16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4211 í B-deild Alþingistíðinda. (3565)

381. mál, framkvæmdir á vegum bandaríska herliðsins á Íslandi

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. 1. fsp. hv. þm. vil ég svara á þá lund að í samræmi við það fyrirkomulag er gildir um ákvarðanir varðandi endurnýjun eða breytingar á tækjabúnaði varnarliðsins hef ég samþykkt orrustuflugvélaskipti og fjölgun flugvéla úr 12 í 18. Ég hef kynnt þessa fyrirhuguðu breytingu á ríkisstjórnarfundi þar sem andmælum var ekki hreyft og ég minni hv. þm. á að í skýrslu minni um utanríkismál, sem dagsett er í apríl 1984 og er orðin ársgömul, er ítarleg grein gerð fyrir þessari endurnýjun og breytingum á orrustuflugvélum varnarliðsins.

Þá er 2. fsp.: „Hefur ríkisstj. gefið heimild til að reisa fleiri sprengjuheld flugskýli á Keflavíkurflugvelli, til viðbótar þeim níu sem þar eru í byggingu, og hvenær var gefin heimild til að byggja skýli nr. 4–9?“

Í þessu sambandi er rétt að svara munnlegri fyrirspurn hv. þm., með hvaða hætti leyfi væru veitt fyrir framkvæmdum varnarliðsins og breytingum á búnaði þess. Það er skemmst frá að segja að utanrrh. hefur yfir höfuð gefið þessar heimildir, en kynnt þær í ríkisstj. og skv. venju, sem raunar var staðfest í tíð forvera míns, hefur þessari venju verið haldið áfram. Ég hef kostað kapps um að láta samráðherra mína og einkum og sér í lagi forsrh. fylgjast með öllum þessum málum og sömuleiðis hef ég gefið ítarlegar skýrslur um þessi efni í utanrmn. og í skýrslum mínum um utanríkismál, bæði í fyrra og nú hef ég leitast við að upplýsa hvað er að gerast í þessum efnum.

Varðandi sprengjuheld flugskýli, þá eru þau nú því miður kannske ekki sprengjuheld í þeim skilningi að þau þoli sprengjur ef sprengja lenti á þeim sjálfum, en þau eru styrkt flugskýli samkvæmt þeim stöðlum sem gilda um flugskýli er fjármögnuð eru af hálfu Atlantshafsbandalagsins. Heimild til byggingarframkvæmda við skýli nr. 4 og 9 var gefin í júnímánuði 1983 og varðandi skýli nr. 10 til 13 var heimildin gefin í nóvember s. l. Ég hygg að hvort tveggja hafi verið komið fram við árlega yfirferð utanrmn. um varnarliðsframkvæmdir á komandi ári, þ. e. varðandi 4 til 9 á haustfundum utanrmn. 1983 og varðandi 10 til 13 á haustfundum utanrmn. síðast, eða rétt um áramótin. Um það hef ég ekki gengið úr skugga, en tel að skv. venju hafi það átt sér stað. Ég vil ítreka og leggja áherslu á að ég hef enga tilhneigingu, síður en svo, að draga dul á fyrirætlanir um varnarliðsframkvæmdir. Ég tel að að sjálfsögðu sé rétt og skylt að greina frá þeim í utanrmn. og ég vil gjarnan að opin og hreinskilin umræða fari fram um þessi mál í þjóðfélaginu almennt.

3. fsp. var um heimildir til að byggja 2. og 3. áfanga olíubirgðastöðvar í Helguvík. Heimildir hafa verið veittar til 2. áfanga, sem er gerð hafnarmannvirkja eða löndunarmannvirkja í Helguvík, og 3. áfanga a, sem kallaður hefur verið, en það er 19 000 rúmmetra birgðarými. Þessar heimildir voru gefnar í nóvember s. l. Ég á von á því að framkvæmdir við löndunarmannvirkin hefjist aðeins að litlu leyti á yfirstandandi ári, en verði svo haldið áfram á næsta ári. Varðandi birgðarýmið er með þessum heimildum búið að veita leyfi til bygginga 49 000 rúmmetra rýmis.

Annars er í skýrslu minni um utanríkismál, sem nýlega hefur verið lögð fram, ítarleg grg. um byggingu olíubirgðastöðvar í Helguvík.

Í fjórða lagi er spurt: „Hafa ríkisstjórn Íslands eða utanrrn. borist einhverjar áætlanir, lýsingar, umleitanir eða erindi varðandi byggingu nýrrar stjórnstöðvar á Keflavíkurflugvelli?“

Svarið er að utanrrn. hefur fengið í hendur teikningar að stjórnstöðinni. Það er vitað að Bandaríkjamenn munu óska eftir því að bygging stjórnstöðvar verði tekin inn á framkvæmdaáætlun 1986, en fyrr mun ekki vera fjárveiting til þessarar framkvæmdar af hálfu Bandaríkjamanna eða Atlantshafsbandalagsins.

Þá er í fimmta lagi spurt: „Hafa ríkisstjórn Íslands eða utanrrn. borist einhverjar áætlanir, umleitanir eða erindi varðandi nýjar framkvæmdir við flugbrautir á Keflavíkurflugvelli?“

Svarið er neitandi. En ég vil bæta því við að í samræmi við samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um byggingu flugstöðvarbyggingar eru fyrirhugaðar framkvæmdir við gerð flugvallarvegar, flughlaðs og akstursbrauta flugvéla áður en nýja flugstöðvarbyggingin fyrir almenna flugumferð verður tekin í notkun árið 1987 og munu Bandaríkin greiða allan kostnað við þær framkvæmdir, en áætlun er um að þær framkvæmdir muni kosta tæplega 40 millj. dollara.

Þá gat hv. þm. um fyrirætlanir um byggingu svokallaðra OTH-ratsjárstöðva hér á landi. Það eru fréttir sem ég hef ekki fengið, þannig að svo virðist sem hv. þm. hafi betra og beinna samband vestur en ég hef ef rétt er hermt af hans hálfu.