vegar verðum við að sjá til þess að öll börn eigi kost á góðri og öruggri fóstrun þann tíma sem foreldrarnir eru að vinna fyrir lífsnauðsynjum. Ég skora því á hv. þdm. að kanna nú grannt hug sinn til þessara mikilvægu mála og veita þeim liðsinni sitt.

Virðulegi forseti. Það er ekki á hverjum degi sem við Kvennalistakonur fáum málin okkar afgreidd úr nefndum Alþingis og ég vil því nota þetta tækifæri til að þakka formanni fjh.- og viðskn., hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni, fyrir góð og — ég vil leyfa mér að segja það — elskuleg vinnubrögð við afgreiðslu þessa máls.