22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4424 í B-deild Alþingistíðinda. (3715)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ætli séu ekki senn fjórar vikur síðan þetta mál kom hér til 2. umr. og ef ég man rétt óskaði hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, 5. þm. Vesturl., eftir frestun umr. Við því var orðið. Þegar málið kom næst til umr. óskaði hv. 9. þm. Reykv., Haraldur Ólafsson, eftir frestun. (Gripið fram í: Nei. Hann óskaði eftir upplýsingum.) Upplýsingum. Umr. var þá frestað. Nú kemur hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, 5. þm. Vesturl., og biður enn um frestun málsins, að mér skilst og hafi ég heyrt rétt hans mál, fyrir hönd viðskrh. og sína eigin. Hann tók þannig til orða að hann sagði: fyrir hönd ráðh. og . .. (Gripið fram í.) Nú, þá hef ég annaðhvort misheyrt eða misskilið hans orð.

Mér finnst satt að segja, virðulegi forseti, að í þessu máli hafi verið tekið fullt tillit til óska þm. um frestun og sé ekkert því til fyrirstöðu að málið sé látið ganga til atkvæða nú og að hæstv. viðskrh. veiti umbeðnar upplýsingar við 3. umr. málsins. Ég sé ekki annað en að í öllu tilliti hafi verið orðið við óskum um frestun og mér finnst því í rauninni ekki eðlilegt og ekki góð vinnubrögð að fresta þessu máli enn einu sinni. Ég virði það og met að forseti skuli taka tillit til óska þm., en hér finnst mér að hafi verið gengið einum of langt því að ég held að þegar hafi fullt tillit verið tekið til óska um frestun og upplýsingar og geti beðið 3. umr. að fá þær upplýsingar sem hv. 5. þm. Vesturl. óskaði eftir frá hæstv. viðskrh. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að málið gangi til atkvæða. Það hefur fengið fullkomlega eðlilega umfjöllun í n. og sú umfjöllun sem fer hér fram við 2. umr. heldur nú í þá átt að verða óeðlileg. Málið er auðvitað að menn verða að gera upp hug sinn til þessa máls og hafa til þess afstöðu og það gera menn með því að láta málið ganga til atkvæða.