23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4515 í B-deild Alþingistíðinda. (3807)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. utanrmn. hefur haft mál þetta til ítarlegrar athugunar á mörgum fundum sínum.

Hæstv. utanrrh. kynnti hugmyndir um endurnýjun ratsjárkerfis varnarliðsins þegar sumarið 1983 og fljótlega kom málið til umræðu á fundi nefndarinnar og hugmyndirnar voru formlega kynntar nefndinni 12. des. 1983, á fundi þar sem mættir voru þeir Sverrir Haukur Gunnlaugsson deildarstjóri varnarmáladeildar og dr. Þorgeir Pálsson dósent við Háskóla Íslands, en hann hefur verið helsti ráðgjafi utanrrn. um tæknilega hlið málsins. Auk framangreindra manna hafa starfað í sérstakri ratsjárnefnd þeir Haukur Hauksson varaflugmálastjóri, Ólafur Tómasson yfirverkfræðingur Pósts og síma og Berent Sveinsson yfirloftskeytamaður hjá Landhelgisgæslu.

Nefnd þessi skilaði skýrslu um ratsjárkerfi varnarliðsins og þau not sem Íslendingar gætu af því haft. Formlega var skýrsla þessi kynnt og tekin til umfjöllunar í utanrmn. 3. des. 1984 að viðstöddum ratsjárnefndarmönnum sem svöruðu öllum þeim fsp. sem til þeirra var beint. Síðan hefur nefndin formlega fjallað um málið á tveimur fundum sínum, 25. janúar s. l. og 2. apríl. Fulltrúar frá ratsjárnefnd komu á báða þessa fundi þar sem m. a. var sérstaklega rætt um hernaðarlega hlið málsins. Gunnar Gunnarsson starfsmaður öryggismálanefndar kom einnig á annan þessara funda og gerði grein fyrir sínu áliti á málinu. Hann hefur síðan fjallað um málið í sérstakri grg. sem nefnist „Keflavíkurstöðin: Áætlanir og framkvæmdir.“

Rétt er einnig að geta þess að hv. utanrmn. fór í eins dags skoðunarferð til Keflavíkurflugvallar þann 22. febr. s. l., bæði aðalmenn og varamenn, og skoðaði alveg sérstaklega ratsjárbúnaðinn sem þar er, en hann er að mestu leyti um 25 ára gamall. Er víst óhætt að fullyrða að öllum hafi þá orði ljóst hve frumstæður sá búnaður er. Sérstaka athygli vakti að aftan við geysistóran gagnsæjan plastskerm voru margir menn á fleygiferð upp og niður eins konar rimlaverk til að rita á skerminn spegilskrift með margvíslegum litum til að þeir sem utan hússins unnu gætu séð þetta stafa- og táknaflóð réttum augum. Tilburði á borð við þessa væri naumast hægt að sjá í nokkrum fimleikasal, en vafalítið í frumskógum hitabeltislanda. — En þetta var nú innskot. Hitt er staðreynd að upplýst var að mjög mætti bæta öryggi með fullkomnari búnaði og jafnframt fækka verulega starfsliði í þessari ratsjárstöð.

Rétt er einnig að geta þess að á vegum utanrrn. hafa að undanförnu verið haldnir margir kynningarfundir um málið, ekki síst í þeim byggðarlögum sem eru í grennd við staði þá sem til álita koma fyrir hinar nýju stöðvar. Enginn getur því haldið því fram að mál þetta sé illa undirbúið eða illa kynnt. Þvert á móti hygg ég að mér sé óhætt að þakka hæstv. utanrrh. og aðstoðarmönnum hans sérstaklega fyrir hönd utanrmn. allrar fyrir lipurð alla og greið svör, en ekki var staðið upp frá umræðum og afgreiðslu málsins í nefndinni fyrr en öllum spurningum hafði verið svarað og sérstaklega yfirlýst að nm. hefðu ekki fleiri spurninga að spyrja. Hér er því komið að pólitískri ákvörðun Alþingis sjálfs eins og vera ber.

Því miður klofnaði nefndin í afstöðu sinni til málsins. Meiri hl. mynda þm. Sjálfstfl. og Alþfl. í hv. utanrmn., auk mín þeir Ólafur G. Einarsson, Gunnar G. Schram og Kjartan Jóhannsson, 1. minni hl. hv. þm. Alþb. og Kvennalista, Hjörleifur Guttormsson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, sem vilja samþykkja till., og 2. minni hl. hv. þm. Framsfl. Haraldur Ólafsson sem leggur til að till. verði vísað til hæstv. ríkisstj. Hv. þm. Guðmundur Einarsson sat fundi nefndarinnar fyrir hönd BJ þegar mál þessi voru rædd og mun hann sjálfsagt í umr. gera grein fyrir sinni afstöðu eins og ég á von á að talsmenn minni hlutanna tveggja geri grein fyrir sinni afstöðu hér á eftir.

Ég leyfi mér að nota þetta tækifæri til að upplýsa þingheim um það að í utanrmn. hafa afvopnunar- og kjarnorkumál mjög verið til umræðu, bæði formlega og óformlega, og nefndin haft forgöngu um að undirnefnd starfaði til að reyna að samræma sjónarmið í þessum þýðingarmiklu málum. Þessi undirnefnd hélt m. a. fund nú í hádeginu og óskaði ég eftir því að fá að vera þar áheyrnarfulltrúi, en utanrmn. hefur sett sér það markmið að reyna á fundi hinn 6. maí n. k. að ná samstöðu í þessum málum að fengnu áliti undirnefndarinnar sem hefur frest til að skila því til 5. maí.

Mér er ljúft að lýsa því hér yfir að ég mun til hins ýtrasta reyna að ná samstöðu um þessi veigamiklu mál og afgreiða þau með einhverjum hætti fyrir þinglok. Skoðun mín er raunar sú að miklu minna beri á milli í sjónarmiðum Íslendinga varðandi afvopnunar- og kjarnorkumál en menn virðast stundum álíta, enda væri það einkennilegt ef við værum ekki í grundvallaratriðum sammála um þessi stærstu mál alls mannkyns.

Í nál. meiri hl. eru í tíu liðum talin helstu rök fyrir því að fella beri þáltill. og skal ég nú víkja nokkuð að þeim án þess þó að fara að lesa nál. upp eða tefja tímann, en vil mjög gjarnan verða við óskum hæstv. forseta um að flytja hér ekkert óþarft mál. Ég tel þó að ég þurfi að nota nokkrar mínútur til viðbótar.

Fyrst og fremst eru rökin þau að endurnýjun þessa úrelta ratsjárkerfis er augsýnilega alveg nauðsynleg og það sáum við nm. þegar við heimsóttum Keflavíkurflugvöll. Hins vegar teljum við í meiri hl. eðlilegt að byggja stöðvar austan- og vestanlands og einmitt á svipuðum slóðum og ratsjárstöðvar áður fyrr voru til þess að hafa nokkurn veginn yfirsýn yfir íslenska efnahagslögsögu og þá flugumferð sem yfir henni er.

Hlutverk varnarliðsins breytist ekkert vegna þessarar endurnýjunar. Ratsjárstöðvarnar fjórar munu gegna sama hlutverki og þær tvær sem nú eru starfræktar, en auðvitað á fullkomnari hátt eins og tilætlunin er, auk þess sem þær ná til stærra svæðis. Þær munu þjóna loftvörnum landsins að sjálfsögðu, þ. e. fylgjast með svæði sem eins og ég sagði áðan er nokkurn veginn hið sama og efnahagslögsagan. Hins vegar efla þær auðvitað sameiginlegar varnir Atlantshafsbandalagsins með því að stuðla að öryggi á siglingaleiðum yfir Atlantshaf en það er lífæð Atlantshafsbandalagsins. E svo óhugnanlega færi að til styrjaldarátaka drægi er það auðvitað mál málanna fyrir það bandalag, sem við erum aðilar að, að geta haldið opnum siglingaleiðum frá Norður-Ameríku og til Evrópu og að því leyti til í þágu Atlantshafsbandalagsins.

Hins vegar geta ratsjárstöðvarnar ekki með neinum hætti talist ögrun við neina þjóð. Þetta er eftirlitsbúnaður og þeir sem með friði fara þurfa ekkert að óttast þennan búnað. Það er alveg ljóst.

Búnaður þessi mun ekkert auka, að okkar áliti, líkur á að árás yrði gerð á Ísland ef til styrjaldar kemur. Það er auðvitað lega landsins sem veldur því hvort í nágrenni við okkar land eða á okkar landi yrðu átök. Sagan sannar það allt saman og þarf ekki um það að hafa mörg orð. Þess er einnig að gæta að það eru auðvitað mörg mannvirki á Íslandi, svo sem orkumannvirki o. s. frv., sem væru ekki síður skotmark ef til þess kæmi en þessar stöðvar. Þær eru hins vegar ekki reistar til loftvarna Norður-Ameríku. Það er held ég alveg ljóst að stystu flugleiðir milli Kola-skaga og Norður-Ameríku eru langt fyrir norðan okkur, enda hafa Kanadamenn og Bandaríkjamenn nýverið gert samninga um það sín á milli að stórefla ratsjárkerfi í Norður-Ameríku vegna þeirrar staðreyndar að stystu flugleiðir eru miklu norðar og koma þessu máli lítið eða ekkert við því að þær flugvélar eða flugskeyti sem hugsanlega væru send til árása á Bandaríki Norður-Ameríku eða Kanada fljúga ekki í nánd við okkur.

Þess er einnig að gæta, og ég tel það ekkert lítils virði, að íslenskir aðilar fengju bein afnot af þessum ratsjárstöðvum og þeim upplýsingum sem þær koma til með að afla. Það má geta þess í þessu sambandi að mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins hefur t. d. veitt Norðmönnum fé til alveg hliðstæðra ratsjárstöðva þar í landi og þeir vinna nú að byggingu þriggja nýrra stöðva, í þessu nágrannalandi okkar, og enginn tekur til þess.

Flugumferðarstjórn sú, sem Íslendingar annast á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, verður auðvitað mun traustari við tilkomu þessara endurbóta. Flugmálastjórn hefur sem kunnugt er um 12 ára skeið notað ratsjár varnarliðsins á Miðnesheiði í því skyni að fylgjast með alþjóðaflugi yfir okkar landi og í nágrenni þess. Með fjórum nýjum ratsjám mætti veita alþjóðafluginu miklu fullkomnari þjónustu en nú er gert eða allt upp að 200 sjómílur frá ströndum. Þetta gæti haft úrslitaáhrif á það hver er hér í nágrenni við okkur og á þjónustu við flugflota heimsins. Ég er ekkert að vanmeta það og tel það ekkert niðurlægjandi að einu leyti eða neinu að við höfum slíkt samband og samstarf við okkar eigin bandalagsþjóðir.

Ratsjárstöðvarnar munu auk þess auka mjög öryggi í innanlandsflugi. Þannig mætti fylgjast með ferðum flugvéla í öllum algengustu flughæðum yfir landinu og milli allra landshluta og í mörgum tilfellum mætti einnig fylgjast með aðflugi að flugvöllum í grennd við stöðvarnar. Það getum við ekki heldur vanmetið og ég tel okkur það ekki til neinnar niðurlægingar eða vansa að njóta þessarar aðstöðu.

Ratsjárstöðvarnar gætu veitt upplýsingar um veður og það kæmi sér mjög vel bæði að því er varðar siglingar og flug. Stöðvarnar má einnig nota, aðstöðuna þar, til ýmiss konar fjarskipta, sem við sjálfir vildum stunda, svo sem milli skipa og lands, sjónvarpssendinga til skipa á hafi úti o. s. frv.

Loks er þess að geta að starfsmenn stöðvanna yrðu íslenskir og reksturinn í höndum okkar Íslendinga. Það tel ég einnig til bóta. Allt eftirlit á vegum varnarliðsins flyttist í eina sameinaða eftirlitsstöð á Keflavíkurflugvelli og þá mundi verða allveruleg fækkun varnarliðsmanna í stöðinni á Stokksnesi við Hornafjörð. En íslenskir starfsmenn verða eitthvað nálægt ellefu talsins í hverri þessara þriggja stöðva út um landið.

Í ljósi þessara staðreynda, sem ég nú hef rakið og skal ekki tefja tímann meir, leggjum við til að þessi þáltill. verði felld, enda teljum við að bygging nýrra ratsjárstöðva og endurbætur þeirra eldri þjóni íslenskum hagsmunum og hagsmunum þess mikilvæga bandalags sem við erum aðilar að og viljum vera aðilar að.