23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4486 í B-deild Alþingistíðinda. (3760)

371. mál, verðuppgjör til bænda

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör sem hann veitti hér varðandi þær tafir sem orðið hafa á uppgjöri við bændur vegna liðins verðlagsárs. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. þá staðfesti hann þann mikla drátt sem varð á þessu uppgjöri. Ein helsta skýringin var verkfall opinberra starfsmanna sem ríkisstj. á að sjálfsögðu sinn hlut í að kom til og varð langvinnt. En það svarar þó ekki nema hluta af þessum drætti því að mér er kunnugt um að það var jafnvel komið fram í febrúarmánuð þegar bændur t. d. á Austurlandi fengu endanlegt uppgjör í hendur. Og þá þurftu sumir þeir sömu að endurgreiða í rauninni það sem reiknað hafði verið með að þeir fengju í tekjur vegna liðins framleiðsluárs. Hér er um beina skerðingu að ræða á kaupi bóndans.

Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að hugsað er til þess að breyta þessu kerfi því að við það er ekki búandi af hálfu bænda. Að sjálfsögðu þarf að koma þessum málum í það horf að bóndinn viti fyrir fram hvaða tekjur hann á í vændum af búrekstri sínum á komandi framleiðsluári en ekki að hann fái uppgjörið þegar því er lokið. Það er vissulega góðra gjalda vert ef menn geta fyrr en seinna komið málum í það horf. Í sambandi við verðskerðinguna, sem margir bændur hafa þurft að þola varðandi afurðir framleiddar skv. búmarki, er vert að hafa í huga hinn mikla milliliðakostnað sem vinnslustöðvarnar og afurðasölufélögin taka til sín. Ég hef t. d. hér handa á milli upplýsingar varðandi 10 sláturleyfishafa þar sem launin vegna sláturkostnaðar voru 4,25 kr. á kg vegna verðlagsársins 1982–1983 en skrifstofu — og heildsölukostnaður nam nokkurn veginn sömu og þó ívið hærri upphæð en allur launakostnaðurinn, þ. á m. heildsölukostnaður SÍS 1,69 kr. á kg og annar skrifstofu- og heildsölukostnaður 2,59 kr. Hér er um þætti að ræða sem fyllsta ástæða er til að fara ofan í þegar litið er á þá verðskerðingu sem margir bændur hafa mátt þola og er tekin beint af kaupi þeirra.