14.03.1985
Sameinað þing: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3590 í B-deild Alþingistíðinda. (2926)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. komst svo að orði um málshefjanda að auðheyrt væri að þar talaði maður sem ekki væri í ríkisstj. Það var rétt hjá hæstv. forsrh. Hitt er verra, að það var ekki annað að heyra en að hæstv. ráðh., forsrh. vor, talaði eins og maður sem ekki væri í ríkisstj. Og kannske er eitthvað til í því. Hvað hafði hæstv. ráðh. til málanna að leggja? Jú, hann lýsti vandanum: Spurningin er hversu mikla launahækkun væri rétt að kennarar fengju í sinn hlut. Í annan stað væri vandasamt að meta til fjár. til launa þær auknu kröfur sem matsskýrsla menntmrn. leiðir í ljós að gerðar hafa verið til kennara á undanförnum árum. Og í þriðja lagi væri spurningin hvernig ætti að meta þann kjaramun sem orðinn er á störfum manna í opinberri þjónustu Ég raunverulegum markaðslaunum. — Þetta er alveg laukrétt hjá hæstv. ráðh. Þetta er vandinn. Hvernig á að meta til launa auknar kröfur og hvernig á að brúa bilið milli annars vegar hins opinbera kerfis, þar sem menn greiða skatta og gjöld af launum sínum, og svo hins vegar þeirra markaðslauna sem borguð eru í neðanjarðarhagkerfinu? Þetta er alveg laukrétt. En þessi vandi varð ekki til í gær. Hann varð ekki til í fyrradag. Hann varð meira að segja ekki til í tíð núv. ríkisstj. þegar þeir settust á ráðherrastóla hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og menntmrh. Hann á sér lengri sögu. Kjör kennara hafa verið að rýrna á lengri tíma þó keyrt hafi um þverbak í tíð núv. hæstv. ríkisstj.

„Ég man vel þá tíð er það þótti gott embætti að vera menntaskólakennari. Ef launa átti afreksmenn á ýmsum sviðum var þeim boðið upp á laun menntaskólakennara og þótti það vel boðið. Mér er tjáð að um tíma hafi þingfararkaup verið miðað við þessa virðulegu stöðu.“

Herra forseti. Þetta er tilvitnun í blaðagrein eftir Ólaf Oddsson, sem er kennari í íslenskum fræðum við elsta menntasetur Evrópu, þ.e. Lærða skólann í Reykjavík.

Ólafur Oddsson vitnar í listaskáldið góða sem segir í bréfi til Konráðs Gíslasonar 15. mars 1844:

„Við höfum báðir álitið sóma vorn og heiður hingað til að kenna ungum Íslendingum [ ... ] og ég vildi heldur geta orðið góður kennari við góðan skóla á Íslandi en allt annað.“

Þingfararkaupið er núna eitthvað um 60 þús. kr. Kaup menntaskólakennara fyrir skyldutíma er 23–24 þús. kr. Gengi íslenskrar krónu er nú fallið niður á sama stig og 1972. Þá hafði menntaskólakennari í laun fyrir starf sitt um 40 þús. kr. Hann hefur núna 23–24 þús. kr. Þetta er kjararýrnun.

Og það er ekki nóg að lýsa vandanum. Það geta menn úti í bæ gert. Það getur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gert. Og það geta allir sæmilega upplýstir blaðalesendur gert. En hvað segja þeir sem með valdið fara? — Málið er erfitt, málið er tímafrekt og málið fer í dóm. — En á meðan eru skólar lokaðir. Það er ósköp einfaldlega svo komið að það er búið að misbjóða því hugsjónafólki, sem leggur sig hvað mest fram í starfi í skólum, svo lengi að kennarar hafa margir hverjir tekið þá ákvörðun að segja upp störfum sínum og fara þangað sem þekking þeirra og reynsla er betur metin. Hver eru markaðslaun fyrir þekkingu? Hvað kostar þekkingin? Hver vill meta hana til peninga?

Árið 1978 kom til mín að Menntaskólanum á Ísafirði ungur eðlisfræðingur. Það er einhver besti starfskraftur sem ég hef nokkurn tíma haft í starfi þar sem ég hef haft mannaforráð. Hann var þarna í þrjú eða fjögur ár og flutti sig síðan um set og starfar nú við einn af fjölbrautaskólunum í Reykjavík. Hann hafði frumkvæði að því af Íslands hálfu að koma á svokallaðri eðlisfræðikeppni í skóla. Hann er viðurkenndur, annálaður afbragðskennari. Hann hefur farið á námskeið á hverju einasta sumri. Hann vinnur dag og nótt að hugsjón í fræðum sínum. Undir starfi manna eins og hans og hans líka er það komið hvort okkur tekst að drífa ekki bara Framsóknarflokkinn heldur þjóðina inn í framtíðina. Þessi maður hefur nú sagt upp starfi sínu og mun ekki hverfa að því aftur vegna þess að honum eru boðin 70–80 þús. kr. laun á mánuði þar sem þekking hans kemur að notum hjá litlu fyrirtæki í Reykjavík í einkageiranum. Og hver skyldi lá honum það? En þegar hann er hættur og hans líkar í skólakerfinu, þegar ekki fást lengur hæfir raungreinakennarar, stærðfræðikennarar eða aðrir kennarar í þeim fræðum þar sem við erum að tala um, eins og hv. þm. Guðmundur Einarsson ræddi um, alla hátæknina, vísindin, við tölum um að verja 500 millj. kr. til þess að reyna að beina okkur inn á þá braut, en ég tek eindregið undir með hv. þm. Guðmundi Einarssyni, hvar er þá fólkið sem á að vísa okkur leiðina?

Það er ekki nógu gott, af því að þetta mál er búið að vera svo lengi að gerjast, ástandið í skólunum hefur svo lengi farið versnandi, að segja: Nú er kominn Kjaradómur og hann leysir málið. Það er rétt sem hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði: Hvar er stefna ríkisstj., ekki bara í skólamálum, málefnum vísinda, vísindastefnu, þróunarstefnu, atvinnuvega o.s.frv.? Svarið er ósköp einfalt. Sú stefna finnst ekki. Framtíðarsýnin er engin. Þegar svo er komið að ríkisvaldið er svo nánasarlegur atvinnurekandi að því helst ekki á góðu fólki og hefur ekki skilning á nauðsyn þess að manna skólana með góðu fólki, þá er ekki von á góðu.

Ég óttast það ekki að kennarar verði á flæðiskeri staddir. Það vill svo til að þeir munu allir eiga þess kost að taka upp miklu betur launuð störf þar sem þekking þeirra og starfshæfni verður metin til launa. Það vill bara svo til að það er íslenska ríkið sem telur sig ekki hafa efni á því að greiða þeim laun sem nægja til framfærslu fjölskyldu. Spurningin er síðan: Eru til peningar til þess að greiða þeim laun? Höfum við efni á því að greiða góðum kennurum góð laun? Við gætum eins orðað þessa spurningu á annan veg: Höfum við efni á því að greiða þeim ekki almennileg laun?

Þeir sem eru kunnugir ríkisbúskapnum geta spurt sjálfa sig einnar spurningar. Halda menn að það þurfi að leggja á nýja skatta eða halda menn að til séu þeir liðir í fjárlögum ríkisins þar sem auðvelt er að sýna fram á að peningum er illa varið, þar sem mætti flytja þá til til annarra og þarfari hluta, m.a. til þess að greiða góðum kennurum góð laun? Það er ekki mikið vandamál að benda á þá liði. M.ö.o., vandamálið er ekki það að ekki séu til peningar. Þar að auki mun það vera þumalfingursreglan hin fræga í fjmrn., af því að við erum að tala um opinbera starfsmenn og þeir greiða allir sinn hlut og ríflega það, þegar kemur að skattgreiðslum af litlum launum, það mun vera þumalfingursreglan að svona u.þ.b. 2/3 af kauphækkuninni muni innan tíðar skila sér í ríkissjóð aftur. Það heitir á hagfræðimáli að margfeldisáhrifin skili sér til hins opinbera, ekki bara í formi beinna og óbeinna skatta heldur líka í formi aukinnar neyslu.

Menn þurfa ekki að óttast það að þetta þjóðfélag fari á hvolf vegna verðbólgu þó að ríkisvaldið settist niður í alvöru og reyndi að móta sér stefnu um það hvernig það ætlar að brúa bilið milli hins opinbera geira og markaðskerfisins og hvað það vill á sig leggja og hvað það vill greiða til þess að skólunum haldist á hæfum kennurum.

Það á að gera strangar kröfur til kennara og það á að gera strangar kröfur til skóla. En það á líka um leið að borga markaðslaun fyrir störf hæfra kennara. Við höfum ekki efni á öðru.