10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4101 í B-deild Alþingistíðinda. (3420)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar afgreiðslu sem hér er í vændum vildi ég gjarnan gera grein fyrir minni afstöðu til þessa máls. Það hefur verið þannig að ég hef ekki haft aðstöðu til að taka þátt í umr. um málið né afgreiðslu þess í nefnd. Til þess að lýsa skoðunum mínum á því get ég tekið undir þann anda sem í þessu máli ríkir, þ. e. að stjórnun peningamagns með þeim aðferðum, sem beitt hefur verið undanfarin ár, tel ég ekki vera rétta leið til að ná fram efnahagslegum markmiðum.

Aftur á móti treysti ég mér ekki til að styðja þetta frv. vegna þess að ég tel að hér sé tekið á mjög einangruðum þætti í stjórn peningamála. Ég bendi á að í smíðum er löggjöf um bankastarfsemi hér á landi. Í farvatninu eru einnig hugmyndir eins og formanns Sjálfstfl. Þorsteins Pálssonar um að sameina banka. Þessi breyting ein skilar því ekki að mínum dómi þeim árangri sem skyldi í þessum málum öllum. Mér hefði verið kærara að sjá fullkominn aðskilnað milli Seðlabanka annars vegar og hinna svokölluðu ríkisbanka hins vegar, þ. e. að þar væri um algerlega óskyldar og óháðar stofnanir að ræða. Ég tel að það hefði verið miklu heppilegri leið til að ná þessu markmiði og ganga þá jafnvel þannig skrefinu lengra, að ef ekki næðist fram þessi aðskilnaður, þ. e. almenningseign á bönkunum og ríkisbankar yrðu gersamlega óháðir afskiptum löggjafarvaldsins, yrði rekstur þeirra algerlega á ábyrgð ráðh. á meðan Seðlabankinn heyrði undir Alþingi þar sem hann þjónar raunverulega einn slíkra stofnana markmiðum Alþingis í afskiptum af efnahagsmálum.

Til þess að gera langa sögu stutta ætla ég mér að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þetta mál. Ég er eins og ég segi samþykkur því í anda en get ekki stutt þetta mál eitt sér þar sem ég tel að það taki ekki nema á mjög litlum þætti þeirra vankanta sem almennt eru á efnahagsmálum hér á landi.