02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4042 í B-deild Alþingistíðinda. (3354)

Afgreiðsla þingmála

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að stinga mér inn í umr. út af þingsköpum. Til þess að ekki fari á milli mála hvers vegna það er, þá er það til þess að kvarta yfir framkomu ráðh. við þingnefndir og gerði ég þetta vegna þess að viðkomandi ráðh. var hér í salnum rétt áðan og gengur nú inn í salinn, en þar er um að ræða hæstv. heilbrrh.

Þann 18. október var tekið fyrir mál í Sþ. um kerfisbundna leit að brjóstakrabbameini hjá konum. Því máli var vísað til nefndar þann 23. október. Það var tekið fyrir í nefndinni og sendar út beiðnir um umsagnir til nokkurra aðila, m. a. til heilbr.- og trmrn. Nefndinni barst svohljóðandi bréf frá rn., með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytinu hafa borist tvö bréf frá allshn. Sþ., dags. 20. nóv. s. l. Í öðru bréfinu óskar allshn. eftir umsögn rn. um þáltill. um kerfisbundna leit að brjóstakrabbameini hjá konum og í hinu bréfinu óskar allshn. eftir umsögn rn. um þáltill. um athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur.“

Þá kem ég að því atriði sem ég tel mjög ámælisvert í svari rn. og þá á ábyrgð ráðh.:

„Ráðh. hefur ákveðið, þar sem hann í umr. kemur skoðunum sínum og þar með rn. á þessum málum á framfæri, að ekki sé þörf á því að frekari umsögn rn. berist allshn. Sþ.“

Ég vil bera fram kvartanir mínar við hæstv. forseta og biðja hann að gera ráðh. grein fyrir stöðu hans gagnvart þingi og þingnefndum. Ráðh. er í starfi skv. okkar umboði en við ekki starfsfólk hans.

Ég verð að játa að mér varð nokkuð mikið niðri fyrir þegar ég sá þetta bréf. Þetta kann að virðast í sumra augum ekki mikilvægt mál, en þm. hafa náttúrlega enga aðstöðu til þess að fara yfir öll mál, sem þeim berast og þurfa umsagna við, í þingtíðindum og skoða umsagnir viðkomandi aðila þar. Ég bendi á að þm. hafa e. t. v. ekki verið á þeim þingfundi þar sem um málið var fjallað þannig að þeir hafi getað numið umsagnir ráðh. um málið, þegar hann tók til máls, og orð ráðh. eru náttúrlega ekki alltaf þess eðlis að þau verði ódauðleg. Ég vil því endurtaka það að ég bið hæstv. forseta að áminna ráðh. um stöðu hans gagnvart þingi og skyldu hans til þess að sinna því þegar nefndir biðja um umsagnir um mál, hvaða eðlis sem þau eru, og ekki hvað síst jafnmikilvæg mál og hér um ræðir.