12.10.1984
Sameinað þing: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni í gærkvöld eða um miðnæturleytið að ég átti nokkur orðaskipti við hæstv. menntmrh. um þá stefnu ríkisstj., sem virðist nú raunar ekki vera stefna allrar ríkisstj., að hafa engin samskipti við verkfallsnefnd Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um framkvæmd þessa verkfalls. Nú kom það í ljós að hæstv. iðnrh. hafði leitað til verkfallsnefndar BSRB um heimild fyrir álviðræðunefnd til að fara úr landi. Síðan sagði hæstv. menntmrh. yfir salinn svo að ýmsir heyrðu að hæstv. iðnrh. hefði skipt um skoðun. Nú vildi ég gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort það sé afdráttarlaus stefna ríkisstj. að leita ekkert til verkfallsnefndar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Ég tel nauðsynlegt, vegna þess sem fram hefur komið í málinu og vegna þess að ljóst er að hæstv. iðnrh. leitaði til verkfallsnefndar BSRB, að það komi fram hér á hinu háa Alþingi hver sé stefna ríkisstj. að því er þetta mál varðar. Það virðist nefnilega svo sem ríkisstj. hafi, eða einstakir ráðherrar með tilskipunum til sinna stofnana, sett eins konar verkbann á opinbera starfsmenn.

Ég vildi enn fremur að gefnu tilefni beina annarri spurningu til hæstv. forsrh. Hann gerði í gær grein fyrir vissum hugmyndum er hann hefði um hugsanlega lausn þessarar kjaradeilu. Hann nefndi þar ýmsar prósentutölur og ég leyfi mér að segja að hugmyndir hans eru áreiðanlega mikillar umræðu virði, en hins vegar heyrðist mér ekki að hæstv. fjmrh. hefði sömu hugmyndir um að leysa þennan mikla vanda. Þess vegna spyr ég hæstv. forsrh.: Eru þeir þarna á öndverðum meiði, hann og hæstv. fjmrh., að því er varðar lausn þessarar deilu? Gott væri að fá nánari útlistun á því. Ég mælist sem sagt til þess að hæstv. forsrh. svari þessum tveimur spurningum mínum á eftir í umr.

Mig langar að víkja aðeins að því þegar hv. þm. Halldór Blöndal kallaði fram í í gær og vík ég þá að hinum svokölluðu kapalkerfum sem hafa verið starfrækt. Hann kvartaði undan því að ég hefði ekki gert aths. við þá starfsemi. Ég benti honum á að ég hefði gert það margsinnis í útvarpsráði. Ég hef raunar gert það einnig á hinu háa Alþingi. Með leyfi forseta ætla ég að vitna til umr., sem fóru hér fram 2. nóv. árið 1981, þar sem ég sagði, með leyfi forseta:

„Það er umhugsunarefni að notkun þessa efnis“ — þá á ég við myndbandaefni — „færist svo í vöxt sem raun ber vitni. Og vissulega er ástæða til að hafa áhyggjur af því t.d., þegar borgarráð Reykjavíkur veitir með samþykkt atbeina sinn til lögbrota, sem beinast gegn Ríkisútvarpinu, án þess að nokkur maður hreyfi hönd né fót, legg né lið til að spyrna gegn því. Það segir enginn neitt. Hæstv. menntmrh. segir ekki orð, hans háa ráðuneyti segir ekki eitt einasta orð og Ríkisútvarpið segir ekki eitt einasta orð. Þegar svona er komið, lög eru fótum troðin og rétt kjörnar stjórnsýslustofnanir höfuðborgarinnar veita atbeina sinn til lögbrota og enginn segir neitt, þá er vissulega ástæða til að staldra við og hugsa: Hvert erum við að stefna?“

Það voru fleiri hv. þm. sem gerðu þetta að umtalsefni. Hv. þm. Haraldur Ólafsson sagði, með leyfi forseta:

„Ég tek eindregið undir með hv. 5. þm. Vesturl., að það er furðulegt að verða vitni að því á þessum vikum, að hver einasti aðili, sem málið snertir, skuli þegja og ekki lyfta fingri þó lögbrot séu framin, að borgarstjórnin og bæjarstjórnir skuli aðstoða og beinlínis ýta undir þessi lögbrot. Þá eigum við frekar að breyta lögunum. Af hverju er ekki gengið fram fyrir skjöldu í því efni? Af hverju í ósköpunum eigum við að horfa upp á það, að lög séu einskis virt? Eiga þau bara að vera í gildi og síðan hver og einn að ganga yfir þau eins og honum sýnist og allir bara klappa saman lófunum af ánægju? Ef þetta er frelsi, þá vil ég biðja um einokun ríkisfjölmiðla.“

Þessi mál hefur því borið á góma hér á hinu háa Alþingi og menn hafa haft mjög eindregnar skoðanir á þessu. Þetta var í tíð ríkisstjórnar undir forsæti hluta Sjálfstfl. og menntamálin voru þá í höndum Framsfl., en dómsmálin í höndum Sjálfstfl. En það var ekkert gert í málinu þrátt fyrir þessar alvarlegu ábendingar.

Ég skal ekki tala mjög lengi, herra forseti, en það eru nokkur atriði sem ég átti eftir í gærkvöldi í ræðu minni. Varðandi starfsemi þessara ólöglegu útvarpsstöðva í heild langar mig til að biðja menn um að hugleiða það mál undir öfugum formerkjum, ef svo má segja. Hvað halda menn að hefði skeð ef starfsmenn Þjóðviljans hefðu sett upp útvarpsstöð og byrjað að útvarpa með sama hætti og starfsfólk DV gerði? Hvað halda menn að hefði gerst ef í húsakynnum Alþb. hefði verið miðuð út ólögleg útvarpsstöð? Mér er sem ég sæi framan í ýmsa hv. þm. og hæstv. ráðh. Sjálfstfl. undir slíkum kringumstæðum. Og svo er hér talað um að allir eigi að vera jafnir fyrir lögunum og að það séu ekki allir jafnir fyrir lögunum.

Mér hafa fundist viðbrögð kerfisins í öllu þessu máli vera óskaplega hæg og ég átti satt að segja von á því að hæstv. dómsmrh. tæki á þessu máli af meiri festu og gerði sitt. Nú er að vísu búið að loka þessum stöðvum tveimur, en sagt er að sú þriðja hafi tekið til starfa í Reykjavík í gær. Auðvitað ber að bregðast við henni með nákvæmlega sama hætti. Ég hef ekki sönnur fyrir þessu, en þetta kom fram á fundi útvarpsráðs núna í hádeginu.

Í gær flutti formaður Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteinn Pálsson, ræðu hér og ég verð að segja það með fullri virðingu fyrir þeim hv. þm. að sú ræða kom mér í veigamiklum atriðum á óvart. Ég hef hér útskrift þingritara úr þessari ræðu. Hv. þm. segir þar, með leyfi forseta:

„Það hefur ekki verið úr því skorið hvort þessi einokun“ — þ.e. Ríkisútvarpsins —„stenst þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem tryggja mönnum rétt til prentfrelsis.“

Það má rétt vera. Ég minnist þess ekki að af hálfu forráðamanna Sjálfstfl. hafi verið bornar brigður á að þau útvarpslög, sem hafa verið hér í gildi langa lengi, væru í samræmi við stjórnarskrá. En gott og vel. Það er þá sjálfsagt að úr því verði skorið. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Menn geta auðvitað haft mörg orð um hvort starfsemi af þessu tagi sé lögleg eða ólögleg og að sönnu er það svo, að lög bjóða að Ríkisútvarpið hafi einkarétt á útsendingum.“

„Að sönnu er það svo.“ Lög mæla svo fyrir um í þessu landi. Um það ætti enginn að þurfa að velkjast neitt í vafa.

Og ég verð enn að vitna til ræðu hv. þm. Hann segir í beinu framhaldi:

„Í Póllandi er það líka svo, að lög bjóða að það skuli bara vera eitt verkalýðsfélag, en menn hafa fundið aðra réttlætiskennd. Menn hafa fundið æðra lögmál og víðast hvar á Vesturlöndum standa menn með því að menn þar í landi hafi rétt til þess að stofna frjáls verkalýðsfélög.“

Hér á landi ríkir félagafrelsi skv. stjórnarskrá. Satt best að segja var ég hissa þegar ég heyrði formann Sjálfstfl. líkja ástandinu hér á landi við það ástand sem ríkir í Póllandi. Ég ætla ekki að ganga svo langt að gera því skóna að hann hafi verið að líkja hæstv. forsrh. við Jaruzelsky, en það var allavega verið að bera þetta tvennt saman, sem er ákaflega óeðlilegt að ekki sé meira sagt. Sem betur fer búum við við annað stjórnarfar en er í Póllandi. — Og menn hafa fundið æðra lögmál. Þetta er athyglisverð setning. Og nú ætla ég aftur máli mínu til stuðnings að vitna í Land og lýðveldi, greina- og ræðusafn dr. Bjarna Benediktssonar, fyrrv. formanns Sjálfstfl., orð sem hann sagði í ræðu árið 1955:

„Þeir, sem unna frelsinu, verða að muna, að formlegt frelsi er ekki nóg. Þeim ber að hjálpast að til að gera hverjum og einum mögulegt að njóta lífsins og frelsisins og leita hamingjunnar eftir eigin vild innan ramma laganna“, sagði dr. Bjarni Benediktsson.

Þá var önnur tíð þegar hann var formaður Sjálfstfl. Það er annar sjálfstfl. sem við erum að fjalla um hér í dag en þá starfaði á Íslandi. Nú dugar það ef menn finna æðra lögmál. Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni. Mig langar líka til að víkja að öðru. Ég rakti hér nokkuð afskipti frammámanna Sjálfstfl., framkvæmdastjóra flokksins Kjartans Gunnarssonar, borgarstjórans í Reykjavík Davíðs Oddssonar og Alberts Guðmundssonar, hæstv. póst- og símamálaráðh. þá, eins og þau koma fram í skýrslu Radíóeftirlitsins um heimsóknina í Valhöll, hús Sjálfstfl., þar sem rekin var ólögleg útvarpsstöð.

Menn hafa talað um „aðför“ lögreglunnar í þessu sambandi. Voru lögreglan og Radíóeftirlitið að óska eftir að gera húsleit í Valhöll? Nei. Voru þeir að óska eftir að skoða spjaldskrár Sjálfstfl. sem áreiðanlega geta verið fróðlegar fyrir þá sem hafa áhuga á slíku? Nei. Þeir voru að biðja um að fá að fara upp á þak hússins og horfa þar á loftnet og leiðslur. Þessu var neitað. Þetta er kjarnaatriði í þessu máli. Það var ekki verið að biðja um neina húsrannsókn. Það var verið að biðja um að fá að fara upp á þak og skoða loftnet. Og hvers vegna var því neitað? Það er athyglisverð spurning. Því var auðvitað neitað vegna þess að þarna var rekin ólögleg útvarpsstöð sem síðan var flutt burt. Þetta er vitað. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir.

Ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. Þorstein Pálsson, formann Sjálfstfl., hins nýja Sjálfstfl.: Var hann samþykkur þessum aðgerðum framkvæmdastjóra flokksins og afskiptum borgarstjórans í Reykjavík og póst- og símamálaráðherra af þessu máli? Þarna voru eftirlitsmenn á ferð í opinberum erindagerðum, í fullu samræmi við ákvæði fjarskiptalaga. Það var verið að rannsaka meint lögbrot. Það var búið að miða út ólöglega útvarpsstöð í þessu húsi. Réttum löggæslumönnum var meinað að kanna málið af hálfu stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar. Það var ekki verið að biðja um húsleitarheimild. Það var ekki verið að biðja um að fara í skrifborðsskúffur eða skápa. Það var verið að biðja um að fá að fara upp á þak og horfa á loftnet og leiðslur. Þetta skulu menn hafa í huga vegna þess að þetta hefur verið kallað aðför lögreglu og ýmislegt þvíumlíkt, en það var auðvitað ekki um neitt slíkt að ræða.

Ég verð að segja það með fullri virðingu fyrir hv. þm. Þorsteini Pálssyni, formanni Sjálfstfl., stærsta stjórnmálaflokksins hér á landi, að stundum finnst mér, þegar hann flytur sínar ræður hér, skýrt og skilmerkilega eins og hann gerir, eins og enn þá sé framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins að tala. Hins vegar neita ég því ekki að stundum þegar ég hlusta á Magnús Gunnarsson, núverandi framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, þegar hann talar af ábyrgð og skilningi um lausn vandamálanna, finnst mér eins og formaður Sjálfstfl. sé að flytja ræðu.

Ég gat þess í ræðu minni í gær, herra forseti, að nokkrum orðum langaði mig til að víkja til hv. þm. Ellerts B. Schram, sem þá var ekki hér í þingsölum, hafði áður bundið sig öðrum verkefnum og menn höfðu ekki almennt búist við kvöldfundi. Það var að mörgu leyti ákaflega merkileg ræða sem hv. þm., frjáls og óháður, Ellert B. Schram flutti hér í gær. Mér fannst fyrri hluti ræðu hans ákaflega góður og ég get tekið undir mjög margt af því sem þar kom fram. En seinni hlutinn þótti mér miður góður. Hann tók þá fram, okkur hv. þm. til upplýsingar, að hann hefði ekki sagt sig úr Sjálfstfl. eða sagt sig úr þingflokknum. Ekki enn, bætti hann við. Það er kannske ekki mitt mál, en svolítið vefst það fyrir mér hvernig menn geta verið óháðir í þingflokki. Ég held að það hljóti að vera álíka erfitt og að geyma kökuna sína og borða hana líka. Ég sé ekki hvernig þetta tvennt getur farið saman. En það er auðvitað mál þeirra sjálfstæðismanna og ég skal ekki fjölyrða frekar um það.

Ég er sammála hv. þm. Ellert B. Schram um að við eigum að auka frelsið á sviði útvarpsrekstrar. En við eigum að gera það „innan ramma laganna“, svo að ég vitni aftur til orða dr. Bjarna Benediktssonar, og ef rammi laganna leyfir ekki þær breytingar sem við viljum koma fram eigum við að breyta lögunum. Við eigum ekki að taka lögin í okkar hendur með þeim hætti sem hann átti aðild að því að gera með rekstri útvarpsstöðvar Dagblaðsins.

Hann flutti í þetta útvarp mjög hjartnæma ræðu þegar verið var að loka því. Og hann sparaði þar ekki stóru orðin. Með leyfi forseta langar mig til þess að vitna lítillega í þá ræðu hér. Þarna voru löggæslumenn komnir á vettvang til þess að fylgja fram réttum íslenskum lögum. Hvað voru þeir kallaðir? „Varðhundar einokunarinnar og afturhaldsins og kerfiskarlarnir sem ósvífnir stjórnmálamenn hafa sigað á okkur.“ Þetta eru stór orð um löggæslumenn sem eru að framfylgja íslenskum lögum, hvort sem okkur líka þau lög eða ekki, það er allt annar handleggur. Þá skulum við breyta þeim hér á Alþingi ef okkur ekki geðjast að þeim. „Varðhundar einokunarinnar og varðhundar kerfisins.“ Það eru löggæslumennirnir.

Það er ýmislegt fleira sem hér mætti taka til. Hv. þm. sagði líka rétt áður en leikið var „Öxar við ána“ sem var leikið þarna á undan og eftir: „Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða.“ Með lögum skal land byggja. Hver tekur ekki undir það?

Ég ætla nú að hlífa hv. þm. Ellert B. Schram við því að fara nánar út í þessa ræðu. Ég held að það væri ástæða til. Það eru margir sem eiga hana, virðist vera, á segulbandi. Ég held að það væri ástæða fyrir hv. þm. að hlusta á hana og hugleiða hana.

En það er eitt atriði til viðbótar sem hér kom fram. „Við leitum stuðnings ykkar“, segir hér, með leyfi forseta. „Við ætlum að stofna útvarp þjóðarinnar, þjóðarútvarp í stað einokunarútvarps.“ Það var nú það. Ætla þeir hv. Dagblaðsmenn að setja upp útvarp sem nær til alls landsins? Ætta þeir að setja hér upp langbylgjustöð sem sendir um allt land, sem kostar kannske einhverja tugi milljóna? Það getur vel verið að þeir ætli sér það. Þeir hafa þá meira fjármagn undir höndum en ég átti von á og rekstur Dagblaðsins hefur gengið betur en menn áttu kannske von á líka. Eða ætla þeir að setja upp kerfi FM-stöðva um allt land? Á þetta að vera útvarp fyrir Hellissand og Haganesvík eða bara fyrir Reykjavíkursvæðið þar sem markaðurinn er? Og það er meginatriði þessa máls. Það eru ekki þjónustusjónarmið við fólkið sem ráða hér ferðinni, að mínum dómi. Þetta eru fjáraflamenn. Þeir ætla að græða peninga. Það verður útvarpað þar sem markaðurinn er. Það verður útvarpað á Reykjavíkursvæðinu og kannske í Eyjafirðinum og einhvers staðar víðar þar sem er markaður.

Það var mikið af auglýsingum flutt í þessum stöðvum þessa daga. Það var mikið af tónlist flutt. Það hefur komið fram að það voru engir samningar við þá gerðir sem eiga réttinn að þeirri tónlist. Og sjálfsagt verða hæstv. fjmrh. staðin skil á söluskatti af öllum þeim auglýsingum sem þarna voru fluttar eins og Ríkisútvarpinu er gert að gera. Ekki dreg ég í efa að þessir löghlýðnu menn munu gjalda keisaranum sitt. Ekki dettur mér í hug að draga það í efa. Það geta einhverjir aðrir gert.

Það er verið að skapa einhvers konar fár utan um þetta núna, svipað því þegar Dagblaðið fór fram á sínum tíma og muna sjálfsagt margir eftir því. Það eru nákvæmlega sömu einstaklingarnir sem standa að þessu. Dagblaðið hefur margt gott gert. Ekki skal ég draga úr því. En það er bara ekki frjálst og óháð eins og það segist vera. Við höfum séð það, hv. þm., og ég hef ekki neina nennu til að fara að rekja dæmi um það, hvernig það t.d. í upphafi ferils ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens studdi þá ríkisstj. leynt og ljóst. Þetta vita allir. Dagblaðið hefur ýmsa góða kosti og það er opnara en ýmis önnur blöð hér á landi. Það er virðingarvert. En það er hvorki frjálst né óháð. Það er bundið eigendum sínum og þeim sem leggja fjármagnið til alveg með sama hætti og önnur dagblöð. Og þetta er líka grundvallaratriði.

Svo sem ég sagði áðan, herra forseti, væri kannske ástæða til að ræða ýmislegt frekar úr þessari ræðu. Ég ætla ekki að gera það að sinni. Mín skoðun er sú að þarna hafi átt sér stað lögbrot og mér þykir það miður að einn af þm. á hinu háa Alþingi skuli hafa átt aðild að því. Mér þykja líka miður ýmis þau orð sem hann lét falla um alþm. í gærkvöld. Ég held að þau hafi verið ómakleg. Það er að vísu ljóst að hans blað, sem hann hefur ritstýrt, hefur markvisst fylgt þeirri stefnu að gera lítið úr þeim mönnum sem sitja á Alþingi, að hér væru dusilmenni ein og druslur — kannske ekki alveg með þessum orðum. Þetta var líka tónninn í ræðu hans í gær, að hér sætu menn einangraðir í fílabeinsturni og hefðu misst allt jarðsamband, hefðu ekki samband við fólkið. Þetta er mjög harður áfellisdómur um þingið. Og ég held að hann sé ekki maklegur. Hér eru margir einstaklingar, 60 talsins, og auðvitað misjafnir, eins og gengur og gerist þegar tekið er 60 manna úrtak. En ég leyfi mér að fullyrða að hvorki hugur þeirra manna sem hér starfa eða staða eða tengslaleysi við kjósendur er með þeim hætti sem hv. þm. Ellert B. Schram lýsti hér í gær og ég mótmæli þessum lýsingum hans. Ég tel þær rangar og ég tel það líka hættulegt og varhugavert að vinna markvisst að því að koma því inn hjá þjóðinni að hér á Alþingi sitji undirmálsmenn einir. Hér er ekkert betra fólk en gengur og gerist í íslensku mannfélagi. En það er heldur ekkert verra fólk hér en gengur og gerist.

Ég hef átt Alþingi að vinnustað undanfarin sex ár og ég get ekki annað en borið þeim einstaklingum, sem ég hef kynnst hér, vel söguna, sama hvar í flokki þeir hafa staðið. Það skiptir ekki máli í hinum mannlegu samskiptum þó að það virðist kannske, þegar menn tala úr þessum ræðustól, vera meginatriði máls hér á þinginu. En svo er ekki. Og ég fullyrði að samband þm. við kjósendur er með öðrum hætti en hv. þm. lýsti því. Hann hefur auðvitað fullan rétt til að halda fram sínum skoðunum eins og ég nú mínum skoðunum, en ég er honum algerlega ósammála. En það breytir ekki því að við getum verið persónulega jafngóðir kunningjar eftir sem áður. Það er með öllu óskylt mál.

Ég verð líka að segja, herra forseti, að það kom mér svolítið á óvart í gær, það hefur verið frá því greint í fréttum, að þessi hv. þm. ásamt félögum sínum, sem stóðu að rekstri útvarpsstöðvar DV, hefur kært starfsmenn Ríkisútvarpsins fyrir að brjóta lög og bent á ákveðna grein hegningarlaga. Allt gott um það. Þeir hafa auðvitað þann rétt. En mér finnst heldur óviðkunnanlegt af hv. þm. sem einum ákæranda að gera það mál að sérstöku umtalsefni úr ræðustól á Alþingi. Mér finnst það heldur óviðkunnanlegt, en það hefur hver sinn smekk um það.

Ég ætla nú ekki, herra forseti, að lengja mál mitt öllu frekar, en það sem upp úr stendur í þessari deilu og af atburðum undanfarinna daga hygg ég að kristallist í þeim ummælum dr. Bjarna heitins Benediktssonar sem ég vitnaði til og lýkur með orðunum „innan ramma laganna“. Ef við í þessu þjóðfélagi komum okkur ekki saman um að starfa og vinna innan ramma laganna erum við illa sett. Við skulum koma okkur saman um að breyta lögunum þegar við unum þeim ekki og gera það með réttum hætti.

Það er annað sem hefur kristallast líka þessa dagana og það er hvernig Sjálfstfl. hefur verið að breytast og hvernig frjálshyggjumennirnir yst á hægri jaðri stjórnmálanna hafa þar nú náð undirtökum, ýmsum hófsamari og reyndari stjórnmálamönnum í flokknum til mikillar hrellingar að því er mér virðist. Þarna hafa orðið vatnaskil í íslenskri pólitík og þetta hefur orðið til að þjappa launafólki enn þá þéttar saman í þeirri baráttu sem nú stendur yfir en sem vonandi þarf ekki að standa mjög lengi úr þessu vegna þess að við höfum ekki ráð á því sem þjóð að svo fari lengur fram sem nú er. Það er ekki aðeins að þessi deila við opinbera starfsmenn, verkfall þeirra, hafi lamað þjóðlífið. Sjávarúrvegurinn er á vonarvöl og það eru erfiðleikar í hverju sjávarþorpinu á fætur öðru. Sveitarfélögin í sjávarþorpunum eiga í erfiðleikum vegna þess að útgerðarfélögin geta ekki staðið við skuldbindingar sínar af því að þau eiga í erfiðleikum. Þannig eru keðjuverkanir fljótar að koma í ljós í okkar litla þjóðfélagi. Mér sýnist að hugmyndir hæstv. fjmrh., eins og hann reifaði sínar hugmyndir hér í gær, séu ekki mjög vænlegar til að ná fram þeim sáttum sem þjóðin þarf í þessu máli. Þess vegna hvet ég hæstv. forsrh. til að taka forsjá málsins í sínar hendur, eftir því sem hann getur, og freista þess að ná fram friði og lausn málsins, m.a. með tilliti til þeirra hugmynda sem hann reifaði í sinni ræðu í gær.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.