12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3470 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

255. mál, auglýsingar banka og sparisjóða

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. svör hans. Það er ljóst af svörum ráðh. að enn reyna sumar bankastofnanir að skjóta sér á bak við bankaleynd þegar Alþingi biður um upplýsingar um starfsemi bankanna. Vísað er bæði til bankaleyndar og að aðalfundur hafi ekki verið haldinn. Ég vil minna á að það var líka spurt um árið 1983 svo að þeim bönkum sem neitað hafa að svara hefði verið í lófa lagið, líkt og Alþýðubankanum, að gefa upplýsingar um auglýsingakostnað fyrir 1983. En það er ljóst af þeim upplýsingum sem þó komu fram hjá hæstv. ráðh. varðandi t.a.m. ríkisbankana að um gífurlegar fjárhæðir er að ræða sem varið er í auglýsingakostnað á hverju ári. Lætur nærri að bara hjá ríkisbönkunum séu þetta 30 millj. árið 1984.

Ég tel að það sé alveg ljóst að sú samkeppni, sem háð hefur verið um takmarkað sparifé landsmanna, hafi gengið út í öfgar og í raun kallað fram yfirboð á innlánsvöxtum sem bankar eiga erfitt með að rísa undir. Ekki hefur þetta síst leitt til vaxtaokurs í útlánum. Síðan neyðist ríkissjóður til að taka þátt í þessu vaxtabrjálæði sem ég vil kalla svo. Vaxtafrelsið hefur leitt til þess að það eru nánast okurvextir sem eru á útlánunum. Það var ekki síst á síðastliðnu ári sem gífurlegar vaxtabreytingar urðu og þær eru nú að koma með fullum þunga niður á þeim sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið. Þegar vextir hækka úr 2.5% í 7–8% eins og gerðist á s.l. ári, eða um 180–200% þá er það nánast rothögg fyrir þá sem eru með miklar fjárhagslegar skuldbindingar. Ákvörðunin um vaxtafrelsi á s.l. ári og að fella úr gildi verðbótaákvæði launa á sama tíma og fjárhagslegar skuldbindingar eru háðar ákvæði lánskjaravísitölu og hún fær að æða áfram, þessir tveir þættir eru það fyrst og fremst sem þessa dagana eru að sliga íbúðakaupendur og húsbyggjendur. Ég tel því að vaxtafrelsið í ágúst s.l., sem formaður Sjálfstfl. kallaði tímamótaákvörðun og nánast efnahagsundur, sé með stærri mistökum sem þessi ríkisstj. hefur gert og er þó af mörgu að taka.

Af svörum ráðh. er ljóst að mjög litlar upplýsingar er hægt að fá um verðbréfamarkaðinn. Ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt að setja löggjöf um verðbréfamarkaðinn. Vil ég spyrja hæstv. ráðh. um skoðun hans á því máli og hvort að því hafi verið hugað að undirbúa frv. sem tryggi það að verðbréfamarkaðurinn verði háður eftirliti. Ég tel einnig að það þurfi að auka sjálfstæði bankaeftirlitsins þannig að það verði óháð ægivaldi Seðlabankans. Ég tel að það mundi stuðla að virkara bankaeftirliti og veita bönkunum aukið aðhald.

Ég ítreka þakklæti mitt til ráðh. og spyr hann í ljósi þess sem fram kom í svari hans, að það er nánast engar upplýsingar hægt að fá um verðbréfamarkaðinn, hvort ríkisstj. hafi hugað að löggjöf í því sambandi.