23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4502 í B-deild Alþingistíðinda. (3784)

432. mál, hörpudisksmið í Breiðafirði

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa vakið máls á þessu máli hér og það var athyglisvert að hlýða á svör hæstv. ráðh. Fram hefur komið hvernig staðan er varðandi veiðarnar og að þetta er þeim mönnum, sem þarna eiga allt sitt undir, auðvitað verulegt áhyggjuefni. Ég vil sömuleiðis ítreka þær hvatningar, sem hér hafa komið fram til hæstv. ráðh., um að meira verði gert af því að sinna rannsóknum á þessu sviði og þar verði ekki látið við það eitt sitja, sem hæstv. ráðh. nefndi hér áðan, heldur tekið betur á, og þá sérstaklega í ljósi þeirrar ákvörðunar hæstv. ráðh. að veita fleiri aðilum vinnsluleyfi, eins og gert var illu heilli að mínu mati, illu heilli. Ég held að það sé afar brýnt, þar sem þarna er um dýrmæta auðlind að ræða, að þessar rannsóknir verði auknar svo að fyrir liggi eins mikil vitneskja og auðið er að afla með nútímatækni um þessa mikilvægu auðlind, þannig að ekki verði of nærri henni gengið, eins og mér sýnist því miður að gæti nú litið út fyrir og eins og fram kom raunar af þeim tölum sem hæstv. ráðh. las hér. En sem sagt, ég ítreka þakkir fyrir að það skuli hafa verið vakið máls á þessu máli sem vissulega þarf að ræða og hvet til þess, og tek undir með fyrirspyrjanda, að þessum rannsóknum verði sinnt í ríkara mæli og betur en gert hefur verið.