16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4209 í B-deild Alþingistíðinda. (3563)

360. mál, herskip og kjarorkuvopn

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin og ég fagna þeim. Það er ánægjulegt að fá á þessum virðulega vettvangi staðfestingu á því að þessi stefna á að vera altæk og að á henni skuli engar undantekningar gerðar. Ég hygg að það sé mikilvægt í sambandi við þá viðleitni og þann vilja sem uppi er meðal þjóðarinnar og a. m. k. hluta þingheims að festa í lögum þessa stefnu og ganga jafnvel frá henni í stjórnarskrá. Það er ljóst að þau svör, sem hæstv. utanrrh. hefur hér gefið, greiða götu þess máls.

Ég skildi hæstv. utanrrh. svo sem það væri ótvírætt og undantekningarlaust að umferð herskipa með kjarnorkuvopn væri brot á þessari íslensku stjórnarstefnu. Ég tek það þá þannig að ef upp komi efasemdir um að þessi vor stefna sé virt muni íslensk stjórnvöld ganga úr skugga um að svo sé. Sé þessi skilningur réttur hjá mér er ég ánægður með þau svör sem hæstv. utanrrh. hefur gefið.