19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3645 í B-deild Alþingistíðinda. (2994)

352. mál, breytingar á húsnæði fyrir hreyfihamlaða

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað þakka hv. 7. landsk. þm. fyrir að bera fram þessa fsp., þó að það sé vissulega ekki í fyrsta skipti sem þetta mál ber á góma hér. Ég held að ástæðulaust sé að lesa mikið yfir okkur um það sem gerst hefur síðan verulegur skriður komst á þessi mál í kringum 1980 og 1981. Það hefur sáralítið gerst. Það er auðvitað gjörsamlega óþolandi að það skuli líðast að hér sé byggð hver byggingin á fætur annarri án þess að nokkuð sé hirt um aðgengi fatlaðra. Ég get ekki tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að það eigi virkilega að vera nauðsynlegt að ferlinefnd hafi afskipti af húsateikningum. Það er verkefni byggingarnefnda að sjá til þess að þessi mál séu í lagi.

Við vitum öll að það er svo til ógerlegt fyrir fatlað fólk, hvernig sem þeirri fötlun er varið, að hreyfa sig í þessu landi. Og ég vil leggja á það áherslu að það er ákaflega mikill misskilningur að ræða það sem afmarkað mál hinna fötluðu. Sannleikurinn er sá að betra og manneskjulegra umhverfi fyrir fatlaða er betra og manneskjulegra umhverfi fyrir okkur öll. Ég vil að þessu gefna tilefni minna hæstv. ráðh. á að starfsmaður hans, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson fulltrúi í félmrn., sagði einmitt í sjónvarpsviðtali nýlega að þessi mál væru í sorglegum ólestri. Ég held að það verði að ganga eftir því að úr þessu verði bætt.

Einn liður í því er t. d. sá að ég hef lagt fram á þingi í vetur till., sem er eitt af fyrstu þingmálum yfirstandandi þings, um að opinberum stofnunum, atvinnufyrirtækjum og öðrum slíkum, hvort sem er í einkaeign eða opinberri eign, sé gert að ganga frá lóðum sínum áður en gerð er úttekt á húsinu, þ. e. að ekki fáist úftekt gerð á húsinu fyrr en gengið hefur verið frá lóð. Mér er kunnugt um að félmn. undir forustu hv. þm. Friðriks Sophussonar hefur sofið á þessu í allan vetur. Nú hafa borist umsagnir þeirra örfáu aðila sem fengu þetta til umsagnar. Þær eru að sjálfsögðu neikvæðar. Að sjálfsögðu tíma atvinnurekendur og kannske ekki hið íslenska ríki heldur að eyða ofurlitlum peningum, sem getur margborgað sig þegar til lengri tíma er litið, í það að ganga sómasamlega frá lóðum sínum. En þess vegna er ég að tala um þetta hér að þetta er einn liður í aðgengi fatlaðra. Því betur sem gengið er frá umhverfi hússins því aðgengilegra er það auðvitað okkur öllum og þá ekki síst fötluðum. Ég vildi aðeins leggja þetta inn í umræðuna og mælast til þess að hv. formaður nefndarinnar og aðrir nm. sinni þessu máli sem er ekki lítill liður í því sem hér er verið að tala um.