13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3549 í B-deild Alþingistíðinda. (2898)

5. mál, útvarpslög

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það hefur verið margt og mikið fjallað um þetta ágæta útvarpsmál og ætla ég mér ekki að gera að umtalsefni alla enda þess og kanta. heldur langar mig til að víkja athyglinni að hlutum sem ég held að séu nokkuð mikilvægir. þ.e. sambúð stjórnmálamanna og stjórnmálastofnana og fjölmiðla.

Það vefst ekki fyrir neinum að nauðsynlegt er að til sé í landinu öflug fjölmiðlun. Ef vel er er hún í formi blaða, tímarita, sjónvarps, útvarps og ýmissa þeirra miðla sem fyrir hendi eru. Hlutverk þessara stofnana hlýtur að vera að reyna að skýra og upplýsa fólk og reyna að sundurgreina og útlista málefni til þess að á endanum komumst við hugsanlega að einhvers konar sannleik. Kannske má segja að hlutverk blaða, tímarita, sjónvarps, útvarps o.fl. sé að reka í sameiningu einhvers konar sannleiksmálaráðuneyti. Viðleitni þessara aðila beinist að ýmsum. Hún beinist að Alþingi. Hún hlýtur að beinast að ríkisstj. og ýmiss konar almannasamtökum sem eru valdamiklar stofnanir í samfélaginu eða öðrum valdaaðilum. Til þess að þetta gangi er tvennt mikilvægt. Það eru tvö grundvallarskilyrði.

Í fyrsta lagi þarf að gera einhverjar þær aðgerðir sem tryggja fjölbreytileika fjölmiðlanna, tryggja að fyrir séu á hverjum tíma margar uppsprettur eða lindir upplýsinga þannig að um vissa samkeppni sé þar að ræða. Í öðru lagi er mikilvægt að tryggja sjálfstæði þessara sömu aðila. Þá höfum við annars vegar fjölbreytileika og hins vegar sjálfstæði.

Tökum fjölbreytileikann fyrir fyrst. Hann skiptir verulega miklu máli. Fróðlegt er t.d. að líta til annarra landa. Í Bretlandi starfaði á árunum upp úr 1974. að ég hygg, svokölluð Annan-nefnd. Hún var undir forsæti Annans lávarðar og fjallaði um fjölmiðlun í Bretlandi. Þegar sú nefnd skilaði niðurstöðum lagði hún mikla áherslu á þörfina fyrir fjölbreytileika í menningarlegum og samfélagslegum atriðum. Þetta þykir svo sem ekkert nýtt, en þótti kannske nýtt þá. Þessa áherslu á fjölbreytileika sjáum við gerast í ýmsu tilliti í menningarmálum, eins og í áherslu á staðbundið útvarp, áherslu á staðbundna blaðaútgáfu og fjölgun þeirra sem þar koma við sögu. Þetta er breyting frá því sem má kannske segja að hafi verið stefnan á áratugnum á undan þar sem leitast var við að stækka einingar, steypa þær í sama mót og jafnvel skapa miðstýringu sem menn kölluðu reyndar ekki miðstýringu. Menn voru sælir í þeirri trú. sem var kannske eðlilegt þá. að þeim mun stærri sem einingarnar væru og þeim mun færri sem kæmu að stjórnun þeirra. þeim mun markvissari yrði starfsemi þeirra.

Annan-nefndin taldi það verulega hættulegt lýðræðinu ef uppsprettur fréttaskýringa og skoðana yrðu fáar. Ég er sammála þessari niðurstöðu og því tel ég að það sé eitt hlutverk stjórnmálamanna í umræðum um fjölmiðlun að útbúa skilyrði til að fjölga uppsprettum skoðana og skýringa og koma líka í veg fyrir að þær safnist á eina hendi eða fáar hendur.

Það er af því taginu sem sú tillaga okkar Bandalagsmanna er í framkomnum brtt. við útvarpslagafrv. að setja ákveðnar reglur gegn því að mikilvægir fjölmiðlar, hvort sem það er útvarp. sjónvarp eða blöð. safnist á fáar hendur. Þetta er grundvallaratriði til að tryggja fjölbreytileika skoðanalindanna.

Maður heitir Anthony Smith og er Breti, gamall og reyndur fjölmiðlari. Hann er háskólakennari í þessari grein og hefur skrifað mikið um þetta og sömuleiðis stjórnað sjónvarpsþáttum, bæði um fjölmiðlun og önnur efni, í Bretlandi. Hann telur að eina leiðin til raunverulegrar virkrar útvarpsstarfsemi, bæði hljóðvarps og sjónvarps sé með mörgum einingum þar sem hver þeirra hafi örugga fjárhagslega afkomu. Það er grundvallaratriði til að þessar stofnanir geti gengið. Meðal þessara stofnana verði síðan samkeppni með því nauðsynlega sjálfstæði. t.d. frá pólitískum ítökum, sem sé nauðsynlegt til að þessar stofnanir geti gengið eðlilega.

Ég held að það sé mikilvægt að íslensk útvarpslög. þegar þau verða samþykkt. hafi það að markmiði að tryggja að sem flestir geti komist að og sem flestir geti starfrækt stöðvar af þessu tagi. Þá er ég að meina elektrónísku miðlana, en þetta gildir í raun líka um blöð. tímarit o. fl.

Því næst langar mig að koma að sjálfstæði þessara stofnana. Það sem ég vil segja í sambandi við sjálfstæði er tvíþætt:

Í fyrsta lagi er það stjórnun útvarps og sjónvarps. Hvernig er stjórnun fyrir komið? Hvernig er útvarpsstjórn? Hvernig er útvarpsráð?

Í öðru lagi skiptir líka fjármögnunin máli, eins og ég sagði áðan. Það er mat fjölmiðlamanna að stjórnmálamenn, sem standa álengdar og fylgjast með fréttamönnum með hljóðnema og myndavélar, öfundi þá kannske á ýmsan hátt og óttist jafnvel völd þeirra. Þetta fólk hefur mikil völd og mikil áhrif. Þau völd eru að því leyti án ábyrgðar að þetta fólk verður ekki kallað til ábyrgðar gagnvart kjósendum. Þetta fólk stendur ekki í sömu sporum og stjórnmálamenn, ef vel á að vera, þurfa að gera. Þannig hefur, kannske af eðlilegum ástæðum, komið fram viss tortryggni þar sem stjórnmálamenn leitast við að gera fjölmiðlafólkið ábyrgt gagnvart þeim sem þeir telja réttkjörin stjórnvöld — í flestum tilfellum þeir sjálfir.

Þetta kemur fram á ýmsan hátt. T.d. er á Íslandi hafður sá siður að Alþingi kýs stjórnvöld útvarps. Alþingi kýs núna útvarpsráð og Alþingi á samkv. framkomnum tillögum um útvarpslög að kjósa bæði útvarpsréttarnefnd og útvarpsráð. Í Bretlandi er farin önnur leið. Þar er einfaldlega farin sú leið að sambærilegar nefndir eru skipaðar af ráðh. Þær eru skipaðar af framkvæmdavaldi. Það er álitið hlutverk framkvæmdavaldsins að sjá um skipan þessara stofnana. Ráðh. og rn. er látið það eftir. Í Þýskalandi tíðkast hins vegar nokkuð undarleg blanda. Þar tíðkast tilnefningar ýmissa aðila í yfirstjórn sjónvarps- og útvarpsmála. Það eru tilnefndir fulltrúar frá stjórnmálaflokkum, fulltrúar frá fylkisstjórnum og sömuleiðis eru tilnefningar frá ýmsum valdaaðilum í samfélaginu, eins og ASÍ, VSÍ, Stéttarsambandi bænda, kirkjunni og fleiri aðilum svo ég nefni þá hérlenda aðila sem kæmu til greina í svipuðu kerfi.

Lítum fyrst á breska kerfið. Þar er sá siður að rn. og ráðh. skipa einfaldlega útvarpsréttarnefnd og útvarpsráð. Þetta er aðferð sem menn hafa aldrei treyst sér til að nota hér. Ég er þá ekki eingöngu að tala um skipan útvarpsmála hér, heldur hefur sú venja verið mjög rík hjá okkur að láta Alþingi kjósa í stjórnir og ráð fyrir hinar ýmsu stofnanir og hin ýmsu fyrirtæki sem rekin eru annaðhvort af ríkinu eða í einhverjum tengslum við ríkið. En í Bretlandi er alfarið á valdi ráðh. og rn. hverjir eru þar skipaðir. Það er einfaldlega hlutverk framkvæmdavaldsins að sjá um þetta mál. Svo er það hlutverk stjórnmálaflokkanna að fylgjast með starfsemi þessara sömu stofnana og rn. ganga eftir því að farið sé eftir settum reglum og fylgjast með því eftir föngum að menn gæti réttsýni og sanngirni. Þetta kerfi leyfir að stjórnmálaflokkar hafi aðgang að því að sinna eftirlitsskyldu sinni. Eins og kerfið er hjá okkur, þar sem fulltrúar hinna einstöku stjórnmálaflokka sitja í þessum sömu nefndum og ráðum, koma þeir um leið sjálfir í veg fyrir að flokkssystkini þeirra gangi eftir þeirri eftirlitsskyldu sem þeir í raun hafa.

Þessar nefndir og þessi ráð eru skipuð ópólitíski hjá Bretunum. Það er safnað saman fólki sem menn telja að hafi sitthvað til málanna að leggja í sambandi við fjölmiðlun. Ég hygg að núverandi útvarpsráð BBC sé samsett af endurskoðanda, fyrrv. ritstjóra, skólastjóra, háskólakennara, fyrrv. sendiherra og vísindamanni í raungreinum, svo dæmi séu tekin. Þetta er fólk sem þarf ekki að standa neinum stjórnmálaflokkum reikningsskil eða hagsmunasamtökum. Það er einfaldlega skipað af ráðh. til að vinna stofnuninni sem mest gagn. Það hefur líka sýnt sig að þessir fulltrúar telja skyldur sínar ríkastar gagnvart fólki og gagnvart hefð stofnunarinnar sem þeir vinna hjá, en telja sig ekki eiga neina skuld að gjalda pólitíkusum, stjórnmálaflokkum eða einhverjum stofnunum úr kerfinu.

Þrátt fyrir ríka hefð sjálfstæðis í stjórn og rekstri breskra sjónvarpsstöðva hafa þær starfað innan mjög ákveðinna ramma. Um þær hafa verið settar mjög ákveðnar skorður. Þær skorður hafa verið settar af ríkisstjórn og þingi. Því hefur stundum verið haldið fram að útvarpsmálum í Bretlandi megi skipta í þrjú meginskeið. Í fyrsta lagi sé hljóðvarpsskeiðið, í öðru lagi sé sjónvarpsskeiðið þar sem ætíð hafa gilt strangar reglur frá stjórnvöldum og í þriðja lagi það skeið sem hófst í kringum 1980 þar sem verulega hefur verið losað um reglugerðir varðandi framleiðslu og dreifingu sjónvarps- og útvarpsefnis af þeim einföldu ástæðum að tæknilegt umhverfi nútímans er þannig að ekki er hægt að setja um það eins ákveðnar reglur og áður var gert.

Menn telja að reglugerðarfestan hafi valdið ákveðinni deyfð í breska sjónvarpinu og útvarpinu. bæði ríkisrekna kerfinu og því sem er í einkarekstri, og að strangar reglur hafi múlbundið þessi fyrirtæki á vissan hátt og staðið þeim í vegi þegar að því kom að taka upp nýja starfshætti. Þetta er kannske fróðlegt fyrir okkur að íhuga þegar við ætlum að opna fyrir þessi mál, að við reynum að feta meðalveg þess að setja þessari starfsemi skynsamlegar reglur án þess að hneppa okkur um of í reglugerðarfestuna sem er tímaskekkja vegna breyttra aðstæðna á tæknimarkaðinum.

Lítum á hvernig þessi mál hafa þróast í Þýskalandi, þ.e. afskipti stjórnvalda af útvarpi og sjónvarpi. Það hefur orðið talsvert öðruvísi. Ég tók að gamni mínu saman upplýsingar um hvernig stjórnun einnar sjónvarpsrásarinnar, Zweites Deutsches Fernsehen, ZDF, er háttað. Hún var stofnuð 1961 og samanstendur af sjónvarpsfyrirtækjum sem eru sameignarfélög sambandsríkjanna. Þeim var ætlað merkilegt hlutverk, að stuðla að endursameiningu, að stuðla að heiðarlegum fréttaflutningi og flestu því sem gæti orðið nútímalegu lýðræðisríki til framdráttar. Stjórnunin á þessari sjónvarpsrás er eiginlega í tvennu lagi.

Í fyrsta lagi er stór nefnd sem hefur mest völd. Þar eru á milli 60 og 70 fulltrúar og þar hefur verið farin sú leið að tilnefna fulltrúa frá ýmsum svokölluðum hagsmunaaðilum. Þar eiga t.d. stjórnmálaflokkar fulltrúa, þar á sambandsríkið fulltrúa, þar eiga hin einstöku fylki fulltrúa, mótmælendakirkjan, kaþólska kirkjan, gyðingar, verkalýðshreyfing, vinnuveitendasamband, bændur, landssamband iðnaðarmanna, blaðamannafélög svo nokkur dæmi séu nefnd, allt upp í milli 60 og 70 manns. Þarna er reynt að ná breiðri samstöðu um hvernig stjórna eigi þjóðinni til sem mestrar blessunar. Hugmyndir um svipaða skipan útvarpsráðs hafa komið fram hér.

Í öðru lagi er starfandi minni nefnd, sem er svokölluð framkvæmdanefnd, sem í eru fulltrúar sambandsríkjanna og fulltrúar kosnir af þessu stóra ráði og fer sú nefnd með nánari stjórn.

Hérna er gerð tilraun til að ná saman fulltrúum frá sem flestum þjóðfélagsöflum sem ætla mætti að máli skiptu og ætla mætti að hefðu áhuga á að láta þetta fara sem best fram til að ná einhvers konar heildarsátt og sækja fram til sameiginlegs markmiðs hjá þýskri þjóð.

En hvað hefur gerst? Hin pólitísku flokkstengsl ráða mestu um starfsemi allra fulltrúa í báðum þessum sjónvarpsráðum. Það gerist m.a.s. að áberandi framagjarnir stjórnmálamenn sækjast eftir því að vera kosnir í þessi ráð og það gerist líka að fulltrúar svokallaðra ópólitískra samtaka, eins og kirkjunnar, bænda o.fl., verða flokkspólitískir, þeir eru kjörnir vegna þess að þeir hafa mikilvæg pólitísk embætti eða mikilvæg pólitísk tengsl. T.d. hefur það gerst hjá Bæheimska sjónvarpinu að aðeins þriðjungur fulltrúa í stórráðinu hjá þeim hafði flokkspólitíska afstöðu fyrir 25 árum, en 15 árum seinna næstum 60%. Sé fólk kosið á einhvers konar ópólitískum grundvelli til þátttöku í þessu hneigist það til pólitískra afskipta og til að taka pólitíska afstöðu.

Dæmi um áhuga pólitískra forustumanna á því að starfa í svona útvarpsráðum má t.d. taka af framkvæmdaráði annarrar sjónvarpsrásarinnar í Þýskalandi. Þar voru árið 1976 eftirtaldir starfandi: Helmut Kohl flokksformaður kristilegra demókrata, forustumaður stjórnarandstöðu, var líklega forseti framkvæmdanefndarinnar, varaforseti framkvæmdanefndarinnar var borgarstjórinn í Bremen, sem var líka varaformaður jafnaðarmannaflokksins, Hans Koschnick, og í stjórninni var varakanslari, utanrrh. og flokksformaður frjálsra demókrata Hans-Dietrich Genscher. Þarna höfum við dæmi um að forustumenn í stjórnmálum telja það æskilegt fyrir sig og sína flokka að hafa bein afskipti og íhlutun af starfi þessara fjölmiðla.

Þetta eru sem sagt dæmi um flokkspólitíska ásókn í stjórnir sjónvarpsfyrirtækja. Og hver eru áhrifin af þessum staðreyndum? Þau kristallast í nafni greinar sem er skrifuð um þýski sjónvarp og er í bók sem heitir „Television and political life“. sjónvarp og stjórnmál. Greinin heitir „From a democratic showcase to party domination“ eða: Frá lýðræðislegri fyrirmynd til flokkslegra yfirráða. Sem sagt: Sjónvarpskerfi, sem var sett á stofn til að verða fyrirmynd um lýðræðislega starfshætti og lýðræðisleg áhrif, er orðið dæmi um yfirráð stjórnmálaflokka.

Í þessu kerfi átti að ná almennri þátttöku og sameiginlegri ábyrgð hinna ýmsu þjóðfélagshópa, stjórnmálaflokka og stjórnvalda, en vegna beinna pólitískra afskipta af þessum miðlum er hið þýska sjónvarpskerfi orðið dauflegt, það er hrætt við að taka almennilega á málum vegna þess að þeir sem það gera eru lamdir í hausinn af fulltrúum flokkaveldisins. Út úr þessu kemur meðalhnoð sem enginn er almennilega ánægður með. Yfirmenn einstakra sjónvarpsstöðva. sem eru valdir af þessum stjórnvöldum, eru sömuleiðis valdir eftir pólitískum leiðum, en ekki með tilliti til reynslu eða hugsanlegrar gagnsemi fyrir fjölmiðlun.

Á endanum gerist það, sem menn kannske þekkja lítið, það gæti verið að einhverjir þekktu það hér, að starfsfólk er ekki að sinna fréttamennsku og fjölmiðlun, heldur er það að reyna að feta einhvers konar einstigi flokkspólitísks jafnvægis. Kannske endar með því að það er ekki fréttamat sem þeim er aðallega hugleikið, heldur einhvers konar flokkamat til að vera nokkurn veginn viss um að öllum sé gert sæmilega hátt undir höfði.

Það er nokkuð fróðlegt að athuga ummæli ýmissa sem hafa starfað í þessu þýska sjónvarpskerfi sem er svona nátengt pólitískum áhrifum og pólitískum flokkum. Þar kalla ég fyrst til vitnis Klaus von Bismarck, hvorki meira né minna, sem stýrði stóru sjónvarpskerfi frá 1961 til 1976. hann segir í ræðu 1977, stuttu eftir að hann lætur af störfum, hann þorir ekki að segja þetta fyrr en hann er hættur að vinna hjá sjónvarpinu, hann segir: „Ég hef gert mér grein fyrir að þar sem atvinnustjórnmálamenn koma nærri þá eru það flokkslegir valdahagsmunir sem á endanum ráða gjörðum þeirra. Það að gera ráð fyrir einhverju öðru væri barnaskapur.“ Eða eins og hann segir: „To put an idealistic gloss on the situation.“ Síðan segir hann: „Hver er ástæðan fyrir þessari vaxandi tilhneigingu til flokkspólitískrar skiptingar? Það er þrýstingur flokkanna, yfirleitt flokkshópanna á hinum ýmsu svæðum, á fulltrúa í þessum ráðum. Það er þessi þrýstingur sem hefur aukist. Áhrifin eru þau að frelsi meiri hluta ráðsmanna til ákvarðana, manna sem eiga undir flokk sinn að sækja, frelsi þeirra til ákvarðana er orðið afar lítið.“ Síðan segir Bismarck:

„Það gengur gegn grundvallarhugmyndum um frjálslynt samfélag að stjórnmálaflokkar, sem eru ábyrgir fyrir því að koma fram ákveðnum pólitískum vilja og til þess kosnir, það gengur gegn grundvallarreglum þessa frjálslynda samfélags að þeir til samans hegði sér eins og þeir séu handhafar einhvers konar almenns samfélagslegs vilja“. eins og kemur fram hjá íslenskum stjórnmálaflokkum þegar þeir telja að með því að vera kosnir á löggjafarsamkomu í ákveðnum hlutföllum hafi þeir um leið fengið framselt vald hjá þjóðinni til þess að gegna ýmiss konar starfsemi og ráða ýmiss konar starfsemi sem ekkert á skylt við löggjafarstörf.

Ég held ég ræði nú ekki meira af þessum ummælum Klaus Bismarcks. Hann hefur lýst skoðun sinni á flokkspólitískum hagsmunum í sjónvarpsmálum.

Það hafa fleiri svipaða sögu að segja. Annar yfirmaður úr þýska sjónvarpskerfinu hefur sagt: „Ég tel það barnaskap að gera ráð fyrir að fulltrúar ýmissa samfélagslegra hagsmunasamtaka (eins og ég lýsti áðan). kirkjunnar, atvinnumarkaðar og fleiri og fleiri, líti á sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar framar hagsmunum sinna eigin samtaka. Á endanum eru menn þrælar og þjónar þeirrar hagsmunaklíku sem velur þá til þátttöku í þessu starfi frekar en þeir séu með einhvers konar samfélagsleg markmið heildarinnar í huga.“

Þetta er aðeins lítið dæmi um mat manna, sem um langt skeið hafa starfað í kerfi sem er nátengt flokkspólitískum hagsmunum, fjölmiðlakerfi sem hefur sýnt sig að má sig hvergi hræra núna, vegna þess að alls staðar sitja fulltrúar stjórnmálaflokkanna og gæta hagsmuna sinna og sinna flokka frekar en hagsmuna heildarinnar.

(Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann geti lokið máli sínu núna eða hvort hann vilji halda áfram ræðu sinni klukkan 6.) Ætli ég ljúki ekki ræðu minni klukkan 6, ég á eftir að draga af þessu ýmsar ályktanir. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Það sem ég gerði að umtalsefni hér áðan var einn hluti þessa útvarpsmáls, þ.e. hvert samband stjórnmála, stjórnmálamanna og útvarps og þá aðallega sjónvarps skuli vera. Það kemur í raun og veru fram í því stjórnarfyrirkomulagi sem er á þessum málum, þ.e. hvernig stjórnvöld. Alþingi eða ríkisstj., skipa t.d. í útvarpsréttarnefndir eða útvarpsráð, þar sem um er að ræða ríkisrekstur á einhverjum hluta útvarps- eða sjónvarpskerfisins.

Ég nefndi mismunandi fyrirkomulag. Ég nefndi að Bretar fara þá leið að þar er það ráðherra sem skipar þær nefndir sem eru hliðstæðar við þær nefndir sem við höfum með útvarpsréttarnefnd eða útvarpsráði. Þar eru skipaðir fulltrúar sem eiga ekki neina skuld að gjalda pólitískum samtökum eða hagsmunasamtökum af einu eða neinu tagi heldur eru aðeins ábyrgir gagnvart ráðh. sínum og þeim reglum og lögum sem um viðkomandi starfsemi gilda. Ég tel að þetta sé hin eðlilega leið í þessum efnum. Þetta er það starf sem framkvæmdavaldið á að hafa.

Ekkert Alþingi hefur verið kosið til þess að fara með stjórn fyrirtækja eða stofnana sem eru rekin á vegum ríkis eða í samvinnu við ríki. Umboði alþm. lýkur á Alþingi með lagasetningu. Þangað og ekki lengra á það að ná. Það á síðan að vera hlutverk framkvæmdavalds að skipa í stjórnir fyrirtækja. Alþm. hafa síðan eftirlitshlutverki að gegna gagnvart þessum sömu aðilum og það hlutverk að fylgjast með að farið sé eftir settum lögum og reglum og hagsmuna heildarinnar gætt en ekki einstakra stjórnmálaflokka.

Sú hefur reyndar orðið raunin á í Bretlandi að menn, sem eru á þennan hátt skipaðir til útvarpsmála hafa bersýnilega talið að þeirra tryggð og trúfesta væri gagnvart stofnuninni, væri gagnvart því hlutverki sem viðkomandi stofnanir hafa en ekki gagnvart einstökum stjórnmálaflokkum eða einstökum faghreyfingum. Þessu kann að einhverju leyti að ráða hin ríka breska hefð og trúfesta við stofnanir sem eru sumar hverjar mjög gamlar. Um það skal ég ekki fullyrða, en tel þó að þarna sé fyrirmyndar að leita. Að auki tel ég að þetta fyrirkomulag styðjist í raun við grundvallarreglur þeirrar stjórnskipunar sem við viljum hafa, þ.e. um aðskilnað valdþáttanna, framkvæmdavalds og löggjafarvalds og síðan eftirlitshlutverk löggjafarvaldsins. Þetta er sem sagt hið breska kerfi.

Í þýska kerfinu, sem ég vitnaði í áðan og er í kringum aðra þýsku sjónvarpsrásina, hefur verið farin önnur leið. Þar var reynt að fara þá leið að kalla saman til ábyrgðar og ákvarðanatöku fulltrúa frá hinum „socially relevant forces“, þ.e. öllum viðkomandi þjóðfélagsöflum. Þar er þá safnað saman fulltrúum bæði frá stjórnmálaflokkum, frá ríkisstjórnum eða fylkisstjórnum og frá hinum einstöku hagsmunasamtökum. Skv. þeim vitnisburði, er ég vísaði í í ræðu minni áðan, hefur þetta kerfi gersamlega mistekist vegna þess að, eins og þeir segja sem hafa unnið undir því, á endanum er hugurinn og tryggðin í yfirgnæfandi tilfellum gagnvart stjórnmálaflokkum frekar en einhvers konar heildarhagsmunum, ef við getum reiknað með að slíkir hagsmunir séu til. Ég tel að af þessu höfum við lærdóm að draga og ættum að hyggja vel að því að þetta er mjög mikilvægt atriði í því efni sem við erum hér að fara inn á með nýrri löggjöf og varðar bæði útvarpsréttarnefnd og útvarpsráð.

Svo að ég víki að Íslandi erum við með eitt kerfið enn þar sem við kjósum hreinlega á Alþingi fulltrúa í þessar nefndir. Ég held að þetta sé á sinn hátt skylt þessu þýska kerfi. Við erum að reyna að úttæra ítök og ábyrgð stjórnmálaflokka út fyrir Alþingi. út í þjóðlífið og ég tel að það sé rangt.

Ég enda þessa ræðu mína með þeirri samantekt að það sé rangt að fara þá leið, sem gert er ráð fyrir í fram komnu frv., að láta Alþingi kjósa útvarpsréttarnefnd og útvarpsráð. Þau verkefni, sem þessar nefndir og þessi ráð hafa, eru best komin hjá hópi sem skipaður er af ráðh. og hefur skyldur gagnvart ráðh. Þannig getum við haldið flokkspóltískum hagsmunum og sjónarmiðum utan við þetta mikilvæga svið. Á þann hátt mundum við geta komið við því sjálfsagða eftirlitshlutverki sem alþm. eiga að hafa með þessum málum og öðrum, ekki síst í þessum málaflokki þar sem við erum loksins og ekki seinna vænna vonandi að ganga inn í nýja tíð, við erum að reyna að semja okkur að háttum annarra vestrænna þjóða í þessum fjölmiðlunarmálum og ná upp slaka sem er orðinn allt of gamall og allt of stór og ekki vansalaust að svo verði áfram.

Hér með læt ég lokið þessari ræðu minni. Hún hefur fjallað um þetta samband stjórnmála og stjórnunarfyrirkomulags í útvarpsmálum. Ég mun síðar, við 3. umr., víkja að öðrum hlutum, eins og boðveitum, reglum til að hamla gegn einokun, til að hamla gegn því að þessar upplýsingauppsprettur, sem fjölmiðlunarfyrirtækin eru, safnist á of fáar hendur.