16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4208 í B-deild Alþingistíðinda. (3561)

360. mál, herskip og kjarorkuvopn

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. utanrrh. fyrirspurn er varðar meðferð kjarnorkuvopna og komu herskipa til landsins.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að það er margítrekað af hálfu þeirra sem með utanríkismál þjóðarinnar hafa farið á undanförnum árum að það sé opinber stefna að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn. Ég hef því spurt hvort sú stefna nái einnig til komu herskipa hingað í hafnir og siglinga þeirra um íslenska lögsögu.

Það er í það minnsta ljóst, hvað sem opinberri stefnu líður, að það er vilji íslensku þjóðarinnar að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn, a. m. k. yfirgnæfandi meiri hluta hennar, og hefur það komið fram í könnunum, t. a. m. í könnun Ólafs Harðarsonar. Það er einnig ljóst að okkur Íslendingum sem fiskveiðiþjóð stafar sérstök hætta af hugsanlegum óhöppum sem tengjast kjarnorku, hvort heldur það eru kjarnorkuvopn eða vegna kjarnorkuknúinna skipa. Má í því sambandi vitna í ágæta ræðustúfa hæstv. utanrrh. á erlendum vettvangi um þá ógn sem okkur gæti stafað af slíkum kjarnorkuóhöppum umhverfis landið.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og lögsögu þess og við eigum að setja um það sérstök lög og taka það einnig inn í stjórnarskrá lýðveldisins að hér skuli aldrei vera kjarnorkuvopn. Vonandi verður það gert innan tíðar, annað eða hvort tveggja, en á meðan svo er ekki — eða þangað til — teldi ég það skref í rétta átt að við tækjum af öll tvímæli um að við viljum ekki kjarnorkuvopn, hvorki hér á landinu né umhverfis það, í lofti eða á legi.

Ég hef því leyft mér, herra forseti, að spyrja hæstv. utanrrh. eftirfarandi spurninga:

„1. Taka yfirlýsingar utanrrh. um að kjarnorkuvopn séu ekki geymd hér á landi einnig til herskipa sem koma í hafnir hérlendis eða sigla um íslenska lögsögu?

2. Er utanrrh. reiðubúinn að beita sér fyrir því að banna siglingar herskipa um íslenska lögsögu og komur þeirra í hafnir hérlendis nema fullvíst sé að þau beri ekki kjarnorkuvopn?“

Þannig hljóðaði fsp. Ég vildi gjarnan mega bæta því við, ef hæstv. utanrrh. vildi þá svara því einnig, að ég teldi að það ætti einnig að taka af öll tvímæli um að kjarnorkuknúin skip heyrðu hér undir því að það má ljóst vera að af umferð þeirra einna sér, hvort sem þau eru búin kjarnorkuvopnum eða ekki, getur stafað hætta fyrir okkur. Ég vil taka það fram þegar í upphafi, áður en ég hlýði á svör utanrrh., að ég læt mér ekki nægja þær yfirlýsingar sem stundum heyrast um að það sé ástæðulaust að tortryggja þessa ágætu bandamenn okkar og við eigum einfaldlega að treysta því að þeir virði þá stefnu okkar Íslendinga að við viljum ekki hafa hér kjarnorkuvopn. Það þarf ekki að mínu mati að flokkast undir vantraust á nokkrum aðila þó að við tökum af öll tvímæli í þessum efnum og göngum þannig frá málum og bindum um hnúta að enginn vafi leiki á því að þessi vor stefna sé virt. Það tel ég að við eigum að gera ekki síst með tilliti til þeirra miklu öryggishagsmuna sem íslensk þjóð og afkoma hennar eiga undir því að engin óhöpp verði með kjarnorku á og í kringum landið.