02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4043 í B-deild Alþingistíðinda. (3355)

Afgreiðsla þingmála

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég var í hliðarherbergi að tala við tvo þm. út af ákveðnu máli og það er meira af tilviljun að ég birtist í gættinni þegar hv. 8. þm. Reykv. tók til máls. Mér skildist á orðum hans að hann væri að fara þess mjög ákveðið á leit við forseta Sþ. að hann gæfi mér sem ráðh. áminningu. Þarna eru alveg ný vinnubrögð tekin upp í þingi. Í fyrsta lagi, ef þm. ætla að beina máli sínu til ráðh. í utandagskrárumr., hefur hingað til verið venja að forseti hefur sagt viðkomandi þm. að hann yrði að hafa samband við ráðh. ef einhverju er beint til viðkomandi ráðh. Ég er búinn að vera lengur á þingi en hv. málshefjandi og ég veit ekki til þess að hægt sé að leggja það á rn. eða ráðh. að gefa umsagnir um mál eins og farið er að tíðkast á allra síðustu árum. Yfirleitt er leitað umsagna allra annarra aðila en rn. sjálfra. Ég ræddi þetta mál þegar það var hér til umr. í þingi og hv. þm. fær þingtíðindi, að ég tel, eins og allir aðrir þm. Hvaða þm. sem er getur fylgst með afgreiðslu mála og séð hverjar umr. eru. Ég tel mig ekki vera neinn starfsmann þessa hv. þm.; ef hann segir mér að ég skuli gera þetta eða hitt sé ég skítpliktugur að gera það. Ég mun ekki gera það nema mér sýnist.