28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3981 í B-deild Alþingistíðinda. (3310)

392. mál, réttarstaða heimavinnandi fólks

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem síðustu tveir ræðumenn hafa sagt, að sú framsöguræða sem hv. þm. Maríanna Friðjónsdóttir flutti hér áðan var með öðru sniði en heyrist venjulega úr þessum ræðustól þar sem Alþfl.-menn tala og ber að gleðjast yfir þeirri breytingu á tóntegund. Ég vona að það heyrist oftar úr þeirra röðum en hingað til.

Mörg af þeim atriðum sem hv. þm. hefur sett hér í grg. eru þess eðlis að ekki er hægt annað en að taka undir það þó að annað þurfi e. t. v. betri athugunar við og sé ekki eins einfalt í sniðum eins hv, þm. vildi vera láta.

Ég hygg að á undanförnum 18 árum, sem ég er búinn að sitja hér, hafi menn úr öllum stjórnmálaflokkum komið inn á þessi atriði þó að ekki hafi verið samstaða um það í þinginu að taka á þessu máli. Ég held ég muni það rétt að flutt hafi verið till. um breytingar og lagfæringar á þessum málum. Ég gæti rakið það en vil ekki gera það nú við þessa umræðu vegna þess að það þjónar ekki svo miklum tilgangi. Það er ekki svo mannmargt hér í sölum Alþingis að það hafi neina þýðingu.

Hér kemur fram einhvers staðar í þessu að við heimavinnandi fólk sem kemur út á vinnumarkaðinn sé vangert í launum. En við vitum hvaða öld við erum að færast inn í, öld aukinnar tækni, öld þess að menn þurfa að endurmennta sig með nokkurra ára millibili ef þeir eiga að vera gjaldgengir á vinnumarkaði. Þarna er komið að mjög miklum vanda. Nú er orðið algengt, ef háskólamaður á háum launum fer á námskeið til að endurmennta sig eða auka við menntun sína, að vinnuveitandinn borgi fyrir hann námskeiðsgjaldið og hann er á fullum launum. Ef láglaunafólkið aftur á móti fer í slíka endurmenntun mun það ekki vera nema í fáum tilvikum sem það heldur kaupi og í mjög fáum tilvikum er borgaður fyrir það sá kostnaður sem af slíkri menntun leiðir. Þessi mál þarf því öll að skoða frá grunni.

Í sambandi við lífeyrisréttindi lít ég svo á, a. m. k. varðandi mitt heimili, að það séu jafnt hagsmunir minnar konu og mínir hvaða réttindi hún hefur. Hvernig sem sagt hið opinbera býr að heimilinu, hvort sem það er að mér eða henni, það skiptir ekki máli. Og það hefur verið tekið upp t. d. hjá okkur bændum að lífeyrisréttindunum er skipt á milli okkar og okkar eiginkvenna þannig að þær hafa þar jafnan rétt á við sína bændur. Þær hafa líka félagsleg réttindi í búnaðarfélögunum alveg til jafns við bændur. Þær geta gengið inn í slík félagsmál og hafa full réttindi ef þær vilja svo við hafa.

Ég ætla ekki hér og nú að rekja hvað t. d. við framsóknarmenn höfum lagt til í þessu efni á því árabili sem ég hef verið hér, en ég get gert það hvenær sem er. Það má kannske segja að það sé táknrænt fyrir gang mála hvernig jafnmikið réttindamál og fæðingarorlofið hefur verið meðhöndlað. Á undanförnum 10 árum sem fæðingarorlof hefur verið greitt svona almennt séð til þeirra sem eru á vinnumarkaðinum hefur engin leið verið önnur en að taka þetta í litlum skrefum. Það var barist í upphafi fyrir því að þetta gilti um allar konur eins. Það hafðist ekki fram. Það voru gefnar yfirlýsingar um að það skyldi athugað hvernig ætti að koma þessu fyrir. Ég hef ekki trú á því að aðstæður hafi breyst á þann veg að slíkt þýði að reyna öðruvísi en í smáum skrefum. Það er þess vegna sem t. d. tveir framsóknarmenn komu með frv. um að taka slíkt skref í sambandi við þessi mál. Ekki veit ég enn hvort það næst á þessu þingi. Ég segi þetta ekki til þess að vera að rifja upp hver okkar hlutur er í þessari baráttu heldur tek ég þetta sem dæmi um hver þróunin hefur verið og hver aðstaðan er til að koma málum, sem eru mikil réttlætismál, fram.

Ég mun styðja heils hugar að þessi till. verði samþykkt. Einnig er ég sammála síðasta ræðumanni um að það verði afskaplega erfitt að meta hvers virði heimilisstörfin eru. Í sjálfu sér lít ég svo á að heimilisstörfin séu mál þeirra sem í hlut eiga. T. d. ef ég tek litlu eininguna mína, við áttum saman sex börn og það er auðvitað okkar mál hvernig við högum okkar heimilishaldi, hvort það er konan eða hvort það er ég sem vinn þau verk. Við erum að mínu mati eitt í þessu efni. Hitt er svo allt annað mál þegar t. d. annað fellur frá eða heimilið tvístrast. Það er vandamálið miklu frekar.

Ég er því miður sannfærður um að þetta verður að ganga þannig fyrir sig að taka skrefin smá. Sum atriði sem hér er fjallað um og ég ætla ekki að fara að telja upp eru þess eðlis að það er auðvitað hróplegt óréttlæti, eins og t. d. með sjúkradagpeningana og fleira sem maður veltir fyrir sér þegar maður lítur á þetta. Ég verð nú oft var við misrétti í sambandi við það fólk sem kemur til mín til þess að ræða sín vandamál. Og maður skilur eiginlega ekkert í því hvernig svona getur skeð og verið við lýði ár eftir ár. En þið sem eruð stutt búin að vera hér, vitið þið hvenær tekjutryggingin var tekin upp fyrst? Það er ekki langt síðan, það eru 14 ár. Og það var ekki fyrr en viðreisn leið undir lok að það gerðist.

Ég sé ekki ástæðu til að standa hér lengur í ræðustól. Ég fagna því að reynt sé að berjast fyrir þessum réttindamálum en menn verða að vera raunsæir og þolinmóðir í slíkri baráttu og menn verða að átta sig á því að jafnréttið þarf að skoða frá ýmsum hliðum. Það er ekki svo einfalt að það sé alltaf á einn veginn. En því miður er það of oft.