12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3496 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

332. mál, gjaldmiðlar í erlendum lánum fyrirtækja

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. vildi ég svara með eftirfarandi greinargerð: Árið 1979 var að óskum fiskvinnslunnar tekið upp að veita gengisbundin afurðalán endurkeypt af Seðlabanka með viðmiðun við Bandaríkjadollar. Hafði þá verið kvartað undan því að lánskjör á afurðalánum væru óhagstæðari en þau sem keppinautar íslenskra útflytjenda nytu erlendis.

Árið 1981 fór að bera allmikið á misgengi milli Bandaríkjadollars og helstu Evrópumynta. Komu þá fram óskir um að lán yrðu miðuð við gengi annarra mynta en Bandaríkjadollars og þá helst ýmissa Evrópumynta. Í júlí 1981 tilkynnti Seðlabankinn að hann væri reiðubúinn að endurkaupa af viðskiptabönkunum lán vegna útflutningsframleiðslu miðað við annan erlendan gjaldmiðil en Bandaríkjadollar. Þegar til kom var samt lítil eftirspurn eftir slíkum lánum. Í lok desember 1981, þegar afurðalán útflutningsframleiðslunnar voru aftur færð yfir í íslenskar krónur, námu slík lán í öðrum myntum en Bandaríkjadollar aðeins 0.6 % af útistandandi gengisbundnum endurkaupum Seðlabankans.

Síðari hluta árs 1983 voru aftur uppi óskir um að gengisbinda afurðalán. Til þess að forðast gengisáhættu, sem fylgir því að miða við einn gjaldmiðil, var nú horfið að því ráði að miða gengisbindinguna við SDR-gjaldmiðil Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en hann er samansettur af fimm gjaldmiðlum. Enda þótt hlutfall einstakra gjaldmiðla geti verið breytingum háð frá einum tíma til annars eru þær breytingar yfirleitt smávægilegar. Nú eru hlutföllin sem hér segir: Bandaríkjadollar 56.58%, yen 13.68%, sterlingspund 7.98%, þýskt mark 14.26%, franskur franki 7.50%. Vegna mikillar þýðingar Bandaríkjadollars í milliríkjaviðskiptum heimsins vegur hann þyngra en hinar myntirnar en áhrifa japanska yensins og Evrópumynta gætir þarna verulega. Vegna þess er SDR til muna stöðugri gjaldmiðill en nokkur hinna út af fyrir sig. Sést það m.a. á því að á því tímabili sem liðið er frá því að gengisbinding við SDR var tekin upp í október 1983 og þar til nú hefur gengi krónunnar lækkað gagnvart þessum gjaldmiðlum sem hér segir: Gagnvart SDR 27.2%, Bandaríkjadollar 34.4%, yeni 26.8%, sterlingspundi 8.6%, þýsku marki 5.2% og frönskum franka 15.3%. Þrátt fyrir spádóma flestra þeirra sem fylgjast með þróun gengismála á gjaldeyrismörkuðum heimsins hefur gengi Bandaríkjadollars haldið áfram að hækka fram á þennan dag. Er nú svo komið að margir spá því að á því muni verða áframhald enn um sinn. Á móti hafa Evrópumyntir stöðugt farið lækkandi og yen liggur þarna á milli. Vægi Evrópumynta í SDR hefur þó dregið verulega úr hækkun þessa gjaldmiðils samanborið við Bandaríkjadollar. Þrátt fyrir þetta hefur gengisþróun verið óhagstæð þeim sem selja afurðir í Evrópumyntum, þar sem þær myntir hafa lækkað í hlutfalli við SDR á því tímabili sem áður getur vegna aukins styrkleika Bandaríkjadollars. Því má þó ekki gleyma að fyrir þá sem selt hafa í Bandaríkjadollurum en fengið lán með viðmiðun við SDR hefur þessi þróun verið hagstæð eins og framangreindar tölur sýna. Telja má að þannig sé ástatt um 70% af útflutningsframleiðslunni.

Þótt menn hafi ekki getað séð fyrir þá gengisþróun sem orðið hefur, og verið hefur gangstætt flestum spám síðustu misserin, þá er ekki óeðlilegt, þegar menn líta til baka, að óskir hafi komið í seinni tíð um að veita mönnum svigrúm til að taka afurðalán vegna framleiðslu með viðmiðun við aðra gjaldmiðla en SDR, þ.e. aðallega Evrópumyntir. Í sumum tilvikum hefur það raunar verið svo að fyrir milligöngu viðskiptabanka hafa útflytjendur tekið útflutningslán við afskipun afurða og þá í þeim gjaldmiðli sem varan greiðist í.

Varðandi 2. lið fsp. vil ég geta þess að skv. ósk ríkisstj. hefur verið unnið að því í Seðlabankanum síðan á árinu sem leið að endurkeypt afurða- og rekstrarlán Seðlabankans verði flutt til viðskiptabankanna og Seðlabankinn hætti að hafa bein afskipti af þeim lánveitingum. Ófyrirsjáanlegur dráttur hefur orðið á því að þessi breyting kæmi til framkvæmda en líða fer að því að svo verði. Undirbúningur er einnig hafinn að því að framleiðendur eigi kost á afurða- og rekstrarlánum með viðmiðun við aðra gjaldmiðla en SDR.

Herra forseti. Ég vænti þess að ég hafi svarað þeirri fsp. sem hér er borin fram.