23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4492 í B-deild Alþingistíðinda. (3766)

380. mál, búnaður bandaríska herliðsins í stöðvum Landsímans

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Sem svar við þessari fsp. þá er hér um eitt tilvik að ræða. Á s. l. vori var fjarskiptatæki, þ. e. radíóstöð sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hafði látið starfrækja í húsi flugmálastjórnar á Fjarðarheiði, flutt yfir í húsakynni Póst- og símamálastofnunar á Viðarfjalli í Svalbarðshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu ásamt leigulínu eins og áður var. Hér var því um flutning að ræða á tækjum sem áður höfðu verið samþykkt af stjórnvöldum. Tilgangurinn með radíóstöð af því tagi sem hér um ræðir er að hafa fjarskiptasamband við loftför vegna flugumsjónar og til samræmis á flugi varnarliðsins og öðru flugi á íslenska flugumsjónarsvæðinu. Þetta er sú eina breyting sem hefur verið gerð frá því að ég varð samgrh.

Fsp. hljóðar svo: „Hefur samgrn. gefið út heimild til Pósts og síma til að setja búnað frá bandaríska herliðinu í stöðvar Landssímans á nokkrum stöðum á landinu?“ — Mér er ekki kunnugt um annað en þetta. Einnig tel ég að ég hafi svarað síðari spurningunni um eðli þessa búnaðar og hvaða tilgangi hann þjónar.