20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3703 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

98. mál, sóknargjöld

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt innlegg í þessa umr. Það er ekki hægt að neita því að mér þótti undarlegt að hlýða hér á hæstv. fjmrh. og athugasemdir þær sem hann kom með við þetta frv. Ég tek það að sjálfsögðu fram að það er fyllilega réttmætt að hæstv. ráðh. hafi sína eigin skoðanir á þessu máli og flytji þær okkur þdm. og segi frá því sem honum liggur á hjarta varðandi afgreiðslu þessa máls. En ég fékk ekki skýringu á því hjá hæstv. ráðh. hvort hann var hér að lesa upp eitthvert bréf frá sínum embættismönnum sem hann faldi skylt að við fengjum að hlýða á eða hvort hann var að gera þessar athugasemdir að sínum till. hér.

Nú er hæstv. fjmrh. ekki hér viðstaddur en ég held að þessari umr. eigi ekki að ljúka fyrr en við vitum um það hvort þessi eðlilegi hlutur sé staðreynd, þ. e. hvort hæstv. fjmrh. hafi tekið athugasemdir sinna manna til greina sem sínar og komið þeim hér á framfæri sem slíkum eða hafi óskað eftir því við sína embættismenn að þeir gerðu athugun á þessu sérstaka frv. þó seint hafi verið í rassinn gripið hjá hæstv. ráðh. og hafi viljað koma þeim hér á framfæri til þess m. a. að ýmisleg tæknileg atriði væru í lagi, eins og manni skildist að sumu leyti að væri ástæðan.

Hins vegar fór ekki á milli mála að hæstv. ráðh. var að flytja í þessum athugasemdum boðskap um aukna vægð við skattborgarana eins og honum er vitanlega manna best lagið að óska eftir. Nú sé ég að hæstv. ráðh. er kominn í salinn og ég beini spurningu minni til hans. Þær athugasemdir, sem hann las hér áðan frá einhverjum embættismönnum, einhverjum mönnum í fjmrn., eru þetta skoðanir hæstv. ráðh., sem hann er að koma á framfæri við deildina, eða eru þetta bara athugasemdir sem hann vill að menn hlýði á hér og taki þá auðvitað minna mark á en ella ef hæstv. ráðh. ætlar að gera þær að sínum? Það finnst mér hins vegar undarlegt ef það er vegna þess að hæstv. ráðh. hefur annan og miklu nærtækari vettvang til að koma þessum athugasemdum á framfæri, þ. e. í hæstv. ríkisstj. þegar þetta mál hefur verið þar til umfjöllunar og lagt þar fram. Mér kemur þetta sem sagt mjög á óvart. En öllu máli skiptir auðvitað þó það, og þá skal ég fyllilega hlýða á erkibiskups boðskap, ef þetta eru skoðanir hæstv. ráðh. Í framhaldi af því muni hann við 3. umr. bera fram beinar till. um breytingar á þessu frv. skv. þeim athugasemdum, veigamiklu að mörgu leyti, sem hann kom hér fram með í ræðustól áðan. Þetta mun væntanlega upplýsast hér á eftir og væri gott að fá um það svör.

Það ber að fagna víðtækri samstöðu um meginefni þessa frv., m. a. um breytinguna á innheimtu sóknargjalda. Ég hef fjallað um þetta mál á öðrum vettvangi, reyndar tvívegis í samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar, bæði þeirri fyrri óformlegu nefnd sem var að störfum hér um tíma og eins í þeirri nefnd sem nú starfar. Ég lýsti þar yfir stuðningi við meginstefnu um aflagningu ákveðins nefskatts en í staðinn yrði tekin prósentutala af úfsvarsstofni eins og 2. gr. gerir ráð fyrir. Ég taldi sömuleiðis eðlilegt að á þessu væri hlaup eins og er í 2. gr., þ. e. að 0.2% gætu gilt sums staðar þar sem það nægði en annars staðar yrði hámark að gilda, 0.4%. Ég man það að alla tíð hefur af hálfu kirkjunnar manna verið lögð áhersla á þennan sveigjanleika og möguleika til mismunandi álagningar miðað við þörf einstakra safnaða og þau verkefni sem fyrir lægju á hverjum tíma.

Þessi breyting minnir mig að nokkru á aðra breytingu sem gerð var fyrir nokkuð löngu síðan, þ. e. varðandi kirkjugarðsgjöldin þegar þau voru ákveðin svo sem nú er og olli býsna mikilli tekjuaukningu sem varð til þess, a. m. k. á þeim stöðum þar sem ég þekki, að víða varð gerbreyting varðandi alla umhirðu og frágang á kirkjugörðum. Það var greinilega til góðs að breyta þar til frá því fyrirkomulagi sem áður hafði verið. Ég hef líka allar götur síðan talið sóknargjald álagt með þessum hætti, sem hér er greint frá í frv., eðlilegri og skynsamlegri leið en nefskattsleiðina.

Varðandi 3. gr. frv. held ég að við ættum að staldra örlítið við hana, þá grein sem hér er helst til umr. Ég vil upplýsa það hér að það var margítrekað af hálfu kirkjunnar manna, sem höfðu vitanlega áhuga fyrir þessu frv. og lögðu það fyrir samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar, að þetta tvöföldunarákvæði, sem þar er alveg sér í lagi á hærri prósentuna, þ. e. úr 0.4% upp í 0.8%, yrði ekki notað nema í undantekningartilfellum. Það var mjög skýrt orðað af hálfu kirkjunnar manna að farið yrði mjög varlega með þetta og aðeins gert þar sem sérstaklega stæði á.

Ég lýsti yfir, bæði í fyrri samstarfsnefndinni og eins á seinni fundum, nokkrum efasemdum um þetta hlaup, þessa sérstöku hækkun umfram það hlaup sem þegar var komið í 2. greinina. Ég benti m. a. á hvort 50% álag gæti ekki nægt í slíkum tilfellum, sérstaklega varðandi hærri prósentuna.

Ég efast ekkert um að safnaðarfundir mun fara býsna varlega í slíka aukaskattheimtu og beita henni ekki nema brýn þörf sé á. Enda þarf til þess samþykki kirkjumrh. í ofanálag svo af verði. Ég bendi hins vegar á að það er engin trygging fyrir því að alltaf verði svo varlega að málum staðið. Ég viðurkenni að hin almenna heimild í 3. gr. gefur möguleika á 200% hækkun frá lágmarki og það er vitanlega ansi ríflegt, 400% kannske ef maður miðar við það allra lægsta. Þá er komið býsna mikið hlaup á þetta.

Í 8. gr. frv. er reyndar reiknað með jöfnunargjaldi af svipaðri gerð, að vísu til annarra verkefna en þeirra sem hv. 3. þm. Norðurl. v. leggur til í sinni brtt., þ. e. að héraðsfundum sé heimilt að ákveða að allt að 5% af innheimtum sóknargjöldum skuli renna í sérstakan sjóð. Þar er það héraðsfundur, fulltrúar einstakra safnaða sem koma saman á héraðsfundum, sem má ákveða að 5% af innheimtum sóknargjöldum renni í sérstakan sjóð í vörslu héraðsprófasts til ýmissa sameiginlegra kirkjulegra verkefna. Ég er mjög eindreginn stuðningsmaður þessa ákvæðis. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að tortryggja ákvæðið um 10% jöfnunargjaldið sem færi til þeirra kirkna sem erfiðast eiga eða þeirra safnaða sem erfiðast eiga með að halda uppi kirkjum sínum vegna þess að mér er alveg ljóst að þetta ákvæði verður notað. Ég fullyrði það t. d. í sambandi við þær framkvæmdir sem hafa átt sér stað á Austurlandi varðandi æskulýðsstarf og uppbyggingu á Eiðum að þessi heimild verður notuð þar, veit það reyndar að þessi 5% muni verða notuð. Enda veitir ekki af þeim og sjálfsagt líka að gera það til að hlúa að því mikilvæga starfi sem þar er unnið.

Ég sá að þessi jöfnunarsjóðstillaga, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. leggur hér til, ætti í langflestum tilfellum að ná þessu marki. Ekki síst í ljósi þess að kirkjunnar menn hafa lagt á það áherslu að það væri aðeins í sérstökum undantekningartilfellum sem þyrfti að grípa til ákvæða 3. gr. um tvöföldunarákvæðið og ég býst við að það sé nokkuð rétt hjá þeim. Ekki síst í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram í rækilegu máli hv. 4. þm. Vestf. hér áðan um tekjuöflun skv. gömlu lögunum og skv. þessu frv.

Ég gæti hins vegar vel hugsað mér og ætla að skoða það til 3. umr. þessa máls hvort í undantekningartilfellum mætti ekki hugsa sér 50% álag skv. 3. gr. á sóknargjöldin þar sem alveg sérstaklega stæði á, enda væri ákvæði um það býsna mikið hert. Ég hef hins vegar ekki gert mér nægilega vel grein fyrir því hvort vandi allra safnaða í þessu efni er leystur með jöfnunarsjóðstill. Ég held að hún geri það í langflestum tilfellum. En ástand kirkna er t. d. svo mismunandi að það er trúlega engin leið að setja fullkomið jöfnunarmerki þar við. Ef þessum sjóði er hins vegar ætlað það hlutverk sem reiknað er með og honum skipt nokkuð réttlátlega til þeirra aðila, sem mest þurfa á að halda, þá er hér vissulega um leið að ræða sem ég vil skoða. En til vara mundi ég leggja til að þessu tvöföldunarákvæði væri breytt í 50% álag á 0.2–0.4% sóknargjald eins og það er í 2. gr.