16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4200 í B-deild Alþingistíðinda. (3549)

357. mál, húsnæðissamvinnufélög og búseturéttaríbúðir

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég bið hv. síðasta ræðumann forláts á því ef ég hef ekki túlkað rétt hans ummæli hér. Ég hygg að ég hafi sagt að ég treysti mér ekki til að vera eins jákvæður í umsögn um svör ráðh. og hann var, en ætlaði að öðru leyti ekki að fullyrða neitt um ánægju eða óánægju hv. þm. með svörin.

Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að reynslan sannar að ekki er nóg, því miður, að hæstv. félmrh. komi hér upp og lýsi yfir eindregnum stuðningi allrar ríkisstj. við þetta eða hitt. Reynslan hefur sýnt okkur allt annað. Hér vantar t. d. varahúsnæðismálaráðherra, hv. þm. og skrifara Halldór Blöndal. Það hefur hvað eftir annað gerst að hann hefur komið upp í þennan virðulega ræðustól í kjölfarið á hæstv. félmrh. og talað þar um húsnæðismál annarri tungu en hæstv. félmrh. Það er tæplega hægt að taka fsp. um húsnæðismál á dagskrá nema hv. þrautavarahúsnæðismálaráðherra Halldór Blöndal sé hér viðstaddur. Það er varla gerlegt. Auk þess væri æskilegt að hafa hér hv. 1. þm. Suðurl. því að hann hefur stundum opnað munn um húsnæðismál hér og ekki alltaf verið alveg sammála hæstv. félmrh. Þessi afgreiðsla á fsp. er eiginlega ómark vegna þess að þessa ágætu hv. þm. vantar.