10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4095 í B-deild Alþingistíðinda. (3408)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umfjöllunar er komið frá Nd. og afgreitt þaðan. Sjútvn. þessarar hv. deildar fjallaði um málið og varð sammála um að það yrði afgreitt án breytinga. Frv. þetta fjallar um breytingu vegna sérstaks kostnaðarhlutfalls útgerðar og er, má segja, afleiðing af samningum sem gerðir voru við sjómenn í vetur, nánast staðfesting á þeim.

Ég vildi þó benda á, án þess að brtt. sé um það gerð, að í III. kaflanum, um aðgerðir til lækkunar olíuverðs, hljóðar 2. mgr. 7. gr. svo, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði l. mgr. skulu bankar og innlánsstofnanir, sem versla með erlendan gjaldeyri, endurgreiða olíufélögunum frá og með 1. apríl 1985 45% af heildartekjum sínum vegna mismunar sölugengis og kaupgengis gjaldeyris vegna kaupa á gasolíu og svartolíu, en ríkissjóður fellir jafnframt niður 45% gjaldtöku af mismun sölu- og kaupgengis gjaldeyris og þóknun (provision) þeirri er bankarnir taka af félögunum fyrir þjónustu við yfirfærslu fjár til útlanda eða aðrar greiðslur erlendis vegna kaupa á framangreindum vörum.“

Um þetta er ekkert að segja annað en það að þarna eru bankarnir og ríkissjóður látnir taka á sig að endurgreiða ákveðinn hluta sem þeir hafa vegna þess mismunar sem er á kaup- og sölugengi gjaldeyris. En ég undirstrika og þyrfti það þá að koma frá viðskrn. eða fjmrn., sem ég er ekki alveg viss um, að þegar þetta verður framkvæmt verði skýrt ákveðið hvort um væri að ræða cif-verð eða fob-verð. Á því er verulegur munur. Það er nauðsynlegt að þetta komi greinilega fram vegna útreikninga þannig að ekkert fari á milli mála. Þetta þyrfti að vera á hreinu. Ég bendi eindregið á að ég held að öruggast væri að fara eftir cif-verði en ekki fob-verði í þessu efni.

Þetta er ekki brtt., heldur ábending vegna framkvæmda þessara laga.