23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4509 í B-deild Alþingistíðinda. (3797)

426. mál, hafnareglugerð

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég minnist þess að þessar till. voru fluttar. Það er rétt að ráðh. skal við árslok 1984 setja reglugerð um framkvæmd þessara laga. Skv. þessu ákvæði hefði þessari reglugerð átt að vera lokið um síðustu áramót. Ástæður fyrir því að svo er ekki eru þær umfangsmiklu skipulagsbreytingar á Hafnamálastofnun ríkisins sem unnið var að á s. l. ári og fyrstu mánuðum þessa árs, en þær tóku ekki formlega gildi fyrr en 1. mars s. l. Þar sem skipulag stofnunarinnar skipti verulegu máli við samningu reglugerðarinnar varð að ráði að fresta henni um hríð þar til fyrir lægi hvernig skipulagsmálin yrðu leyst.

Ég hef falið hafnaráði að gera tillögur til mín um nýja reglugerð, en sum atriði hennar verða vandasöm og vandunnin eins og nánari útfærsla sem er að finna í sjálfum lögunum um styrkhæfni hafnaframkvæmda. Um margt má þó styðjast við reglugerð frá 1974 um þessi efni. Ég hef einnig rætt þau tilteknu atriði sem hv. fyrirspyrjandi gerði að umræðuefni. Vinna að samningu reglugerðarinnar er hafin fyrir nokkru og verður henni væntanlega lokið á komandi sumri: