18.03.1985
Neðri deild: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3624 í B-deild Alþingistíðinda. (2949)

Varamenn taka þingsæti

Forseti (Ingvar Gíslason):

Mér hafa borist hér þrjú bréf og les ég hið fyrsta þeirra:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og get því ekki sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður Framsfl. í Vestfjarðakjördæmi, Magnús Reynir Guðmundsson, bæjarritari á Ísafirði, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.“ Þetta undirritar Ólafur Þ. Þórðarson, 5. þm. Vestf.

Þá hefur einnig borist bréf, undirritað af Svavari Gestssyni 3. þm. Reykv., samhljóða að mestu því bréfi sem ég var að lesa, en þar segir síðan:

„Óska þess, að 1. varamaður Alþb. í Reykjavík, Ólafur Ragnar Grímsson, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni í dag.“

Svo kemur þriðja bréfið, sem einnig er samhljóða hinum fyrri að öllu meginefni, og það er undirskrifað af Ólafi G. Einarssyni, formanni þingflokks Sjálfstfl., um það að Pétur Sigurðsson sé á förum til útlanda í opinberum erindum og óskar þess að 1. varamaður Sjálfstfl. í Reykjavík, Geir Hallgrímsson utanrrh., taki sæti á Alþingi í fjarveru sinni á meðan.

Þannig stendur á um alla þessa menn að þeir hafa setið á þingi á þessu kjörtímabili. Þarf því ekki að kanna kjörbréf þeirra og munu þeir komnir hér til þingfundar. Óska ég þeim velfarnaðar í störfum á þingi.