30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

80. mál, einingahús

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mig langar að taka undir þakkir síðasta ræðumanns til fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og sérstaklega að þakka hæstv. ráðh. fyrir hans svör sem voru nánast ekki önnur en þau að hann væri ósammála álitsgerð húsnæðismálastjórnar. Það þykir mér gott að heyra.

Ég hef sjaldan hlustað á annan eins lopa og þann sem við urðum að hlýða á frá þessari stofnun. Inntakið var raunar ekki annað en það að þeir þyrftu þá minna að lána, það yrði kannske eitthvað svipað útstreymi almennt, en það yrði minna til þessarar greinar. Síðan var sagt að það hefði mátt veita lán til verksmiðjusmíðaðra húsa á meðan framleiðslan var á bernskuskeiði, en nú sé það ekki þörf lengur, nú eigi að fara að mismuna enn þá meira en gert hefur verið og þá þurfi Húsnæðisstofnunin síðar — og verr — að greiða út þau lán sem henni ber. Þetta var í rauninni inntakið í því sem Húsnæðisstofnun sagði.

Auðvitað vitum við að fjár er vant til allra mögulegra og líka reyndar, finnst sumum, til ómögulegra hluta í þessu landi og hæstv. ráðh. er auðvitað í erfiðleikum með að sinna þessu mikilvæga málefni. En hitt er gott að vita að hann ætlar sýnilega ekki að láta bjóða sér og öðrum það sem í þessari ályktun húsnæðismálastjórnar felst þannig að þessi blómlega starfsemi, sem er auðvitað enn á bernskuskeiði, verði ekki drepin. Ég vona að flestir eða allir þm. muni styrkja hæstv. ráðh. í þeirri viðleitni hans, sem fram undan er á næstu vikum og mánuðum, og láti það ekki gerast að þessi ályktun húsnæðismálastjórnar komi nokkurn tíma til framkvæmda.