24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

30. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum í þetta frv., sem hér liggur fyrir, því þannig vill til að ég sit bæði í hv. fjh.- og viðskn. sem varaformaður og er formaður félmn. deildarinnar. Málið kemur því til minna kasta á öðru stigi. Ég svara ekki spurningum frá hv. síðasta ræðumanni, en tel mér þó skylt að leiðrétta það sem kom fram í máli hans og varðar félagsdóm.

Þannig er að BSRB stefndi, fyrir hönd Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, Reykjavíkurborg fyrir að greiða ekki út laun. Ástæðan fyrir því að BSRB gerði það ekki í sínu nafni er einfaldlega sú, að kveðið er á um það í lögum frá 1954 að borga skuli ríkisstarfsmönnum út fyrir fram, en slík ákvæði eru ekki til í lögum um bæjarstarfsmenn eða borgarstarfsmenn, heldur byggir það á kjarasamningi og félagsdómur tekur aðeins slík atriði til meðferðar. Um þetta var ágreiningur milli lögmanna, eins og fram hefur komið, hvort félagsdómur ætti með þetta mál að fara. Úrskurður félagsdóms var á þá leið að hafna frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar, en kveða upp efnisdóm í málinu. Þetta segi ég til að það komist til skila sem rétt er í því máli.

Hitt er svo annað mál, að það er alveg hárrétt, sem bent var á og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að þetta tekur sinn tíma. Staðan í málinu er sú nú að farið er fram á að fá upp efnisdóm í þessu máli, en nú þegar hafa allir starfsmenn Reykjavíkurborgar fengið greidd laun því í nokkra daga komu þeir til vinnu aftur og verkfallinu var frestað þannig að sá efnisdómur hefur í raun og veru ekki þýðingu að sinni nema fordæmisgildi.

Málið er því æðiflókið þegar það er skoðað með tilliti til allra þátta málsins.

Það sem ég vil segja um það frv. sem hér er til umr. og er góðra gjalda vert er að það hlýtur að þurfa að skoða fleiri ákvæði laganna en þetta eina, þ.e. 26. gr., og er eðlilegt að sú n. sem fær þetta til meðferðar geri það. Þetta hafa aðrir hv. þm. bent á í sínum ræðum. Ég vil þó benda á að í grg. með frv., sem lagt var fram á þingi þegar þessi lög voru sett, kemur í ljós að þetta frv. byggir á samningi. Um 26. gr. laganna segir svo, með leyfi forseta, í grg.:

„Hér er gert ráð fyrir að verkfallsrétti verði þau takmörk sett að öryggi og heilsu fólks verði ekki stefnt í hættu. Upptalning á þeim störfum,. sem hér um ræðir, getur ekki orðið tæmandi og er því sérstakri nefnd falið að ákveða hvaða störf þurfi að vinna og skipta vinnuskyldu á einstaklinga innan viðkomandi starfshópa.“

Þetta er reyndar öll grg. með 26. gr. laga um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem verið er að gera tillögu um breytingu á. M.ö.o.: það var alltaf ráð fyrir því gert að kjaradeilunefnd túlkaði lögin rúmt og ég held að það hafi ekki nokkrum manni dottið í hug annað. Ég býst við því að það hafi verið forsenda þess að fallist var á verkfallsrétt á sínum tíma að kjaradeilunefnd hefði endanlegt úrskurðarvald í þessum efnum og þarf að vinna hratt og vel. Ég hef nú eins og hv. þm. Friðjón Þórðarson setið í kjaradeilunefnd að nafninu til. Sem betur fer stóð þannig á þegar ég sat í nefndinni að aldrei urðu verkföll þannig að ég lenti ekki í þeim ósköpum að þurfa að vera úrskurðaraðili. Mér skilst að þeir séu daga og nætur að úrskurða. Ég hef því ekki reynslu af starfi nefndarinnar sem slíkur, en ég held að það fari ekki milli mála að alltaf hafi verið gert ráð fyrir því að um rúma túlkun var að ræða og þetta væri endanlegur úrskurður. Það var raunar forsenda þess að um þennan víðtæka verkfallsrétt yrði að ræða.

Þá kem ég að því sem ég held að skipti máli fyrir þessa umr., en það er að mér sýnist hreinlegast að leysa þetta mál, sem er vissulega erfitt viðureignar, með því að löggjafinn taki af skarið um það með miklu ákveðnari hætti en gert er í lögunum hverjir eigi að vinna þrátt fyrir verkfall. Reyndar er upptalning í lögunum í nokkrum liðum. Ég tel hins vegar einsýnt að hjúkrunarstéttir og löggæslumenn, jafnvel tollgæslumenn allir, alveg eins og Landhelgisgæslan, eigi að vinna í verkfalli eða m.ö.o. að missa sinn verkfallsrétt. Þetta er mín persónulega skoðun einfaldlega vegna þess að þessir aðilar vinna alltaf í verkföllum og það er enginn ágreiningur um það í sjálfu sér. Það er hins vegar afar óeðlilegt að þessir hópar geti tekið þátt í atkvæðagreiðslu um sáttaboð sáttanefndar, sem skylt er að leggja fram þegar búið er að boða til verkfalls, því þessir hópar geta útlátalaust sent aðra í verkfall. Það er jafnframt óeðlilegt að þeir hafi atkvæðisrétt í þessum málum þegar hugsað er út frá þessu sjónarmiði.

Með þessu er verið að viðurkenna staðreyndir. Það hefur engin nefnt það í þessari umr. né heldur nokkurs staðar annars staðar að hjúkrunarfólk og löggæslumenn eigi ekki að starfa í verkfalli. Þá er miklu betra að þetta fólk hafi ekki verkfallsrétt eins og t.d. Bandalag háskólamanna og fjöldamargir aðrir opinberir starfsmenn, eins og tilgreint er í þessum lögum. Ég er ansi hræddur um að í verkalýðsfélögum væri ástandið harla skrítið ef við vissum það fyrir fram, t.d. í verkfalli Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, að þriðjungur færi aldrei í verkfall, en væri alltaf á launum, allt verkfallið á nýjum launum — takið eftir: á nýjum launum — og hefði fullan atkvæðisrétt um það að geta sent alla hina í verkfall og láta þá berjast fyrir kjörunum. Ég nefni þetta vegna þess að ég tel ósköp eðlilegt að það hefur komið upp ágreiningur um kjaradeilunefnd. Löggjafinn á auðvitað að höggva á þennan hnút, eins og hann getur. Eitt skynsamlegasta ráðið sem ég sé er að viðurkenna staðreyndir sem allir eru sammála um. Eftir sem áður geta þessir aðilar haft samningsrétt eða þá hlotið að gegna kjaradómi, eins og margir aðrir gera. Mér sýnist að sú leið hafi ekki verið óheppilegri fyrir þá, a.m.k. launalega séð, sem þurfa að hlíta kjaradómi. A.m.k. hefur ásókn verið harla mikil undanfarin ár í það að komast í náðarfaðm kjaradóms, eins og við þekkjum a.m.k. sem sitjum í hv. fjh.- og viðskn. Nd. (SvG: Grunsamlegur áhugi.) Það er grunsamlegur áhugi. Ég tek undir orð hv. 3. þm. Reykv.

Að lokum vil ég nefna eitt atriði til viðbótar sem ég held að skipti máli fyrst verið er að ræða um hvernig eigi að breyta þessum lögum. Það er ákvæði 21. gr. laganna þar sem segir, með leyfi forseta:

„Hafi verkfall verið boðað skal sáttanefnd leggja fram sáttatillögu um aðalkjarasamninga a.m.k. fimm sólarhringum áður en verkfall skal hefjast“ o.s.frv.

Það er skylda sáttasemjara og þeirra manna sem hann kallar til sáttanefndarinnar að leggja fram sáttatillögu sé búið að boða verkfall. M.ö.o.: til þess að knýja fram sáttatillögu er auðvitað boðað verkfall. Í þessu verkfalli, sem nú er yfirstandandi, gerðist það að málinu var vísað til sáttasemjara og það var ósk BSRB að málið gengi til sáttasemjara áður en fjmrh. fékk þær kröfur í sínar hendur. Daginn áður var farið til sáttasemjara og hann beðinn að taka málið að sér. Síðan þróuðust mál þannig að það var boðað verkfall. Sáttasemjari hann skal samkv. lögunum leggja fram sáttatillögu hversu vitlaust sem það kann að vera á þeim tíma, og er ég þá ekki að dæma þetta verkfall sérstaklega, heldur eingöngu að benda á að það er eðlilegt fyrir forustumenn BSRB sem vilja auðvitað fá fram sáttatillögu, að knýja hana fram og eina leiðin til að gera það er að boða verkfall og hleypa þar með skriðunni af stað. Í þessu, sem ég sagði nú, felst engin áfellisdómur gagnvart einum eða neinum, heldur er ég aðeins að benda á að lögin, eins og þau eru orðuð, leiða til þess að við hljótum, ef mikið ber á milli, að þurfa ætíð að semja í verkfalli. Það er skaðlegt fyrir alla þjóðina. Undir það hafa allir tekið, líka forustumenn þeirra sem eru í verkfalli, að það á að reyna að koma í veg fyrir verkfall. En þetta ákvæði gerir það að verkum að verkföll verða nánast ekki umflúin.

Ég bendi á þetta atriði vegna þess að verið er að ræða um ýmis ákvæði í þessum lögum. Ég tel, þar sem ég hef nú trú á því að samningar takist í þessari kjaradeilu innan tíðar, að Alþingi eigi að taka sér tíma í vetur og kanna með hverjum hætti hægt er að skýra þessi lög betur, þannig að þær leikreglur, sem gildi um verkföll, verði ákveðnari og skýrari og leiði ekki til óþarfa árekstra. Ég er tilbúinn til þess fyrir mitt leyti að taka þátt í þeirri vinnu, hvort sem hún verður á vegum hv. félmn. eða hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar.