16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4224 í B-deild Alþingistíðinda. (3577)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur nokkuð verið í umræðu að undanförnu hvort þær konur sem ynnu heima hefðu einhvern starfsaldur til að bera þegar þær færu út á hinn almenna vinnumarkað. Fleiri og fleiri réttsýnir aðilar hafa litið svo á að sá starfsaldur, sem þær hefðu aflað sér heima fyrir, kynni að koma að gagni þegar út á vinnumarkaðinn væri komið og að reynslan væri þar nokkurs virði. Hins vegar virðist það steinrunna sjónarmið vera hér til staðar að starfsaldur, sem menn afla sér í Borgarnesi, geti aldrei komið nemum manni að gagni fari hann að starfa í Reykjavík.

Ég veit ekki hvort sá vopnaburður, sem viðhafður er, er af heilindum fram borinn, hvort því fólki, sem þannig hefur flutt sitt mál hér að undanförnu, er alvara eða hvort um pólitískt skítkast er að ræða. Hitt þótti mér mjög alvarlegt í máli hv. 5. þm. Austurl. þegar hann gat þess að hann þekkti þann mann sem hefði verið skipaður skrifstofustjóri, en engu að síður flutti hann þá ræðu sem hann flutti hér áðan. Það veit hver einasti maður sem þekkir þennan mann að þarna er gífurlega mikilhæfur maður á ferð. (Gripið fram í: Það breytir honum ekki í konu.) Það breytir engu, þegar hugsunin er rökheld, hvort menn eru að skipa mikilhæfa menn eða ekki. En við skulum láta söguna dæma. Og mín trú er sú að hann muni skapa sér sömu virðingu í félmrn. og hann hafði áður unnið sér tiltrú og virðingu manna í sinni byggð, Borgarnesi.