18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4347 í B-deild Alþingistíðinda. (3666)

353. mál, afnám misréttis gagnvart konum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég lýsi því yfir að það er kærkomið fyrir okkur alþm. að fá tækifæri til að samþykkja þessa þáltill. ríkisstj., ekki síst vegna þess að um þessar mundir og á þessu ári lýkur svokölluðum kvennaáratug Sameinuðu þjóðanna.

Það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. félmrh., að fyrir hv. Alþingi liggja tvö frv. er varða jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna. Það hefur verið leitað umsagna fjölda aðila. Þær hafa borist hv. félmn. Nd. og eru þau mál þar og verða til frekari úrvinnslu nú á næstu dögum og vikum. Ég geri fastlega ráð fyrir því að n. skili áliti til hv. þd. snemma í næsta mánuði.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram vegna umræðna sem hér hafa farið fram að í þáltill., sem er flutt af hæstv. ríkisstj., er skýrt tekið fram í athugasemdum við þáltill., IV. lið, að í raun stendur þessi þáltill. alveg ein og sér og ekki er þörf á því að breyta íslenskum lögum til þess að fullt samræmi sé á milli samningsins og íslenskra laga. Að vísu hefur verið bent á að á sínum tíma þurfti að breyta lögum er varða íslenskan ríkisborgararétt, en það hefur þegar verið gert með lögum frá 1982. Í aths. er þetta skýrt tekið fram en þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki er talin þörf frekari lagasetningar né annarra ráðstafana til þess að geta framfylgt samningnum. Fer ríkisstj. því fram á það með till. þessari að Alþingi heimili fullgildingu samningsins af Íslands hálfu.“

Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi skýrt fram við þessa umræðu.