01.04.1985
Neðri deild: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4012 í B-deild Alþingistíðinda. (3337)

210. mál, selveiðar við Ísland

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til laga um selveiðar, 210. mál. Frv. þetta er undirbúið af nefnd sem skipuð var í ágústmánuði árið 1982 og er í megindráttum samhljóða till. þeirrar nefndar nema hvað varðar 3. gr. frv. þar sem gert var ráð fyrir að ráðh. skipaði fimm manna nefnd sem leitað yrði till. hjá um reglur um það er varðar selveiðar.

Það virðast allir vera sammála um nauðsyn þess að setja lög um selveiðar við Ísland. Til þessa hefur verið stuðst við mjög takmörkuð ákvæði um selveiðar, m. a. í lax- og silungsveiðilögum. Hér er um mjög viðkvæmt vandamál að fást, vandamál sem ekki verður hægt að hlaupast frá að afgreiða nú á þessu þingi.

Í 1. gr. frv. er gerð tillaga um breytingar á yfirstjórn þessara mála. Í gildandi lögum eru selveiðar ekki felldar undir ákveðið rn. Hins vegar hefur landbrn. farið með mál er varða veiðar í ám og vötnum og önnur veiðimál er eigi ber undir annað rn. Hér er sem sagt kveðið á um að selveiðar falli undir sjútvrn.

Í 2. gr. er sagt að Hafrannsóknastofnunin annist rannsóknir á sel við Ísland. Hafrannsóknastofnunin hefur annast að nokkru rannsóknir á þessu sviði og stefnt er að því að auka þær rannsóknir. Í seinni hluta greinarinnar segir að sé aðilum utan Hafrannsóknastofnunarinnar falið tiltekið rannsóknarverkefni verði Hafrannsóknastofnuninni gert kleift að fylgjast með því hvernig að slíkum rannsóknum sé staðið og hverjar séu niðurstöður þeirra. Þetta er gert vegna þess að utan Hafrannsóknastofnunarinnar gætu verið sérfræðingar sem æskilegt þætti að fá til ákveðinna rannsókna á þessu sviði.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson flytur brtt. við frv. á þskj. 653 og leggur til orðalagsbreytingu við 2. gr. frv. um að á eftir orðunum „gert kleift að fylgjast með“ komi: áætlunum, undirbúningi o. s. frv. Meiri hl. n. sá ekki ástæðu til að taka þetta inn, orðalag 2. gr. væri fullkomlega skýrt eins og það er í frv.

3. gr. frv. er sú grein sem menn hafa hvað mest rætt um. Hv. þm. Guðmundur Einarsson gerði það að tillögu sinni á þskj. 653 að í stað samráðs verði nefnd sett á laggirnar til að aðstoða sjútvrn. við framkvæmd þessara laga.

Í 3. gr. frv. segir: „Sjútvrn. skal hafa samráð við eftirtalda aðila um stjórn og skipulagningu selveiða eftir því sem við á hverju sinni: Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnunina, Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands.“

Það að samráð skuli haft við aðila, sem í frv. er gert ráð fyrir, verður að teljast ofureðlilegt; Náttúruverndarráð m. a. vegna hugsanlegra áhrifa á lífríki og umhverfi og að gætt verði fyllstu náttúruverndar- og vísindasjónarmiða við veiðarnar. Sjálfsagt verður einnig að teljast að leita samráðs við Hafrannsóknastofnunina, sbr. það sem segir í 2. gr. frv. Búnaðarfélag Íslands er einnig tilnefnt sem samráðsaðili. Það er eðlilegt ef litið er til baka svo og vegna þeirra hlunninda sem landeigendur hafa haft af selveiðum. Fiskifélag Íslands er í þessu tilfelli sjálfsagður og mjög eðlilegur umsagnaraðili.

Meiri hl. sjútvn. sá ekki ástæðu til að breyta 2. gr. frá því sem hún er í frv., en þar segir:

„Að leita álits og umsagnar sérfræðinga eða skipaðra fulltrúa þessara aðila varðandi skipulag, stjórnun og meiri háttar ákvarðanir varðandi selveiðar. Færi þetta eftir eðli málsins hverju sinni til hvers væri leitað.“

Um aðrar greinar frv. var ekki skoðanamunur í sjútvn. Í nál. á þskj. 649 segir:

„Nefndin hefur athugað frv. á fundum sínum og leitað umsagna um málið. Frv. um sama efni var til umfjöllunar í sjútvn. á síðasta þingi. Þann 16. maí 1984 afgreiddi sjútvn. málið á sama hátt og nú. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.“

Undir þetta nál. rita hv. þm. Stefán Guðmundsson, Garðar Sigurðsson, Ingvar Gíslason, Gunnar G. Schram og Halldór Blöndal.