28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3939 í B-deild Alþingistíðinda. (3282)

358. mál, þjóðgarður við Gullfoss og Geysi

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 571 ásamt tveimur öðrum hv. þm., Jóhönnu Sigurðardóttur og Sighvati Björgvinssyni, leyft mér að flytja till. til þál. um þjóðgarð við Gullfoss og Geysi. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefja nú þegar undirbúning að stofnun þjóðgarðs umhverfis Gullfoss og Geysi. Jafnframt verði hafin vinna við heildarskipulag svæðisins og undirbúin kaup á þeim landspildum þar, sem ekki eru þegar í eigu ríkisins.

Frv. til l. um þjóðgarð við Gullfoss og Geysi verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Ég veit ekki, herra forseti, hvort þess gerist þörf að hafa um þetta mál mjög mörg orð úr ræðustóli. Sú var tíðin að hér var aðeins einn þjóðgarður. Þeim hefur fjölgað, svo og friðlöndum og griðlöndum, eftir því sem menn hafa öðlast aukinn skilning á mikilvægi ekki aðeins náttúruverndar heldur mikilvægi samvista mannfólksins við náttúru landsins og nauðsyn þess að vernda sérstæða staði og gera þá þannig úr garði að fólk geti notið þess sem náttúran þar býður.

Fáir staðir á þessu landi eru jafnvíðkunnir, ekki aðeins meðal Íslendinga sjálfra heldur og meðal allra þeirra erlendu gesta sem þetta land sækja heim, og Gullfoss og Geysir. Þessir staðir eru raunar þekktir um víða veröld og ég held að allir sem hafa heimsótt Gullfoss og Geysi geri sér grein fyrir nauðsyn þess að þar þarf, eins og nú háttar til og staðreyndir gefa til kynna, að skipuleggja móttöku ferðafólks á staði sem þessa. Slíkt er brýn nauðsyn, ekki aðeins ferðafólkinu til þæginda, aukins skilnings og til þess að geta notið staðanna betur, heldur ekki síður staðanna sjálfra vegna. Með því að stofna þjóðgarð á þessu svæði og skipuleggja betur móttöku ferðamanna er m. a. hægt að skapa störf í þessari grein heimamönnum til handa. Ferðafólki þarf að standa þarna til boða þjónusta af ýmsu tagi, veitinga- og gistiþjónusta og leiðsögn í skoðunarferðum svo að nokkuð sé nefnt.

Ég ætla ekki að halda hér neinn landafræðifyrirlestur, en nálægð þessara staða hvors við annan er sú, að það er eðlilegt að Gullfoss og Geysir ættu heima í einum og sama þjóðgarði og að heildarskipulag ferðamannaþjónustu fyrir þetta svæði sé aðeins á öðrum staðnum og ætluð þeim sem heimsækja staðina báða, enda gera menn það jafnan og staðirnir jafnan nefndir í sömu andrá. Það gefur auga leið að það er ekki vandalaust að skipuleggja þjónustu af þessu tagi í jafnviðkvæmu umhverfi og þarna er um að ræða.

Ég legg áherslu á að stofnun þjóðgarðs á þessu svæði þarf að undirbúa vel og vandlega í samvinnu við alla þá aðila sem þarna eiga hlut að máli og þeir eru býsna margir. Það eru auðvitað sveitarstjórn, landeigendur, Náttúruverndarráð, Skógrækt ríkisins og e. t. v. fleiri. Flm. till. telja nauðsynlegt að undirbúningur að þessu hefjist sem fyrst þannig að leggja megi frv. um þetta efni fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Ég vona, herra forseti, að þessari till. verði vel tekið. Hún felur það eitt í sér að gerðar verði ráðstafanir til að vernda enn frekar en gert er nú einhverjar dýrustu perlur íslenskrar náttúru og tryggja þannig að óbornar kynslóðir og Íslendingar um ókomin ár megi njóta þeirra kannske enn þá betur og við enn þá betri kjör og aðstæður en við getum núna. Það er tilgangurinn með flutningi þessarar till. sem ég vona sannarlega að verði vel tekið og fái skjóta afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi.