12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3473 í B-deild Alþingistíðinda. (2803)

297. mál, útflutningur landbúnaðarafurða

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Spurningar þær sem eru á þskj. 478 voru sendar til skipafélaganna og beðið um upplýsingar sem þau síðan gáfu og ég las upp áðan. Ég hef því miður ekki fleiri tölur hér. þannig að ég geti farið að svara nýjum spurningum. Ég býst við að samanburð á flutningsgjaldi muni þeir sem eru kunnugir gengi gjaldmiðla geta gert þó að gengið breytist vitanlega nokkuð frá mánuði til mánaðar. En ég las hér upp þær upplýsingar sem fengust við þeim beinu spurningum sem í fsp. voru.

Ég á erfitt með að skilja að það sé einokun í reynd þegar allir hafa leyfi til að flytja út með þeim takmörkunum einum, sem ég nefndi, að ekki væri um að ræða allt of mikið undirboð. Það eru mjög margir sláturleyfishafar í landinu og aðeins hluti þeirra skiptir við Samband ísl. samvinnufélaga. Hinir selja kjöt sitt til allt annarra aðila. Ég get ómögulega séð hvernig hægt er að seg a að þar sé um einokun að ræða.

Ég veit ekki heldur hversu lengi þessir flutningar hafa verið boðnir út. Það kemur ekki fram í fsp. að óskað sé eftir upplýsingum um það, heldur aðeins um þær staðreyndir sem fram komu í svörunum við hinum beinu spurningum.

Ég get tekið undir að það er mikilvægt að reynt sé að leita allra bestu markaða sem hægt er fyrir okkar búvörur. Þó verðum við í þeim efnum að hlíta því að allar þjóðir reyna að verja heimamarkað sinn fyrir innflutningi og styðja sinn eigin landbúnað með margvíslegu móti. Það heimsmarkaðsverð sem um er að ræða er því langt frá raunverulegu kostnaðarverði í öðrum löndum. Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum munu sennilega allt að því 40% af framleiðslukostnaði búvara koma á einhvern hátt frá ríkinu. Það er við þetta sem við eigum að keppa m.a. með útflutningi þangað.